Skip to main content
FréttSkoðun

Ávarp þriðja desember

By 3. desember 2021október 4th, 2022No Comments
Þriðji desember er dagurinn okkar, alþjóðadagur fatlaðs fólks og við eins og áður minnum á tilverurétt okkar og það sjálfsagða, að við erum hluti af tilverunni, elskum, lifum og deyjum eins og allir aðrir. Við erum hluti af samfélagi, samfélagi, þar sem við fatlað fólk eigum að vera viðurkennd og meðtekin. Við erum 15% þjóðarinnar.

Við fögnum deginum og verðlaunum einstaklinga, samtök eða fyrirtæki, fyrir að vera samfélaginu hvatning til að breyta viðhorfum og vinna að mannréttindum fatlaðs fólks á margvíslegan hátt, sem miðar að því að skapa jákvæða ímynd og stuðla að einu samfélagi, þar sem við öll í margbreytileika okkar fáum notið okkar.

Eitt samfélag fyrir alla! Hvernig samfélag er það?

Samfélag fyrir alla er þar sem margbreytileikinn birtist í fjölbreytni og litríku mannlífi þjóðarinnar. Þar sem við öll eigum pláss og fáum að njóta okkar. Samfélag þar sem allir hafa tækifæri til þátttöku, óháð því hvort þeir eru fatlaðir eða ófatlaðir. Þar sem margbreytileikinn endurspeglast í öllu því sem þjóðin hefur fyrir stafni hverju sinni.

Þannig samfélagi er gott að búa í!

Mér liggur mikið á hjarta, ný ríkisstjórn hefur litið dagsins ljós, væntingar mínar til hennar eru miklar. Eðlilega, það eru svo mörg og svo stór verkefni sem lúta að fötluðu fólki sem bíða leiðréttingar, verkefni sem ekki hefur verið sinnt í áraraðir.

Ég vænti þess að stjórnarsáttmálinn verði ekki bara falleg orð heldur fylgi þeim vörðuð leið út úr fátækt og fordómum. Að unnið verði í þágu fatlaðs fólks að þessu sinni. Áhersla verði sett á að bæta hag og stöðu okkar. Að fátækt verði útrýmt, og velsæld nái til jaðarsettasta hóps samfélagsins, að hann verði raunverulega tekinn með. En ekki skilinn eftir!

Þegar ég lít yfir árið og horfi til þess sem hæst ber á vettvangi okkar, kemur ljóslifandi upp í hugann fjölmörg verkefni ýmissa félaga fatlaðs fólks, ber þar hátt verkefnið SEM fuglinn fljúgandi, en þar vann formaður SEM samtakanna afrek þegar hann hjólaði 400 kílómetra leið á innan við sólarhring, á handaflinu einu saman. Tilgangurinn var að safna fyrir rafmagns fjallahjólum fyrir hreyfihamlaða og stuðla þannig að heilsubót, líkamlegri og ekki síst andlegri. Mér dettur í hug Styrktarsjóður Geðheilbrigðis, sem settur var á stofn af Geðhjálp í þeim tilgangi að styrkja góð verkefni sem stuðla að bættu geðheilbrigði þjóðarinnar.

Ég hugsa til þeirra einstaklinga sem ryðja brautina fyrir okkur hin, einstaklinga sem brjóta niður ósýnilega múra sem hafa haldið fötluðu fólki utan við, út á jaðrinum, ekki með.

Mér dettur í hug Freyja Haraldsdóttir sem dag er foreldri, sem hefur setið á Alþingi sem er í doktorsnámi og sem vinnur við réttindagæslu fatlaðs fólks.

Mér dettur í hug öll þau sem hafa komið fram í þáttunum „Dagur í lífi“ undanfarin sunnudagskvöld. Venjulegt fólk sem vill samfélag þar sem við öll höfum tækifæri og erum virkir þátttakendur, því þannig samfélag er auðugt samfélag.

Ég hugsa um ólympíufarana okkar sem héldu á ólympíumót fatlaðra í sumar, sannarlega kraftmikið fólk og framúrskarandi og þau fylltu okkur þjóðina, stolti og eldmóði.

Mér er hugsað til foreldra fatlaðra barna berjast fyrir réttindum barna sinna og tilveru og aðra aðstandendur sem hvern dag mæta á vaktina fyrir ástvini sína.

Ég hugsa um þau sem mæta hverjum degi með jákvæðu hugarfari, staðráðin að dagurinn í dag verði sá besti af því þau vita að lífið getur breyst á andartaki, þess vegna er það svo dýrmætt og einfalt í sjálfu sér að temja sér jákvæðni, jafnvel þó ýmsir erfiðleikar steðji að.

Og í dag gleðjumst við, og þökkum öflugu og vel hugsandi samferðafólki fyrir framlag þess til réttindabaráttu fatlaðs fólks. Um leið hvetjum við alla til að leggjast á árarnar með okkur til að gera samfélag okkar raunverulega að einu samfélagi fyrir alla!

Ég óska öllum þeim sem voru tilnefnd til Hvatningarverðlauna ÖBÍ innilega til hamingju, þið breytið samfélaginu fyrir okkur hin, þið skiptið máli!