Skip to main content
Umsögn

165. mál. Stytting vinnutíma. 20. mars 2018

By 25. júní 2019No Comments
Lógó ÖBÍ á bréfsefniAlþingi
Nefndasvið 
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
 

Reykjavík, 20.mars 2018 

Efni:   Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum (stytting vinnutíma). Þingskjal 239, 165.mál.

Frumvarp þetta er lagt fram í þriðja sinn. ÖBÍ skilaði inn umsögn 17. febrúar 2016 og er afstaða  ÖBÍ óbreytt.

Lýst er stuðningi við frumvarp til laga um styttingu vinnuvikunnar í 35 dagvinnutíma. Önnur Norðurlönd (Svíþjóð, Danmörku og Noregi) hafa fyrir nokkru síðan innleitt 35 stunda vinnuviku og eru þau ofar en Ísland á lista yfir jafnvægi á milli vinnu og frítíma auk þess sem framleiðnin í þessum löndum er meiri en hérlendis þrátt fyrir styttri vinnutíma.

Lág laun á vinnumarkaði  hér á landi valda því að launafólk verður að vinna óhóflega langa vinnudaga og/eða vinna aukavinnu til að ná endum saman. Slíkt eykur vinnuálagið. Mjög mikilvægt er að kjör skerðist ekki við styttingu vinnuvikunnar, en í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að það sé ekki markmið breytingarinnar að skerða kjör.

Langur vinnudagur leiðir til ójafnvægis á milli vinnu og frítíma á kostnað lífsgæða fólks. Álag við samræmingu atvinnulífs og einkalífs er mikið hér á landi eins of fram kemur í rannsókn Kolbeins H. Stefánsson frá árinu 2008.[1] Stytting vinnuvikunnar myndi gera foreldrum betur kleift að koma á jafnvægi milli atvinnu- og fjölskyldulífs, hafa betri tíma fyrir samveru með börnum sínum og og veita þeim þá athygli og stuðning sem þau þurfa.

Algengustu ástæður örorku eru geðraskanir (38%) og stoðkerfissjúkdómar 29%.[2] [3] Afar fáir örorkulífeyrisþegar hafa meðfæddar skerðingar (aðeins um 2%). Í rannsókn sem unnin var af Rannsóknasetri í fötlunarfræði við HÍ kemur fram að langflestir örorkulífeyrisþegar eru fólk sem komið er yfir miðjan aldur og  er slitið eða óvinnufært af álagi, sjúkdómum eða slysum. Fjöldi örorkulífeyrisþega eykst eftir miðjan aldur, ekki síst vegna stoðkerfissjúkdóma og þar eru konur í miklum meirihluta, sem eru líkamlega slitnar af vinnuálagi. Álag á vinnumarkaði á því stóran þátt í því að fólk verður óvinnufært.  Örorka er „að langstærstum hluta sköpuð af samfélagslegum aðstæðum, svo sem álagi og streitu. Þetta felur í sér að fyrirbyggjandi aðgerðir og aukið starf að bættri lýðheilsu gæti dregið úr örorku í samfélaginu.“ [4] Stytting vinnuvikunnar getur verið fyrirbyggjandi aðgerð og gert fólki betur kleift að ná nauðsynlegri hvíld og ná jafnvægi á milli atvinnu og einkalífs. Þó er ekki nóg einvörðungu að stytta vinnutímann, einnig þarf að draga út vinnuálagi.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2012 er bent á að hér á landi hafi ekki verið gerðar ítarlegar rannsóknir á því hvaða vinnuþættir eru líklegir til að leiða af sér örorku. „Þó hafa verið leiddar að því líkur að líkamlega erfið og einsleit vinna, langur vinnutími og lág laun geti verið fyrirboðar örorku. Þetta kemur heim og saman við það mat starfsmanna Tryggingastofnunar að erfiðar vinnuaðstæður séu algeng ástæða örorku, t.d. eldri kvenna með stoðkerfisvandamál.“ [5]

Ekkert um okkur án okkar.
Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ

[1] Samspil vinnu og heimilis. Álag og árekstrar. Kolbeinn H. Stefánsson. Rannsóknastöð þjóðmála. 2008.
[2] Tölur fyrir árið 2013 teknar af heimasíðu  TR. http://www.tr.is/media/tolutidindi/Helsta-orsok-ororku-eftir-sjukdomaflokkum_2013.pdf.
[3] Geðraskanir eru langalgengasta orsök örorku hjá körlum en stoðkerfissjúkdómar eru algengasta orsökin hjá konum, litlu algengari en geðraskanir.
[4] Fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja. Rannsókn unnin í tilefni af Evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun. Rannsóknasetur í fötlunarfræði. 2010.
[5] Atvinnutengd starfsendurhæfing. Skýrsla Ríkisendurskoðunar til Alþingis. Desember 2012.  

Umsögnin á vef Alþingis