Skip to main content
NPAViðtal

„Án þessara atriða er fólk fast í stofufangelsi“

By 4. október 2021ágúst 31st, 2022No Comments

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður málefnahóps ÖBÍ um sjálfstætt líf

„Fyrir um sex árum hóf ég að berjast fyrir því á Stefnuþingi ÖBÍ að lögð yrði áhersla á rétt til sjálfstæðs lífs. Í framhaldinu var hópurinn settur saman og ég hef gegnt formennsku í honum síðan. Okkar helstu baráttumál hafa verið lögfesting og innleiðing NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) á Íslandi. Auk þess höfum við lagt áherslu á samráð við fatlað fólk við gerð laga og reglna sem tengjast okkur.

Sjálfstætt líf, húsnæðis- og aðgengismál fatlaðs fólk er það sem ég brenn mest fyrir persónulega. Þessi mál eru mikilvægustu áherslurnar fyrir stóra hópa fatlaðs fólks vegna þess að án þessara atriða er fólk fast í stofufangelsi heima hjá sér og þegar þú ert fastur í stofufangelsi heima hjá þér þá skipta nokkrar aukakrónur í veskið minna máli,“ segir Rúnar Björn sem einnig er formaður NPA-miðstöðvarinnar.

„Okkar helstu baráttumál hafa verið lögfesting og innleiðing NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) á Íslandi.“

„Lögfesting NPA náðist í gegn 2018 og innleiðingin er enn í gangi. Margar af þeim áherslum sem ÖBÍ lagði áherslu á náðust inn í lögin, reglugerðir og reglur sveitarfélaganna, með virku samráði. NPA-samningum hefur fjölgað, ekki eins mikið og þörf er á. Vitund fatlaðs fólks og almennings um hvað sjálfstætt líf er og um hvað rétturinn snýst, hefur aukist. Enn hefur ekki náðst það takmark að allt fatlað fólk fái þjónustu í samræmi við þarfir og vilja. Ég hvet fatlað fólk til að skoða hvort þau séu að njóta allra réttinda sem þau eiga og ef þau telji að svo sé ekki, þá láta í sér heyra.“

Einhver skilaboð til stjórnvalda?

„Réttindum frestað, er réttindum hafnað.“

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. Ljósmynd: Hákon Davíð Björnsson.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)