Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks
SKÝRSLA október 2022
VSÓ Ráðgjöf fyrir ÖBÍ réttindasamtök
Tvær útgáfur af skýrslunni:
- Prentútgáfa er með töflum og fjölda ljósmynda af stoppistöðvum Strætó (PDF)
- Textaútgáfa á obi.is sem hægt er að hlusta á með talþulu eða því hjálpartæki sem hentar best. Myndefni er með minna móti sem og töflur.
Viðamesti kafli skýrslunnar er „5.1 Ástandsmat stoppistöðva“ sem tekur 43 blaðsíður í PDF útgáfunni. Kaflinn er að stærstum hluta í töfluformi þar sem skráðar eru niðurstöður úttekta á stoppistöðvum. Í stuttu máli þá leiddi sú greining í ljós að af 168 stoppistöðvum voru 165 til 166 með slæmt eða mjög slæmt aðgengi og/eða yfirborð.
Auk þessarar skýrslu var sett upp Vefsjá ÖBÍ – Biðstöðvar – aðgengi og yfirborð þar sem hægt er að sjá staðsetningu stoppistöðva sem teknar voru út. Fjallað er um vefsjána i í kafla „4.2 Afurðir“.
1 Inngangur
Í skýrslu þessari er fjallað um ástand stoppistöðva Strætó bs. á landsvísu.
Það er markmið stjórnvalda að árið 2024 muni 90% stoppistöðva almenningssamgangna standast hönnunar- og öryggiskröfur en ekki er vitað hver staðan er í dag. Markmiðin fela m.a. í sér greiðar og öruggar almenningssamgöngur fyrir alla. Stjórnvöld ætla að leita leiða til að tryggja jafnt aðgengi fatlaðra, hreyfihamlaðra og ófatlaðra einstaklinga að almenningssamgöngum milli byggða. Með því verður uppfylltur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem var fullgiltur 2016, sem tryggir að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi og tekið fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.á.m. geta farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs, á þeim tíma sem það velur og vera tryggður hindrunarlaus aðgangur að hinu efnislega umhverfi. Gott almenningssamgöngukerfi stuðlar að auknu öryggi í samgöngum fyrir alla, því með hverjum einstaklingi sem kýs almenningssamgöngur fram yfir að aka sjálfur dregur úr líkum á umferðartengdum slysum (Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, 2019; Dómsmálaráðuneytið).
ÖBÍ réttindasamtök sömdu við VSÓ Ráðgjöf um að gera úttektir á aðkomu á stoppistöðvum á landsbyggðinni. Hingað til hefur reynst erfitt fyrir fatlað fólk og hreyfihamlað að vita hvort möguleiki sé fyrir það að ferðast um landsbyggðina með vögnum Strætó bs. Jafnvel í þeim tilvikum þar sem aðgengi biðstöðvar á brottfararstað er í lagi og þó svo að tryggt sé að vagn á leið sé aðgengilegur, þá tekur óvissan við um aðstæður á komustað sem fælir fólk frá því að nota almenningssamgöngur.
Markmiðið með úttekt ástandi stoppistöðva á landsvísu er að afla gagna og móta aðferð til að meta og greina núverandi stöðu sem og að auka vitund stjórnvalda, forráðamanna sveitarfélagana og Vegagerðarinnar um ástand innviða. Með auknu upplýsingarflæði er hægt að fara í nauðsynlegar úrbætur á stoppistöðvum almenningssamgangna, úrbætur sem kannski hefðu ekki komist á „radar“ sveitarfélaga/Vegagerðarinnar, sem bera ábyrgð á aðkomu strætisvagna. Niðurstöður nýtast því í áframhaldandi vinnu t.d. í aðgerðaráætlun og kostnaðaráætlun, og til að skapa upplýstari umræðu um ástandið.
Í Reykjavík eru 556 stoppistöðvar fyrir strætisvagna og í þeim eru 375 biðskýli. Sumarið 2020 gerði Reykjavíkurborg úttekt á stoppistöðvum innan borgarinnar og var niðurstaðan sú að einungis 4 stöðvar eru með gott aðgengi og 11 með gott eða mjög gott yfirborð. Þörf er því á að bæta töluvert úr. Athugað verður hvort ástand stoppistöðvar á landsvísu gefi svipaða niðurstöðu, eða hvort að stoppistöðvar þar uppfylli hönnunar- og öryggiskröfur (Bjarni & Atli, 2020; Þorsteinn, 2020).
Er þetta í annað sinn sem skýrsla þessi er gefin út. Í fyrstu útgáfunni voru skoðaðar leiðirnar sem aka einvörðu eftir hringveginum, var sú skýrsla gefin út haustið 2021. Hér í annarri útgáfu verður bætt við niðurstöðum úttekta á öðrum leiðum á landsbyggðinni sem gerðar voru sumarið 2022.
Fyrri úttektin var fjármögnuð undir aðgerð A.6. í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017-2021 og seinni úttektin undir aðgerð A.10 í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Félagsmálaráðuneyti, Byggðastofnun og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti eru færðar sérstakar þakkir fyrir stuðninginn.
2 Fyrirliggjandi gögn
ÖBÍ réttindasamtök eru regnhlífarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi sem inniheldur 41 aðildarfélög sem hvert fyrir sig eru hagsmunasamtök fyrir ólíka fötlunarhópa á landsvísu. Heildar félagafjöldi aðildafélaga ÖBÍ réttindasamtaka er um 47 þúsund manns (ÖBÍ réttindasamtök, án dags.). Heildarfjöldi Íslendinga í byrjun árs 2020 var rúmlega 364 þúsund og því eru allt að 13% íbúa Íslands félagar innan aðildafélaga ÖBÍ. Mögulegt er þó að vera í fleiri en einu aðildarfélagi í senn (Hagstofan, 2021).
Árið 2005 skrifaði Þórunn Edda Bjarnadóttir lokaverkefni sitt við umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands, þar var tekin úttekt á aðgengi fatlaðra að níu náttúruverndarsvæðum. Helstu niðurstöður sýndu að „aðgengi reyndist vera misjafnt að svæðum og víða óviðunnandi“. Sjö árum síðar, árið 2013, var úttektin endurtekin fyrir átta af níu svæðum, auk tveggja nýrra náttúruverndarsvæða. Úttektin 2013 var lokaverkefni Ragnars Björgvinssonar við sama háskóla. Ragnar sýndi fram á að ýmsar úrbætur hafa verið gerðar, en þær hafi ekki verið gerðar nægilega vel (Auður, 2005; Ragnar, 2013).
Samstarfsverkefni Ferðamálastofu, ÖBÍ og fleiri tók saman flokkunarviðmið fyrir aðgengi að áningar- og útivistarsvæðum á Íslandi sumarið 2007, þar sem tekið var saman hvaða kröfur eru gerðar til að aðgengi sé fyrir hjólastólanotendur, með og án aðstoðar, og fyrir gönguhamlaða. Tilgangur þess verkefnis var að bæta aðgengi alls ferðafólks að áningar- og útivistarstöðum. Þá hefur Vegagerðin og Reykjavíkurborg tekið saman leiðbeiningar um Algilda hönnun utandyra þar sem áhersla var lögð á mögulega aðkomu allra að opinberum eignum (Ferðamálastofa, 2007; Vegagerðin & Reykjavíkurborg, 2019).
Haustið 2016 kom út greinargerð um Aðgengi fólks með fötlun að almenningssamgöngum á landi; staða mála og mögulegar úrbætur sem var ætlað að varpa ljósi á löggjöf sem varðar möguleika fólks með fötlun til að notfæra sér almenningssamgöngur á landi ásamt núverandi ástandi aðgengismála, skoðað með áherslu á almenningssamgöngur í dreifbýli (Birna & Harpa, 2016)
Í ferðumst saman – Stöðumat og valkostir sem var gefið út af Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í október 2019 var eitt af markmiðunum sem voru sett fram að Biðskýli eða annarri yfir byggðri farþegaaðstöðu samkvæmt samræmdum leiðbeiningum verði komið upp á öllum skilgreindum stoppistöðvum í heildstæðu almenningssamgöngukerfi fyrir lok árs 2022. Þá var í maí 2021 undirritaður samningur þess efnis að 700 miljónum kr. verði varið í úrbætur á aðgengismálum fatlaðra til loka árs 2022, í viðbót við 1,5 milljarða króna sem var veitt til innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum (Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, 2019; Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið & Félagsmálaráðuneytið, 2021; Ferðamálastofa, 2021).
3 Stoppistöðvar á landsvísu
Í fyrstu útgáfu skýrslunnar voru skoðaðar allar stoppistöðvar á þeim leiðum þar sem Vegagerðin gerði kröfu um aðgengi fólks í hjólastólum í útboði landssamgangna sumarið 2020, þær stoppistöðvar eru á eftirfarandi leiðum (Vegagerðin, 2021).
- Leið 51 sem ekur frá Mjóddinni til Hafnar í Hornafirði.
- Leið 55 sem ekur frá Umferðamiðstöð BSÍ til Keflavíkurflugvallar.
- Leið 56 sem ekur frá Hofi á Akureyri til tjaldsvæðisins á Egilstöðum.
- Leið 57 sem ekur frá Mjóddinni, gegnum Akranes og Borgarnes, til Hofs á Akureyri.
Í heildina voru þetta 112 stoppistöðvar og sjá má leiðir þeirra á mynd 3.1.
Mynd 3.1 Leiðarkerfi Strætó bs. á landsbyggðinni 2022 (Strætó bs., án dags.).
Milli fyrstu og annarrar útgáfu skýrslunnar voru gerðar smávægilegar breytingar á leiðarkerfum almenningssamgangna, og er því mynd 3.1 uppfærð m.v. leiðarkerfi 2022.
Liggur munurinn á að pöntunarþjónusta vagna að Arnarstapa er felld út. Á vetraráætlun er tveimur leiðum bætt við, leið 63 og 64 í Borgarnesi. Stoppið Selfoss – Olís var fellt út, og þess í stað koma Hrísmýri og Fossnes. Þeim stoppum sem bætast við er einnig bætt inn í þessa seinni úttekt. Í heildina er verið að bæta inn 58 nýjum stoppistöðvum í annarri útgáfu skýrslunnar. Hefur því farið fram úttekt á 169 stoppistöðvum, þar sem 168 eru enn í notkun.
Litið var til heildarferðar virkra vegfarandans að strætisvagnsskýlinu, því þótt stoppistöðin sjálf hafi gott aðgengi þá hjálpar það ekki ef manneskja sem ætlar sér að nota aðstöðuna kemst ekki að henni.
Benda má þeim farþegum að á leiðum 51 og 57 að hægt er að hafa samband við þjónustuver Strætó, með minnst 24 tíma fyrirvara og panta bíl með hjólastólaaðgengi á fyrir fram ákveðnum tíma næsta dags.
4 Aðferðafræði
Úttektir á stoppistöðvum á landsvísu voru gerðar sumrin 2021 og 2022 af VSÓ Ráðgjöf.
Voru þær gerðar með vettvangsferðum þar sem ekið var leið vagnanna og stoppað við hverja stöð, hún tekin út og var rætt við starfsfólk á völdum stöðum til að athuga þekkingu þeirra á komu vagna sem og staðsetningu stoppistöðvar.
Reykjavíkurborg hefur útbúið ítarlegan lista yfir hvað telst vera góð strætóstoppistöð og tekur þessi vinna mið af reynslu Reykjavíkurborgar sem og reynslu VSÓ af umferðaröryggisrýni, hönnun strætó stoppistöðva, skipulagi almenningssamgangna og landfræðilegum upplýsingakerfum.
4.1 Einkunnaskali skilgreindur
Reykjavíkurborg hefur útbúið góðan gátlista fyrir einkunnargjöf sem nýtist vel innan bæjarmarka og verður sá einkunnarskali notaður þar sem á við innanbæjar, t.d. á Akureyri, Akranesi og víðar. Einkunnarskali þessi á þó ekki jafn vel við í dreifbýli svo þar var notast við þarfargreiningu þeirra sjö fötlunarhópa sem vefsíðan Gott aðgengi tók saman.
Þó var ekki tekinn fyrir hópurinn Astma og ofnæmi þar sem ofnæmisvaldar eru ýmiskonar og hægt gengi að greina alla ofnæmisvalda á og við stoppistöðvar, þar að auki er hægt að halda ofnæmisviðbrögðum í lágmarki með ofnæmislyfjum. Ekki voru stoppistöðvar heldur greindar m.t.t. hópsins Lestrarörðugleikar, þar sem möguleiki er að hafa samband við þjónustuver Strætó bs. og fá upplýsingar í gegnum síma ásamt því að lágmarks lesturs er þörf á biðstöðvunum. Jafnframt voru biðstöðvarnar ekki greindar m.t.t. hópsins Heyrnarskertir þar sem umbætur sem gagnast öðrum fötlunarhópum gagnast heyrnarskertum. Einblínt er því að fólki með sjóndepurð, hreyfihömlun og þroskahömlun (God Adgang, án dags.).
Því var, í þessu verkefni, gerð úttekt á stoppistöðvum Strætó bs. á öllum leiðum á landsbyggðinni, með tilliti til:
- Hjólastólanotenda
- Göngu-, arma- og handskertra
- Blindra og sjónskertra
- Þroskahamlaðra og þroskaskertra
- Aðstæður fyrir hjólandi
Úttektar aðferðum Reykjavíkurborgar var fylgt eftir og aðferðum þeirra úttektar líkt eftir, Aðgengi og Yfirborð fá einkunn fyrir aðstöðu, á skala með fimm mögulegum einkunnum:
- Mjög gott
- Gott
- Ásættanlegt
- Slæmt
- Mjög slæmt
Einkunnin úr flokkunum Aðgengi og Yfirborð verður lægsta einkunn af eftirfarandi þáttum.
Fyrir Aðgengi verða þættirnir eftirfarandi:
- Hvort leiðarlínur og áherslufletir séu við niðurtektir.
- Hvort merkt gönguþverun sé við þverun, þar sem á við.
- Hvort bið- og athafnarsvæði hjólastóla sé meira en 1,5 metra breidd
- Breidd stöðvarpalls.
- Hvort undirstaða biðskýlis sé í sömu hæð og svæðið í kring.
- Hvort bil til að komast fram hjá hindrunum sé ávallt meira en 1,5 metra breitt.
- Bekkur sé með bakstuðningi og armhvílu.
- Hæð að tímatöflustaur sé 1,3-1,4 metrar.
- Tímatöflustaur er vel staðsettur m.t.t. aðgengis.
Fyrir Yfirborð verða þættirnir:
- Hvort yfirborðsefni séu í sömu hæð.
- Hverskonar yfirborðsefni er á biðsvæði.
- Hvort biðsvæði sé nánast hallalaust.
- Hvort upphleypt áherslusvæði sé að finna við innstig að strætisvagni.
Til að uppfylla skilyrði fyrir hvern flokk fatlaðra þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
Hjólastólanotendur
- Undirlag þarf að vera jafnt og þétt og án hæðarmunar:
- d. með steypt, hellulagt eða malbikað undirlag, jafnvel þótt það sé lítillega brotið.
- Ekki verður gerð krafa um upp hækkaðan biðpall, þ.e. biðaðstaða getur verið í sömu hæð og malbik vegar eða bílaplans vegsjoppu.
- Halli sé lítill ef brúa þarf hæðarmun.
- Ef hurðir eru til staðar að einfalt sé að komast að þeim, létt að opna þær og þær nægilega breiðar þ.a. þær torveldi ekki aðkomu.
- Tímatöflustaur sé staðsettur m.t.t. aðgengis hjólastóla, þ.e. ekki þurfi að þvera gras eða möl til að komast að staur.
Göngu-, arma- og handskertir
- Ef tröppur eru til staðar þá þarf að vera handlisti.
- Hægt sé að sitja á bekk við stoppistöð.
Blindir og sjónskertir
- Tröppur og skábrautir, þar sem þær eru, séu merktar við upphaf og enda með litum eða áferð og tröppunef séu sérlega áberandi
- Stefnubreytingar séu skýrar.
Þroskahamlaðir
- Strætóstoppið sé í líkingu við það sem á að venjast á öðrum stöðum.
- Lita og efnisval gefi til kynna að hér sé strætóstoppistöð.
- Sýnileiki „strætóhaus“ sé góður.
- Skilti séu einföld og auðlæsileg. Ekki er breytt út frá eðlilegum skiltum.
Gert er ráð fyrir að fatlaðir einstaklingar ferðist einir þ.e. að ekki sé ferðafélagi með sem ýtir hjólastól, lesi á skilti eða opni hurðir fyrir viðkomandi. Því skal hafa það í huga að fatlaðir geta nýtt sér fleiri stopp á landsbyggðinni ef ferðafélagi er með í för. Einnig er rétt að hafa í huga að einstaka stoppistöðvar geti verið aðgengilegar fyrir suma enda er fötlun fólks mismikil. Þá er stöðin tekin út samkvæmt ítrustu skilyrðum hér að ofan.
4.2 Afurðir
Auk þessarar skýrslu var sett upp vefsjá þar sem hægt verður að sjá staðsetningu stoppistöðva sem teknar voru út, auk upplýsinga um ástand aðkomu og yfirborðs, samkvæmt úttektar stöðlum Reykjavíkurborgar. Þar að auki er hægt að sjá hvaða fötlunarhópi stoppistöðin hentar. Vefsjáin getur nýst einstaklingum með fötlun sem huga að ferðalagi með Strætó um Ísland og einnig geta viðkomandi sveitarfélög nýtt vefsjána í ákvarðanatöku um endurbætur á stoppistöðvum innan sveitarfélagsins. Hægt að er sjá aðgengis möguleika með því að ýta á stoppistöðvar, þá opnast gluggi. Neðst í glugganum er síðan hægt að fara inn á ja.is og sjá biðstöðvar.
Sömu niðurstöður sem eru kynntar í vefsjá má lesa úr töflum 5.1 – 5.18. í töflunum er notast við merki fötlunarhópanna líkt og þeir voru kynntir í kafla 4.1. Þær stoppistöðvar sem uppfylla skilyrði fötlunarhópanna muni fá merki fötlunarhópsins við nafn stöðvarinnar, ef ekkert merki er við stöðina uppfyllir sú stöð ekki kröfur nokkurs fötlunarhóps.