Skip to main content
SRFFUmsögn

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 34. mál.

By 22. febrúar 2022september 1st, 2022No Comments

Nefndarsvið Alþingis
Bt. Velferðarnefndar
Pósthússtræti 8-10

Reykjavík, 21. febrúar 2022

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands við frumvarp til laga um lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þingskjal 34, 34. mál.

Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ) hefur borist fyrrgreint frumvarp, um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF/samningurinn þegar við á), til umsagnar.

ÖBÍ styður eindregið frumvarp um lögfestingu SRFF. Nefndarálit með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um lögfestingu SRFF var samþykkt 6. maí 2019, þar sem fram kemur að mikil samstaða sé um mikilvægi þess að lögfesta samninginn og að hann skydli lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020. Í þingsályktuninni segir jafnframt að lögfestingin myndi styrkja stöðu fatlaðs fólks og skýra ábyrgð ríkisins betur. Nýleg þýðing á samningnum liggur fyrir og íslenska ríkið hefur skilað inn skýrslu til eftirlits- og sérfræðinefndar SRFF um innleiðingu og framkvæmd á samningnum. Þá hefur innleiðing á samningnum og ákvæðum hans í íslenska löggjöf, reglugerðir og stjórnsýsluframkvæmd staðið yfir í langan tíma. Það er ekkert því til fyrirstöðu að stíga skrefið til fulls.

Líkt og segir í 1. gr. SRFF þá er markmið samningsins að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess. Með lögfestingunni mun samningurinn eyða réttaróvissu fatlaðs fólks og gera því fært að sækja réttindi sín hvort sem er til ríkis eða sveitarfélaga. Þá mun hann jafnframt öðlast þau beinu réttaráhrif sem nauðsyn ber til svo hægt sé að beita honum með beinum hætti fyrir dómstólum ef á þarf að halda.

Samningurinn er mannréttindasamningur jaðarhópa af jaðrinum, hann stuðlar að inngildingu fatlaðs fólks í samfélagið og viðurkennir þörf þess fyrir stuðningi hvort sem er í námi, starfi, daglegu lífi og/eða þessu öllu.

ÖBÍ áréttar eindreginn stuðning sinn við frumvarpið og óskar eftir því að fá fund með velferðarnefnsdAlþingis til að gera betur grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi þetta gríðarlega mikilvæga mál.

Ekkert um okkur, án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Alma Ýr Ingólfsdóttir, lögfræðingur, LL.M