Skip to main content
SRFFUmsögn

Mál nr. 134-2021. Allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála

By 18. ágúst 2021september 1st, 2022No Comments
Dómsmálaráðuneytið 
Sölvhólsgötu 7 

101 Reykjavík 

Reykjavík, 17. ágúst 2021  

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands við  skýrslu Íslands vegna þriðju allsherjarúttektar Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála.  

Inngangur 

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur til umsagnar skýrslu Íslands vegna þriðju allsherjarúttektar Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála. Umsögnin byggir á athugasemdum sem ÖBÍ telur að leggja verði áherslu á í skýrslunni. 

Innleiðing tilmæla frá síðustu úttekt 

7 og 8. ÖBÍ leggur áherslu á að Ísland hefur ekki enn lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þrátt fyrir loforð þess efnis. Brýnt er að Ísland standi við þær skuldbindingar sem það hefur tekið sér á hendur og lögfesti samninginn.

Þá áréttar ÖBÍ mikilvægi þess að Ísland fullgildi valfrjálsa viðaukann við samninginn um réttindi fatlaðs fólks um kvörtunarleið til eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Brýnt er að það gangi í gegn svo stuðlað sé að aukinni réttarvernd borgaranna og þannig komið á sambærilegri kvörtunarleið fyrir þau réttindi sem varin eru í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Alþingi samþykkti með ályktun sinni 20. september 2016 að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Í sömu þingsályktun samþykkti Alþingi að heimila ríkisstjórninni að fullgilda valfrjálsa bókun við SRFF fyrir árslok 2017. Í dag hefur valfrjálsa bókunin enn ekki verið fullgild og því í mikilli andstöðu við samþykki Alþingis. Líkt og með aðrar valfrjálsar bókanir mannréttindasamninga felur viðaukinn í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk, annars vegar kvörtunarleið fyrir einstaklinga til sérfræðinefndar á vegum SRFF og hins vegar leið fyrir sérfræðinefndir til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum. 

Þá er ekki síður mikilvægt að Ísland fullgildi valfrjálsu viðaukana sem fela í sér kvörtunarleiðir bæði hvað varðar samninginn um réttindi barnsins og samninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg rétttindi. Í skýrslunni kemur fram að stjórnvöld telji sig þurfa að greina inntak þeirra frekar. Það liggur ljóst fyrir að viðaukarnir hafa verið fyrir hendi í fjölda ára og því hafa stjórnvöld haft töluvert langan tíma til að kynna sér inntak þeirra frekar. Einnig skýtur það skökku við að Ísland samþykkti að lögfesta samninginn um réttindi barnsins árið 2013 en taldi samt sem áður ekki ástæðu til að fullgilda viðaukann.

Innlend mannréttindastofnun og landsáætlun um mannréttindi 

14. Á Íslandi er ekki að finna sjálfstæða mannréttindastofnun sem uppfyllir Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna, en slík mannréttindastofnun er nauðsynleg til þess að Ísland geti uppfyllt þær alþjóðaskuldbindingar sem það hefur undirgengist. Þá segir á vef stjórnarráðsins að starfshópur hafi verið skipaður sem hafi það hlutverk að leita leiða til þess að koma sjálfstæðri mannréttindastofnun á fót og tryggja framtíðarrekstur hennar innan heildarútgjalda-ramma ríkissjóðs.1 Það er mikilvægt að hafa í huga að sjálfstæð mannréttindastofnun, svo markmiðum hennar sé náð, þarf m.a. að hafa fjárhagslegt og stofnunarbundið sjálfstæði, með eigið starfslið sérfræðinga og starfsstöð og vera ráðgefandi stjórnvöldum um setningu laga og reglugerða. 

Sjálfstæð mannréttindastofnun er nauðsynleg svo skilvirkt og sjálfstætt eftirlit geti átt sér stað svo allir fái notið mannréttinda sinna í íslensku samfélagi.

16. Ekki hefur enn verið gerð heilstæð landsáætlun um mannréttindi á Íslandi þrátt fyrir fleiri en ein tilmæli Sameinuðu þjóðanna þess efnis. Heilstæð landsáætlun um mannréttindi á Íslandi felur í sér að hún tryggir gæði  vernd og framkvæmd mannréttindamála. Hún tryggir samstarf milli annars vegar stjórnvalda og hins vegar stofnana, félaga, og einstaklinga sem eru ekki beint tengd stjórnvöldum. Til að geta gert árangursríka landsáætlun þarf að vera sterkur stjórnmálalegur vilji, víðtæk samvinna milli ríkisstofnana, stöðug viðleitni og vinna að breytingum, nægjanlegum fjárveitingum og strangt eftirlit. ÖBÍ áréttar mikilvægi þess að stjórnvöld ráðist í það verkefni að gerð verði heildstæð landsáætlun um mannréttindi.

Réttlát málsmeðferð og góðir stjórnarhættir

17. Telja verður að það sé ekki síður mikilvægt að lögð sé jafn mikil áhersla á að dómarar fái fræðslu um aðra mannréttindasamninga/sáttmála en ekki einungis áhersla á Mannréttinda-sáttmála Evrópu. Jafnvel þó að hefð sé fyrir því á Íslandi að aðlaga landsrétt að mannréttindasamningum þá tryggir það ekki eitt og sér að mannréttindin sem samningarnir eiga að vernda séu í raun tryggð og vernduð.

Löggjöf um bann við mismunun

35. Á Íslandi er ekki að finna heildstæða löggjöf um bann við mismunun. Í skýrsludrögum segir að unnið sé að slíkri. ÖBÍ telur mikilvægt að hagsmunasamtök fatlaðs fólks komi að þeirri vinnu en hefur ekki fengið boð um né upplýsingar um vinnuna. Í þessu samhengi er mikilvægt að minna stjórnvöld á skuldbindingar sínar, sbr. 3. mgr. 4. gr. SRFF.

Staða brotaþola

44. ÖBÍ hefur áður skrifað umsögn vegna réttarstöðu brotaþola þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða. Í skýrslunni segir að leiðbeiningar hafi verið gefnar út til lögreglu og ákæruvalds um meðferð kynferðisbrota þegar um fatlaða brotaþola og/eða sakborninga er að ræða. Það er ekki síður brýnt að dómarar fái einnig samskonar fræðslu. Janframt hefur ÖBÍ áhyggjur af þeim sönnunarkröfum sem almennt eru gerðar í kynferðisbrotamálum og þá sérstaklega í dómsmálum þar sem brotaþolar eru fatlaðir. Full ástæða er til að endurskoða hvort líta beri meira til ákveðinna sérfræðigagna við úrlausn málanna og þeim ákveðið meira vægi. Tilgangurinn með því að líta meira til sérfræðigagna væri fyrst og fremst til þess fallinn að koma til móts við fatlaða einstaklinga á öllum stigum réttarkerfisins.

Í ágúst 2020 gaf greiningardeild Ríkislögreglustjóra (RLS) út skýrslu til að varpa ljósi á ofbeldi gegn fötluðu fólki á heimilum sínum eða á dvalar- og hjúkrunarstofnum. Í skýrslunni segir að ein alvarlegasta birtingarform mismununar og félagslegrar undirokunar fatlaðs fólks á Íslandi er ofbeldi margskonar. Þá benda fyrirliggjandi kannanir til þess að í meirihluta tilvika séu gerendur ofbeldis gagnvart fötluðu fólki ekki sóttir til saka hvað þá dæmdir. Jafnframt hafi brotaþolar takmarkað eða ekkert aðgengi að aðstoð og hjálp til að takast á við afleiðingar ofbeldis. Enn fremur segir í skýrslunni að skráning ofangreindra brota sé ábótavant í gagnagrunni lögreglu. Hvernig hafa stjórnvöld brugðist við þeim ábendingum sem fram koma skýrslu RLS?

Bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi háttsemi

54. Ísland fullgilti 2019 valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT) og fól umboðsmanni Alþingis (UA) að annast eftirlit á grundvelli hennar. OPCAT eftirlitið fellur undir frumkvæðiseiningu UA. Hversu mikið er hægt að sinna forathugunum og hvort tilefni sé til formlegrar frumkvæðisathugunar ræðst jafnan af því hvaða mannafli er tiltækur hverju sinni í þau verkefni enda krefst OPCAT-heimsókn mikils undirbúnings, gagnaöflunar og fundarhalda ásamt úrvinnslu og í kjölfarið skýrslugerð. UA hefur í ársskýrslu sinni fyrir árið 2019 ítarlega fjallað um umfang OPCAT-eftirlitsins og skort á mannafla til þess að sinna eftirlitinu sem skyldi en hann segir m.a.: „Miðað við þann mannafla sem fjárveitingar leyfa að sinni þessum málaflokki er því ljóst að ekki verður hægt að sinna frumkvæðismálum eins og ég teldi nauðsynlegt á næstunni. Eins og ég hef áður komið á framfæri verður það að vera ákvörðun Alþingis í hvaða mæli það telur rétt að veita fjármunum til starfs umboðsmanns Alþingis, m.a. til að hægt sé að sinna frumkvæðis-athugunum og ekki síst þegar bregðast þarf við auknum fjölda kvartana.” Að mati ÖBÍ er nauðsynlegt að umboðsmaður geti sinnt hlutverki sínu sem skyldi og kallar ÖBÍ eftir því að stjórnvöld bregðist við áhyggjum hans með auknum fjárframlögum. Nýleg dæmi um aðstæður á geðdeildum Landspítalans ýta undir nauðsyn þess. Munu íslensk stjórnvöld bregðast við áhyggjum umboðsmanns og leggja til frekara fjármagn svo OPCAT-eftirlitið geti farið fram með þeim hætti sem ætla ber?

Félagslegt öryggi

61. Það er ekki hægt að taka undir aðlögð hafi verið áhersla á tekjulægstu hópa samfélagsins síðustu ár. Eina breytingin sem gerð hefur verið er að lækka skerðingarhlutfall eins uppbótaflokks, sérstakrar framfærsluuppbótar. Tekjuskerðingin fór úr 100% af skattskyldum tekjum í 65%. Auk þess var dregið úr   tekjuskerðingum á þennan sama uppbótaflokk vegna tveggja annarra bótaflokka (tekjutrygging og aldurstengd örorkuuppbót) sem tilheyra lögum nr. 100/2009 um almannatryggingar.

Í stað þess að hækka frítekjumark eða gera aðra breytingar til að bæta möguleika örorkulífeyrisþega til að auka ráðstöfunartekjur sínar með þátttöku eins og haldið er fram í skýrslunni, þá eru tekjuskerðingar vegna atvinnutekna mun meiri en áður. Áhrif tekjuskerðingar hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár þar sem frítekjumörkin hafa hvorki haldið við þróun verðlags né launa.

ÖBÍ hefur ítrekað sent erindi til félags- og barnamálaráðherra með fyrirspurn um úttekt sem samkvæmt samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar átti að gera á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi án árangurs. Úttektina er ekki að finna né hefur verið óskað eftir samráði við ÖBÍ um slíka úttekt.

62. Fjárhæðir lífeyristrygginga eiga að hækka í samræmi 69. gr. laga um almannatryggingar en samkvæmt ákvæðinu skulu bætur almannatrygginga breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra taka mið af launaþróun þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.  Sökum þess hvers óljóst og óskýrt orðalag er notað í þessari grein hafa stjórnvöld leyft sér að túlka skyldur sínar skv. greininni á þann veg að hækkanir almannatrygginga hafa verið langt undir raunverulegri launaþróun. Árlega hækkun lífeyris almannatrygginga á kjörtímabilinu hefur verið um 3,5% og orsakað að lífeyrinn hefur dregist aftur út úr launaþróun.

ÖBÍ óskar eftir upplýsingum um hvernig tekjulægsta og viðkvæmasta hópi samfélagsins hefur verið tryggt fjárhagslegt og félagslegt öryggi?

Menntun

74. Fram kemur í skýrsludrögum að lög geri þá kröfu varðandi menntun fatlaðs fólks að á öllum skólastigum sé boðið upp á gæðamenntun án aðgreiningar fyrir alla nemendur, óháð fötlun eða stöðu að öðru leyti. Jafnframt feli núverandi menntastefna í sér jafnrétti til náms og menntunar án aðgreiningar í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Innlend löggjöf er skýr um það að nemendur í grunnskóla eigi rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.  Nám án aðgreiningar á að tryggja að í námsumhverfi sé komið til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.

Raunin er aftur á móti sú að alls ekki allir hafa aðgang að því sem tekið er fram í skýrsludrögum. Fötluð börn eru í þeirri stöðu ár eftir ár að fá ekki aðgang að námi við hæfi. Má þar nefna að börn og unglingar með ódæmigerða einhverfu er synjað um nám í sérdeild-um fyrir einhverfa þar sem aðeins örfá pláss eru laus til umsóknar þrátt fyrir að augljóst sé að barnið fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í almennu skólastarfi. Í vor komust átta af 38 börnum að í sérdeildum fyrir einhverfa í Reykjavík. Enn fremur hafa börn með ADHD greiningu ekki fengið viðunandi stuðning og úrræði innan skólakerfisins. Stjórnvöld hafa verið meðvituð um þennan skort á stuðningi og úrræðum í afar langan tíma en hafa einungis brugðist við að takmörkuðu leyti. Það er því óhætt að segja að sú gæðamenntun sem lög gera kröfu um eigi ekki við um fötluð börn og að þau úrræði sem þau þarfnast séu ekki í boði. Að mati ÖBÍ er gríðarlega mikilvægt að öll börn fái menntun við sitt hæfi og að stjórnvöld geri grein fyrir því hvernig þau hyggjast mæta þeim og þá sérstaklega þessum hópum sem að framan greinir. 

Fatlað fólk

78. Í skýrslunni kemur fram að Ísland hafi gert ýmsar lagabreytingar í þeim tilgangi að innleiða samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks í íslenska löggjöf og framkvæmd. Dæmi er nefnt um að lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningaþarfir hafi verið einn liður í því að innleiða samninginn í íslenska löggjöf. Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) er sérstaklega nefnd í því samhengi. ÖBÍ bendir á að fjöldi einstaklinga eru á bið eftir NPA samningi og hafa stjórnvöld og sveitarfélög brugðist afar hægt við miklum skorti á fjármagni vegna samninganna. Sveitarfélög hafa í sumum tilfellum lokað fyrir þann möguleika að taka við nýjum umsóknum um NPA samninga. Mörg dæmi eru um að einstaklingar sem bíða eftir NPA samningi hjá sínu sveitarfélagi sé tilneytt til að dvelja á hjúkrunarheimilum/stofnunum í óeðlilega langan tíma. Í nýlegum dómi héraðsdóms var einstaklingi dæmdar miskabætur sökum þess að sveitarfélagið hafði með háttsemi sinni komið í veg fyrir að hann gæti lifað sjálfstæðu fjölskyldu- og einkalífi á heimili sínu eins og hann átti rétt á samkvæmt 19.gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Stefnanda var gert, gegn vilja sínum, að dveljast á hjúkrunarheimili við aðstæður sem ollu honum niðurlægingu og andlegri vanlíðan.

80. Samkvæmt því sem kemur fram í skýrslunni eiga íslensk lög að tryggja að fötluðu fólki með langvarandi stuðningsþarfir réttur á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir. Í 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er kveðið á um jákvæða skyldu stjórnvalda að útvega fólki húsnæði sem það á rétt á í samræmi við þarfir þess og óskir og veita þá félagslega þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili sem stuðlar að fullri aðlögun og þátttöku í samfélaginu. Samkvæmt lagaákvæðinu á fatlað fólk rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, sem einnig kemur fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. ÖBÍ bendir hins vegar á að lagasetningin ein og sér nægir ekki til að þessi réttindi séu tryggð. Reyndin er sú að óhóflega löng bið er eftir búsetuúrræðum fyrir fjölda einstaklinga. Fatlaðir einstaklingar neyðast til að mynda til að búa á heimilum foreldra sinna langt um aldur fram og jafnframt er fötluðum einstaklingum gert að dvelja á hjúkrunarheimilum og stofnunum gegn vilja sínum í  langan tíma. Það er því hægt að staðhæfa að Ísland hefur ekki uppfyllt skuldbindingar sínar að tryggja fötluðu fólki rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir.

Ekkert um okkur án okkar! 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Alma Ýr Ingólfsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ
Bára Brynjólfsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ