Skip to main content
Umsögn

14. mál. Embætti umboðsmanns aldraðra

By 2. júní 2020No Comments
Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-12

150 Reykjavík

Reykjavík, 19. febrúar 2016

Efni:   Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um tillögu til þingsályktunar um embætti umboðsmanns aldraðra. Þingskjal 14 – 14. mál.

Almennt um þingsályktunartillöguna

Embætti umboðsmanns aldraðra er jákvætt skref til að bæta réttindi og gæta hagsmuna aldraðra. Útfærsla verkefnisins er þó mjög mikilvæg svo og hlutverk þess og staða í stjórnkerfinu. Einnig er brýnt að verkefninu fylgi nægjanlegt fjármagn.

Í tillögu til þingsályktunar um embætti umboðsmanns aldraðra  segir að hlutverk embættisins verði meðal annars að bregðast við telji hann að brotið sé gegn öldruðum. Mikilvægt að er að þetta hlutverk einskorðist ekki við að veita upplýsingar, leiðbeiningar og ráð s.s. um hvaða leiðir séu færar  í stjórn-  og dómskerfinu, þegar aldraðir einstaklingar leita til embættisins, heldur að fólki sé veitt þá aðstoð sem það þarf á að halda.

Hvernig nýtist réttindagæsla fatlaðs fólks fyrir verkefnið?

Mikil þörf er á úrræði fyrir aldraða sambærilegt við réttindagæslu fatlaðs fólks. Meðal markmiða réttindagæslunar er að veita fötluðu fólk aðstoð við að leita réttar síns telji það að brotið sé gegn því, hvort sem er gagnvart opinberum þjónustuaðilum, öðrum stjórnvöldum eða einkaaðilum.

Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011 ætti að hafa til hliðsjónar við stefnumótun embættis umboðsmanns aldraðara, þar sem réttindagæsla gæti nýst öldruðu fólki mjög vel. Er sérstaklega horft til þess að  réttindagæslumenn geta fylgt fólki á stofnanir í þeim tilgangi að leita réttar síns og geta átt frumkvæði af því að taka upp mál þar sem greinilegt er að mannréttindabrot á sér stað.

Í lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks eru ákvæði, sem geta einnig átt við um aldraða. Sem dæmi er í V. kafla laganna fjallað um ráðstafanir til að draga úr nauðung við fatlað fólk.  Þessi kafli ætti í mörgum tilvikum einnig við um aldrað fólk. Einnig  eru þar ákvæði um persónulega talsmenn og eru þau hugsuð fyrir þá sem vegna fötlunar sinnar eiga erfitt með að gæta hagsmuma sinna, hið sama á við í hóp aldraða. Rétt er að hafa í huga að stór hópur aldraðra telst einnig til hóps fatlaðs fólks, hvort heldur um er að ræða fatlað fólk sem hefur náð 67 ára aldri eða einstaklinga sem verða fatlaðir vegna afleiðinga sjúkdóma eða slysa eftir að 67 ára aldri er náð.

Í lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks er engin aldursskilgreining og því geta fatlaðir einstaklingar sem eru eldri en 67 ára leitað til réttindagæslumanna, sé brotið á þeim. Úrræði réttindagæslu fyrir fatlað fólk hefur reynst vel, og mun sambærileg stofnun að öllum líkindum einnig reynast vel fyrir aldraða.

Útfærsla og umfang verkefnisins

Einstaklingar 67 ára og eldri er stór og margbreytilegur hópur og því munu mál sem berast embættinu vera fjölbreytt og ná yfir mörg svið samfélagsins. Embættið þarf að geta átt frumkvæði að upptöku mála og komið á framfæri ábendingum og tillögum að úrbótum.  Því er mjög mikilvægt að embætti umboðsmanns aldraða verði sett á stofn sem sjálfstæður og óháður aðili, sem hefur nægilegt fjármagn til að sinna hlutverki sínu, m.a. til að ráða fagfólk með sérþekkingu. Eitt af hlutverkum embættisins ætti að vera að efla þekkingu á alþjóðlegum mannréttindasamningum, s.s. samningi SÞ um efnahagsleg, félagsleg, menningarleg réttindi,  samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fleiri mannréttindasamningar sem snúa að málefnum aldraðra.

Samvinna við önnur embætti og aðila sem vinna að mannréttindamálum og réttindagæslu er mjög mikilvæg í þessu samhengi, einnig til að efla og deila þekkingu. 

Lögð er áhersla á að embætti umboðsmanns aldraðra nái að sinna öldruðum um allt land.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Ellen Calmon
Formaður ÖBÍ