Skip to main content
AlmannatryggingarKjaramálUmsögn

Breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54 (desemberuppbót)

By 8. september 2022febrúar 9th, 2023No Comments

Summary

„ÖBÍ leggur til að desemberuppbót fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka verði reiknuð út frá framfærsluviðmiði í stað þess að reikna uppbótina út frá einum greiðsluflokki. Framfærsluviðmið almannatrygginga er 288.283 kr. á mánuði. Til að gæta samræmis við útreikning desemberuppbótar á grunnatvinnuleysisbætur verði sama hlutfall notað, þ.e. 30%. Fjárhæð desemberuppbótar myndi hækka úr 51.447 kr. í 86.485 kr.“

„ÖBÍ leggur til að desemberuppbót fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka verði reiknuð út frá framfærsluviðmiði í stað þess að reikna uppbótina út frá einum greiðsluflokki. Framfærsluviðmið almannatrygginga er 288.283 kr. á mánuði. Til að gæta samræmis við útreikning desemberuppbótar á grunnatvinnuleysisbætur verði sama hlutfall notað, þ.e. 30%. Fjárhæð desemberuppbótar myndi hækka úr 51.447 kr. í 86.485 kr.“

Umsögn ÖBÍ um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, (desemberuppbót) 

ÖBÍ vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum í þeirri von að löggjafinn hafi í huga mikilvægi þess að kjör fatlaðs fólks / örorkulífeyristaka séu bætt og tryggð í samræmi við kjör annarra eða í þessu tilfelli atvinnuleitendur.

Samkvæmt frumvarpinu er tilgangur lagasetningarinnar að draga úr óvissu þannig að ekki leiki vafi á því að desemberuppbætur verði greiddar á ári hverju, enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. ÖBÍ tekur heilshugar undir þessa breytingartillögu en hvetur eindregið til þess að sömu breytingar verði gerðar á lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þar er sami hátturinn hafður á, þ.e. er að ár hvert er birt reglugerð um eingreiðslur til lífeyristaka sem sett er með stoð í 70. gr., sbr. 69. gr., laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 14. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

Tryggja verður að örorku- og endurhæfingarlífeyristakar búi við sama fjárhagsöryggi og frumvarpi þessu er ætlað að tryggja þeim sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, það er að lögin kveði skýrt á um að desemberuppbætur séu greiddar á ákveðnum tíma ár hvert. Í 2. mgr. 2 gr. frumvarpsins segir að hámarksfjárhæð desemberuppbótar skuli nema 30% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum og mikilvægt sé að fjárhæðin hækki til samræmis við fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Þá er einnig lagt til í 3. mgr. 2. gr. að lágmarksfjárhæð desemberuppbótar skuli nema 25% af hámarksfjárhæð desemberuppbótar hverju sinni. ÖBÍ bendir á að engir slíkir varnaglar um hámarks- eða lágmarksfjárhæðir desemberuppbótar eru til staðar fyrir örorkulífeyristaka.

Til viðbótar við greiðslu desemberuppbótar fá atvinnuleitendur greidda uppbót sem nemur um 6% af óskertri desemberuppbót með hverju barni sem þeir hafa á framfæri. Slíka uppbót fá örorku- og endurhæfingarlífeyristakar ekki. Samkvæmt niðurstöðum Vörðu1 eiga yfir 54% einstæðra fatlaðra foreldra erfitt með að ná endum saman. Bjargir þessara einstaklinga eru ýmsar hjálparstofnanir sem úthluta matargjöfum, sumir búa að því að ættingjar reyni eftir fremsta megni að aðstoða með því að færa björg í bú, þó flestir eiga nóg með sig. Fjárhæð desemberuppbótar á grunnatvinnuleysisbætur er mun hærri en fjárhæð desemberuppbótar til örorku- og endurhæfingarlífeyristaka. Fyrir árið 2022 er fjárhæð desemberuppbótar á grunnatvinnuleysisbætur 42.671 kr. hærri en desemberuppbót fyrir örorku- og endur- hæfingarlífeyristaka.

Fjárhæð desemberuppbótar til atvinnuleitenda er reiknuð úr frá óskertum grunnatvinnu- leysisbótum, en þær eru 313.729 kr. á mánuði m.v. 100% bótarétt. Hámarksfjárhæð desemberuppbótar fyrir árið 2022 til atvinnuleitenda er því 94.118 kr. Fjárhæð desember- uppbótar fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka er hins vegar reiknuð út frá einum greiðsluflokki í lögum um almannatryggingar nr. 100/2007, tekjutryggingu (22.gr.).

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1647/2021 um eingreiðslur til lífeyrisþega árið 2022 skal: „Desemberuppbót til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega [skal] nema 30% af fjárhæð tekjutryggingar og heimilisuppbótar lífeyrisþega, sbr. 1. mgr. Fjárhæð desemberuppbótar reiknast miðað við 1/12 af greiðslurétti lífeyrisþega á árinu 2022.“

Hámarksgreiðsla fyrir tekjutryggingu er 173.598 kr. á mánuði frá 1.6. 2022, en var 168.542 kr fyrstu fimm mánuði ársins. Örorku- og endurhæfingarlífeyristakar með óskerta tekju- tryggingu allt árið munu því eiga rétt á desemberuppbót að fjárhæð 51.447 kr. Desember- uppbót er einnig reiknuð út frá heimilisuppbót. Einungis 32% örorkulífeyristaka fær greidda heimilisuppbót og getur hámarksgreiðsla desemberuppbótar til þeirra numið 68.752 kr. og er einnig mun lægri en desemberuppbót til atvinnuleitenda.

ÖBÍ leggur til að desemberuppbót fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka verði reiknuð út frá framfærsluviðmiði í stað þess að reikna uppbótina út frá einum greiðsluflokki. Framfærsluviðmið almannatrygginga er 288.283 kr. á mánuði. Til að gæta samræmis við útreikning desemberuppbótar á grunnatvinnuleysisbætur verði sama hlutfall notað, þ.e. 30%. Fjárhæð desemberuppbótar myndi hækka úr 51.447 kr. í 86.485 kr.

Enn fremur leggur ÖBÍ til að desemberuppbót til örorku- og endurhæfingarlífeyristaka sem fá greidda heimilisuppbót verði reiknuð út frá framfærsluviðmiði almannatrygginga með heimilisuppbót og að fjárhæð desemberuppbótar skuli nema 26% af framfærsluviðmiði með heimilisuppbót. Framfærsluviðmið með heimilisuppbót er 362.478 kr. á mánuði. Breytingin myndi hækka desemberuppbótina fyrir þennan hóp úr 68.752 kr. í 94.244 kr. Réttast væri að mati ÖBÍ að desemberuppbót til lífeyristaka væri jafnhá og aldrei lægri en desemberuppbót til fullvinnandi með lágmarkstekjutryggingu í dagvinnu.

Stór hluti örorku- og endurhæfingarlífeyristaka fær enga eða mjög skerta desemberuppbót sökum þess að fjárhæð hennar er reiknuð út frá greiðsluflokkunum, tekjutrygging og heimilisuppbót. Báðir greiðsluflokkanir skerðast vegna lífeyrissjóðstekna. Frítekjumark gagnvart lífeyrissjóðstekjum er einungis 27.400 kr. á mánuði og hefur verið óbreytt frá árinu 2009. Hópur örorku- og endurhæfingarlífeyristaka fer á mis við desemberuppbót vegna mikilla tekjutenginga við lífeyrissjóðstekjur. Lífeyrissjóðirnir greiða ekki desemberuppbót. Samkvæmt tölum frá Tryggingastofnun eru rúmlega helmingur örorkulífeyristaka með tekjur frá lífeyrissjóðum og rúmlega 60% fær greidda skerta tekjutryggingu vegna tekna.

Í frumvarpsdrögunum er lagt til að sett verði inn ákvæði um lágmarksfjárhæð desemberuppbótar og skuli hún nema 25% af hámarksfjárhæð desemberuppbótar eða 23.530 kr. Lífeyristökum er ekki tryggð lágmarksfjárhæð desemberuppbótar.

Um 27% örorkulífeyristaka er með einhverjar atvinnutekjur skv. tölum frá TR. Þessi einstaklingar geta verið að fá greidda desemberuppbót að hluta hjá vinnuveitanda. Tekjutengingar við atvinnutekjur gera það að verkum að þessi einstaklingar fá lægri desemberuppbót frá TR, þ.e. ef atvinnutekjur þeirra eru yfir frítekjumarkinu (109.600 kr. á mánuði). Frítekjumark vegna atvinnutekna hefur einnig verið óbreytt frá árinu 2009. Örorkulífeyristakar geta því ekki fengið fulla desemberuppbót hjá TR og vinnuveitenda á sama tíma.

Ætla má að hækkun desemberuppbótar til örorku- og endurhæfingarlífeyristaka í samræmi við tillögur í umsögninni hefðu meiri áhrif á konur en karla þar sem mun fleiri konur en karla fá örorku- og endurhæfingarlífeyri greiddan frá TR.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ

Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Mál nr. 154/2022. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, (desemberuppbót). Umsögn ÖBÍ, 8. september 2022