Skip to main content
AlmannatryggingarKjaramálUmsögn

Fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027. 513. mál.

By 12. maí 2022september 1st, 2022No Comments

Nefndarsvið Alþingis
b.t. Fjármálanefndar
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 11. maí 2022

Umsögn ÖBÍ um Fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), skuli lögfestur. Í fjármálaáætluninni er lögð áhersla á að fatlað fólk njóti mannréttinda, valfrelsis og sjálfstæðis og njóti viðeigandi þjónustu og greiðslna eftir þörfum á mismunandi þjónustustigum. Hins vegar er hvergi að finna upplýsingar í áætluninni um það fjármagn sem til þarf við lögfestingu samningsins, þá vekur athygli að á bls. 452 kemur fram að forsætisráðuneytið stefni á að koma á laggirnar sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun til uppfyllingar Parísarviðmiða. Orðalagið „stefnir á“ er áhyggjuefni þar sem því hefur verið lýst yfir að til að lögfesta SRFF verði fyrst að koma á sjálfstæðri mannréttindastofnun.

Umsögn ÖBÍ beinist í aðalatriðum að fjórum efnissviðum sem varða fatlað fólk, það er viðunandi lífskjör og félagsleg vernd, heilbrigði, ferlimál, og búseta.

Ekki er að sjá í fjármálaáætluninni að bæta eigi kjör fatlaðs fólks því áætlun um 2,5% hækkun útgjalda á ári frá 2024 á eingöngu við um lýðfræðilega fjölgun og tekur ekki tillit til hækkandi verðbólgu, sem er að öllum líkindum vanmetin í fjármálaáætluninni. Til að markmið um aukna atvinnuþátttöku örorkulífeyristaka náist þarf að draga verulega úr tekjutengingum TR.
ÖBÍ leggur til að fjármálaáætlunin verði endurskoðuð með kjarabætur fyrir fatlað fólk í huga. Fækkun fólks með 75% örorkumat næst helst fram með auknum endurhæfingarúrræðum og snemmtækum stuðningi við börn og fullorðna. Brýnt er sú aukning sé skýr í útgjaldarömmum fjármálaáætlunarinnar. Fjármálaáætlunin þarf að styðja við þessi markmið en svo er ekki að sjá í núverandi útgáfu hennar.

Kafli 27 örorka og málefni fatlaðs fólks ber þess mjög merki að taka eigi upp nýtt kerfi almannatrygginga. Mikil áhersla er lögð á innleiðingu þverfaglegs mats á vinnufærni einstaklinga sem byggist á líkamlegum, sálfræðilegum og félagslegum áhættuþáttum og komi í stað gildandi örorkumats með það að markmiði að styðja fólk til virkni, þar á meðal þátttöku á vinnumarkaði. Sú áhersla talar inn í stjórnarsáttmála 2021 þar sem meðal annars er sett fram það markmið að einstaklingum sem missa starfsgetu verði í auknum mæli tryggð þjónusta og stuðningur strax á fyrstu stigum með tilliti til líkamlegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta sem hafa áhrif á starfsgetu.

Það veldur ÖBÍ áhyggjum að hvergi er talað um þá sem ekki geta verið á vinnumarkaði sökum fötlunar vegna veikinda eða slysa eða þess að hafa fæðst með fötlun. Afkomuöryggi ætti að vera í forgrunni, að fólki sé tryggð framfærsla að minnsta kosti til jafns við lágmarkslaun.

Þegar markmið og mælikvarðar eru skoðuð er markmiðið helst að fækka þeim sem hafa 75% örorku og auka fjölda þeirra sem eru á vinnumarkaði upp í 28%.

Varðandi fyrra markmiðið bendum við á að fólk mun áfram fæðast fatlað og fatlast af völdum veikinda og slysa.

Seinna markmiðið er mjög varlega áætlað, með réttum aðgerðum verður markmiðinu náð fljótt. Miðað við svör sem ÖBÍ frá TR fékk við nýlegri fyrirspurn um hlutfall öryrkja sem höfðu atvinnutekjur á árinu 2021 er markmiðinu nærri náð nú þegar. Fyrir heimsfaraldur voru um 29% öryrkja á vinnumarkaði skv. TR, þrátt fyrir óhemju tekjutengingar. Þörf er á átaki til að auka framboð fjölbreyttra hlutastarfa og tryggja að vinnumarkaðurinn, bæði sá almenni og hinn opinberi, ráði fjölbreytta flóru fatlaðs fólks til starfa.

Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd

Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar.” SRFF 28. gr.

Úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar:

Horfa þarf til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts í almannatryggingum og gera kerfið gagnsærra og réttlátara. […] Málefni örorkulífeyrisþega verða tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði fólks með skerta starfsorku.

Í töflu fyrir áætluð rekstrar- og tilfærslugjöld til málefnasviðsins örorka og málefni fatlaðs fólks er breyting á milli ára aðeins 1,3% frá fjárlögum 2022 til áætlunar 2023 og einungis 2,5% ár hvert, árin á eftir í samræmi við spá um fjölgun öryrkja. Nýgengi örorku hefur þó verið mun minni undanfarin ár.

Stíga verður stærri skref í hækkun örorkulífeyris til að hann verði að minnsta kosti á pari við lágmarkslaun. ÖBÍ tekur undir mikilvægi þess að fjölga atvinnutækifærum fatlaðs fólks og veita viðeigandi aðlögun. Að hækka hlutfall lífeyristaka með of-/vangreiðslur innan við 50 þúsund krónum um 4% til ársins 2027 verður að teljast lítilvægt markmið. Það er áhyggjuefni að í fjármálaáætluninni er ekki nefnt að draga eigi úr tekjutengingum örorkulífeyris og/eða fella út tekjuskerðingar frá fyrstu krónu á kjörtímabilinu sem nær til ársins 2025 né að fjármagn sé áætlað í breytingar á almannatryggingakerfinu.
Hvernig hafa stjórnvöld hugsað sér að framkvæma ofangreint án fjármagns?

Uppsöfnuð tólf mánaða verðbólga í apríl 2022 er 7,2% og því rúmlega helmingi hærri en spá og forsendur fjárlaga ársins 2022 (3,3%). Verðbólga hefur auk þess farið vaxandi undanfarið og útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram. Verðbólguspá fjármálaáætlunarinnar er í besta falli varfærin miðað við stöðuna innan- og utanlands í dag.

Ein áhersla málaflokksins skv. áætluninni er bætt lífskjör og lífsgæði. Þessi áhersla kemur ekki fram í markmiðum, viðmiðum eða mælikvörðum fyrir málaflokkinn. Enn fremur skortir aðgerðir til að útrýma fátækt, sbr. fyrsta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Eitt af markmiðunum er að hækka hlutfall lífeyrisþega með of-/vangreiðslur innan 50 þúsund kr. úr 71% (staðan árið 2021) í 75% árið 2027. Helsta ástæða ofgreiðslna og krafna örorku- og endurhæfingarlífeyristaka hjá TR eru skerðingar á framfærsluuppbótinni, en hún skerðist frá fyrstu krónu. Ekki virðist gert ráð fyrir fjármagni til að draga úr tekjutengingum í áætluninni.

Heilbrigði

Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar“ SRFF 25. gr.

Það væri óskandi að stjórnvöld leggðu meiri áherslu á heildar- og yfirsýn, tengingar milli kerfa og stofnana og heildstæðrar áætlunargerðar í málefnum fatlaðs fólks og sjúklinga.

Fjármálaáætlun bregður ekki síst ljósi á hversu höllum fæti heilbrigðiskerfið stendur í raun. Bent er á að það vanti yfirsýn yfir úrræði. Því verður að byggja upp miðlæga biðlista um endurhæfingu og aðgerðir eins og liðskiptaaðgerðir. Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga en er ennþá vanmönnuð. Heilbrigðisþjónustan byggir á fólki en því er ósvarað hvernig á að fjölga í fagstéttum.

Dýr heilbrigðisþjónusta og langir biðlistar hafa gríðarslæm og oft illafturkræf áhrif á heilsu og virkni fólks. Mæta verður afleiðingum Covid-19 faraldurs síðustu tveggja ára á andlega og líkamlega heilsu landsmanna.

Það er lykilatriði að greiða fyrir því að fólk geti notið tímanlegrar heilbrigðisþjónustu við hæfi óháð efnahag. Fyrstu skref í þá átt er að endursemja á ábyrgan hátt við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara og að semja við sjálfstætt starfandi sálfræðinga svo að þjónusta fagstéttanna falli öll undir kerfi greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu. Mikill skortur er á endurhæfingarúrræðum, lengd biðlista er úr öllu hófi og því hafa einstaklingar jafnvel enga möguleika á endurhæfingu.
ÖBÍ leggur til að fjármálaáætlunin verði endurskoðuð með það að markmiði að fólk sé ekki án framfærslu á biðlistum eftir endurhæfingarúrræðum og að fjármagn verði sett í að auka endurhæfingaúrræði. Eðlilegast væri að starfrækja endurhæfingarstöð á vegum ríkisins til að mæta þörfum ólíkra hópa sem þurfa á endurhæfingu að halda.

Yfirlýstur vilji stjórnvalda er að lækka kostnað sjúklinga í heilbrigðisþjónustu og tryggja jafnt aðgengi. Vandinn er sá að greiðsluþátttaka fólks í heilbrigðisþjónustu hefur aukist frá árslokum 2018 þegar sérfræðilæknar og svo sjúkraþjálfarar rúmu ári síðar sögðu sig frá samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Síðan hafa þeir lagt á komugjöld og innheimt um 1,7 milljarða árlega úr vasa almennings eins og fram kemur í könnun ÖBÍ frá október 2021. Um síðustu áramót hækkuðu komugjöldin aftur um u.þ.b. 45%. Það er ánægjulegt að stjórnvöld taka nú undir áhyggjur ÖBÍ og lýsa yfir vilja til að leysa þennan vanda, en það er óásættanlegt að ástandið hafi viðgengist óátalið um árabil.

Þegar sjúkraþjálfun var sett undir greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu, minnkaði nýgengi örorku í kjölfarið. Enda skiptir sköpum að aðgengi að hæfingu og endurhæfingu sé gott, eins og viðurkennt er á bls. 407. Síðan hefur aðgengi að þjónustunni verið hert aftur, komugjöld verið sett á og þjónustan ekki í boði á tímabili í faraldrinum.

Í júní 2020 voru lög nr. 93/2020 samþykkt á Alþingi um greiðsluþátttöku vegna sálfræðiþjónustu og aðra gagnreynda samtalsmeðferð með öllum greiddum atkvæðum viðstaddra þingmanna allra flokka. Lögin tóku gildi 1. janúar 2021 en hafa ekki verið innleidd enn, enda óútfærð og ófjármögnuð. Með hliðsjón af fyrrnefndum áhrifum af greiðsluþáttöku vegna sjúkraþjálfunar mun líklega draga úr nýgengi örorku vegna geðræns vanda þegar lögin hafa verið innleidd. Skortur er á sálfræðingum hjá heilsugæslunni og því komast fá að hjá sálfræðingum nema þau sem geta greitt fyrir þjónustuna úr eigin vasa.

Ekki kemur skýrt fram í fjármálaáætlun hvaða fjármagn rennur til endurhæfingarúrræða þrátt fyrir að rauði þráðurinn í kafla 27 og 30 sé að fækka örorkulífeyrisþegum. Rétt er að benda á að dæmi eru um að fólk fái ekki endurhæfingarlífeyri og er því án framfærslu meðan það bíður eftir að ljúka endurhæfingu, en áralöng bið getur verið eftir að komast að. Þá kemur fram í áætluninni að enginn hefur yfirsýn yfir endurhæfingarúrræði, en samt er þess krafist í kerfinu að fólk tæmi endurhæfingarúrræði til að fá framfærslu. Nefnt er að efla þurfi þau þjónustuúrræði sem ætluð eru til að styðja fólk til þátttöku á vinnumarkaði og auka samstarf við VIRK o.fl.

ÖBÍ bendir á að VIRK heyrir hvorki undir ríki né sveitarfélög og því eiga stjórnsýslulögin ekki við um starfsemi VIRK. Ákvarðanir VIRK eru hvorki kæranlegar og né er hægt að leita til umboðsmanns Alþingis vegna þeirra. Um 40% af umsóknum einstaklinga um þjónustu hjá VIRK er synjað þar sem matsviðmið sjóðsins eru ekki í takt við önnur matsviðmið almennrar endurhæfingar.

Ferlimál einstaklinga

Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði þess í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt“ SRFF 20. gr.

Fatlað fólk hefur mun minni möguleika á að fara sinna ferða um landið en aðrir íbúar þess. Landsbyggðarstrætisvagnar eru óaðgengilegir fötluðu fólki, nema á tveim leiðum á ákveðnum tíma. Engin biðstöð á þjóðveginum uppfyllir aðgengiskröfur samkvæmt úttekt ÖBÍ , en eitt lykilviðfangsefni heildarstefnu stjórnvalda í almenningssamgöngum milli byggða er að „aðgengi allra að þjónustunni, þar með talið fatlaðs fólks sem er hreyfihamlað, verði eins og best verður á kosið“ og er það markmið stjórnvalda að árið 2024 muni 90% stoppistöðva almenningssamgangna standast hönnunar- og öryggiskröfur. Því skýtur það skökku við að ekki hefur fengist fjármagn til að hefja framkvæmdir til úrbóta á biðstöðvum á landsbyggðinni og miðað við fjármálaáætlun munu fjárheimildir til samgöngumála skerðast umtalsvert á næstu árum: „Samgöngu- og fjarskiptamál dragast saman um 7,2 ma.kr. á milli áranna 2022 og 2027 sem svarar til 14% lækkunar að raunvirði, eða að meðaltali 2,9% á ári“ (bls. 100).

Það vekur ekki bjartsýni á að ofangreint markmið stjórnvalda muni standast að neinu leyti.

Búseta

Aðildarríki samnings þessa viðurkenna […] að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima í tilteknu búsetuformi,” SRFF 19. gr.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og í fjármálaáætlun kemur skýrt fram að ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir stöðugri uppbyggingu húsnæðis um land allt og að fólk búi við húsnæðisöryggi. Í áætluninni kemur fram tillaga um að auka hlutdeild ríkisins á húsnæðismarkaði úr 30% í 35%. ÖBÍ tekur undir að þetta sé nauðsynlegt þar sem miklar hækkanir á fasteignamarkaði hafa áhrif á rekstur félagslegra leiguíbúða.

ÖBÍ leggur til að árlegt viðbótarframlag stofnframlaga hækki tímabundið vegna kaupa á almennum íbúðum úr 4% í 12% fyrir 200 íbúðir ætlaðar fötluðu fólki. Sú aðgerð stemmir stigu við hækkunum leiguverðs. Húsnæðisbætur og tekjumörk þeirra þarf að tengja við vísitölu neysluverðs, sem væri ein leið til að ná fram lækkun húsnæðiskostnaðar, líkt og kveðið er á í stjórnarsáttmálanum.
ÖBÍ leggur einnig til að komið verði á stofn sérsniðnum lánaflokki fyrir fólk með lágar tekjur þar sem lánstími væri lengri og hlutdeild ríkisins meiri en er í núverandi hlutdeildarlánum.

Í leigukönnun HMS 2021 kemur fram að meðalhlutfall ráðstöfunartekna sem fer í leigu er um 44% sem telst mjög há greiðslubyrði. Líklega mun þetta hlutfall hækka á næstunni vegna hækkandi verðbólgu því leiga bundin vísitölu hækkar sjálfkrafa. Húsnæðisbætur hafa ekki aukist í takt við hækkun leiguverðs og því hefur hlutfall húsnæðiskostnaðar leigjenda af ráðstöfunartekjum hækkað umtalsvert.

Helstu tæki ríkisstjórnarinnar til að aðstoða fólk við kaup á húsnæði eru í formi hlutdeildarlána og ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán. Hvorugt þessara úrræða nær til fólks með lágar tekjur til framtíðar en gagnast ungu fólki á vinnumarkaði.

Örorka og málefni fatlaðs fólks

Aðildarríkin skuldbinda sig til að tryggja að fatlað fólk hafi aðgang að ýmiss konar þjónustu, svo sem heimaþjónustu, búsetuþjónustu og annarri samfélagslegri stuðningsþjónustu, þar á meðal persónulegri aðstoð, sem nauðsynleg er til stuðnings lífi án aðgreiningar í samfélaginu og til að koma í veg fyrir einangrun og aðgreiningu frá samfélaginu.” SRFF 19. gr.

Vísað til laga nr. 38/2018 og jafnframt fullgildingu SRFF árið 2016. Þá segir að lögð sé áhersla á að meta einstaklingsbundnar stuðningsþarfir, frumkvæðisskyldu stjórnvalda og að tryggja að jafnræðisreglan sé virt. Réttindagæsla fatlaðs fólks er sérstaklega nefnd í því samhengi en fjármagnið sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætluninni til handa réttindagæslunni er afar takmarkað. Hingað til hefur réttindagæslunni verið úthlutað of litlu fjármagni sem gerir það að verkum að biðin eftir aðstoð er alltof löng og starfsmenn ná ekki að sinna öllum málum sem inn á þeirra borð koma.

Ætli Ísland sér að uppfylla þær alþjóðlegu skuldbindingar sem það hefur undirgengist er brýnt að gert sé ráð fyrir mun meira fjármagni til réttindagæslu fatlaðs fólks.
Nauðsynlegt er að gerðar verði ráðstafanir til að tryggja að fatlað fólk hafi raunverulegan aðgang að NPA þjónustu og ekki sé miðað við fjölda samninga á innleiðingartímabili þegar fjárhæð til NPA þjónustu er ákveðin.
ÖBÍ leggur til að hækkun til NPA verði endurskoðuð með það fyrir augum að bæta stöðuna þannig að merkjanlegt sé að greiðslur raunverulega hækki en standi ekki í stað.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 38/2018 eiga einstaklingar rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) ef þeir hafa miklar og viðvarandi stuðnings- og þjónustuþarfir við athafnir daglegs lífs. Fram kemur í áætluninni að tímabundin fjárveiting ársins 2022 að fjárhæð 320 m.kr. til NPA þjónustu sé komin varanlega inn í útgjaldarammann frá árinu 2023. Sú fjárhæð sem gert er ráð fyrir vegna NPA samninga nær einungis til þeirra samninga sem nú þegar eru í gildi.

ÖBÍ fagnar nýrri farsældarlöggjöf og áréttar að sérstaklega verði að beina sjónum að fötluðum börnum og börnum í viðkvæmri félagslegri stöðu þannig að þau njóti stuðnings og batnandi lífskjara.

ÖBÍ fagnar því að ætlunin sé að koma á samhæfðri þjónustu fyrir viðkvæma hópa sem ætlað er að sporna við brotthvarfi úr framhaldsskólum og að bæta eigi stöðu fjölskyldna langveikra og fatlaðra barna með nýju fyrirkomulagi umönnunarstyrks og greiðslna. Áhyggjuefni er að aðeins sé áætluð 2.5% árleg hækkun til þeirra greiðslna. Augljóslega mun sú hækkun ekki bæta stöðu þessa hóps heldur í besta falli ná að stemma stigu við verðbólgu og árlegum hækkunum. Á bls. 424 kemur fram að endurskoða eigi greiðslur til að taka betur mið af raunverulegri þörf barna fyrir umönnun í stað þess að áherslan sé á skráðar greiningar.

Samkvæmt framtíðarsýn og meginmarkmiðum kafla 27 í fjármálaáætluninni er sérstaklega tekið fram að full mannréttindi fatlaðs fólks verði efld, varin og tryggð til jafns við aðra og skilyrði sköpuð til að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Allt fatlað fólk njóti grundvallarfrelsis og virðing verði borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði. ÖBÍ fagnar því að meginmarkmiðið sé að tryggja fötluðu fólki full mannréttindi, en til þess að því markmiði verði náð verður að gera ráð fyrir töluvert meira fjármagni.

ÖBÍ fer þess vinsamlegast á leit að fá nánari upplýsingar um hvernig fjármálaáætluninni er ætlað að styðja ofangreind markmið, hvaða fjármagni eigi að verja til þess og hvernig upphæðir sem verja á til uppfyllingu markmiðanna hafi verið fundnar út.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Bergþór Heimir Þórðarson, varaformaður ÖBÍ
Bára Brynjólfsdóttir, lögfræðingur
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri ÖBÍ
Valdís Ösp Árnadóttir, verkefnastjóri ÖBÍ