Skip to main content
Umsögn

143. mál. Húsnæði Listaháskóla Íslands

By 2. júní 2020No Comments
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

Reykjavík, 6. apríl 2017

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um þingsályktunartillögu um húsnæði Listaháskóla Íslands. Þingskjal 202 – 143. mál.

Athugasemdir ÖBÍ um frumvarpið í heild

Tekið er undir með flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar að brýnt sé að finna Listaháskóla Íslands framtíðarhúsnæði.

Starfsemi skólans er nú dreifð og er á fjórum stöðum í borginni. Starfsemi tónlistar-, og sviðslistadeilda fer fram á fimm hæðum og bakhúsum að Sölvhólsgötu 13. Engin lyfta er í aðalbyggingunni og því er hreyfihömluðu fólki ekki gert kleift að stunda nám við þessar deildir. Takmarkað aðgengi er einnig að bakhúsum.

Auk þess hefur komið upp skæð húsasótt og mygla í byggingunni sem stefnir heilsu jafnt starfsfólks og nemenda í hættu.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), sem Ísland fullgilti 20. september 2016, er ítarlega fjallað um aðgengis- og menntamál.

Í 9. gr. SRFF segir:

Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem veitt er almenningi, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi.

Í 24. gr. SRFF segir í:

1 tl. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Þau skulu, í því skyni að þessi réttur megi verða að veruleika án mismununar og þannig að allir hafi jöfn tækifæri, koma á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar og símenntun sem miða að því: a) að auka mannlega getu til fulls og tilfinningu fyrir meðfæddri göfgi og eigin verðleikum og auka virðingu fyrir mannréttindum, mannfrelsi og mannlegri fjölbreytni, b) að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu, c) að gera fötluðu fólki kleift að vera virkir þátttakendur í frjálsu þjóðfélagi.

og

5. tl. Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að hefja almennt nám á háskólastigi og að það fái aðgang að starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.

Þar sem starfsemi Listaháskóla Íslands fer að hluta til fram í húsnæði sem ekki er aðgengilegt fötluðu fólki eru brotin á þeim mannréttindi samkvæmt SRFF sem Ísland er aðili að og hefur skuldbundið sig til þess að fylgja.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Ellen Calmon
formaður ÖBÍ