Skip to main content
Umsögn

17. mál. Mannvirki (flokkun og eftirlit með mannvirkjum)

By 5. nóvember 2020No Comments

Velferðarnefnd
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. nóvember 2020

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki nr. 160/2010 (flokkun mannvirkja og eftirlit með mannvirkjagerð)

Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010. Öryrkjabandalag Íslands og Sjálfsbjörg lsh. sendu inn umsagnir til félagsmálaráðuneytisins þegar drög að frumvarpinu var lagt fram í samráðsgátt í maí 2020. Frumvarpið hefur ekki tekið miklum efnislegum breytingum síðan. Bandalagið ítrekar afstöðu sína, sem kemur fram í fylgiskjali en bendir á að vísanir í einstakar greinar frumvarpsins eigi ekki við um það frumvarp sem nú liggur fyrir.

Sérstakar áherslur:

Brýnt er að aðaluppdrættir mannvirkja sem falla undir ákvæði um algilda hönnun séu merktir svo að tryggt sé að skoðunarmenn fari sérstaklega yfir þá þætti við úttektir.

Ljóst er að fullt aðgengi fyrir alla á að vera tryggt að mannvirkjum sem falla undir ákvæði algildrar hönnunar að fenginni öryggisúttekt. Þó hefur það liðist að leyfisveitendur gefi eigendum talsverðan slaka á við að standast þær kröfur, án þess að nokkur heimild sé til þess í íslenskri löggjöf. Það hefur þýtt að mannvirki séu tekin í notkun án þess að aðgengi sé að þeim fyrir fatlað fólk og jafnvel afsakað með því að lokaúttekt hafi ekki farið fram. Það verður að taka fyrir það. Leyfisveitendur eiga ekki að gefa út öryggisúttekt nema að fullt aðgengi að mannvirkinu sé fyrir alla. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verður að halda uppi virkari eftirliti með leyfisveitingum en hefur verið. Ennfremur verður að vera skilyrði fyrir því að öryggisúttekt og lokaúttekt verði gefin út á mannvirki að því tilskyldu að slökkviliðið samþykki það. Það skilyrði er ekki fyrir hendi í dag, þrátt fyrir að fulltrúi slökkviliðsins eigi að vera viðstaddur þessar úttektir.

Það eftirlit sem lítið er komið inn á er eftirlit almennings með byggingarframkvæmdum og veittum leyfum. Það er gríðarlega mikilvægt að ferlið sé gegnsætt svo að hinn almenni borgari geti fylgst með að byggingarleyfi séu afgreidd með eðlilegum hætti, að eftirlit sé virkt og að undanþágur og leyfi fyrir breytingum séu ekki gefnar án gilds rökstuðnings sem byggður er á heimild í lögum. Byggingargátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem hefur verið í smíðum í langan tíma er aðeins ætluð fag- og embættismönnum. Neytendaverndin er lítil. Möguleikar fólks sem á eftir að eignast og nota mannvirkin til framtíðar til að fylgjast með ákvarðanatöku eru nánast engir, heldur hafa hagsmunir þeirra sem vinna við það að reisa byggingar og selja þær sem fyrst með sem mestum ágóða talist mikilvægastir. Þá skal bent á að fram hefur komið í svari byggingarfulltrúans í Reykjavík við fyrirspurn ÖBÍ að ekki sé sérstaklega haldið utan um greinargerðir sem verður að leggja fram ef eigendur eldri mannvirkja telja sig ekki geta bætt aðgengi fyrir fatlað fólk við breytingar. Því er ekki hægt að greina hvort afgreiðsla þeirra erinda hafi verið á faglegum grunni.

ÖBÍ leggur til breytingar á frumvarpinu með hliðsjón af þeim ábendingum sem koma fram að ofan og í umsögn bandalagsins dags. 14. maí 2020.

Ekkert um okkur án okkar

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Bergur Þorri Benjamínsson
formaður Sjálfsbjörg lsh.


Fylgiskjal: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki nr. 160/2010 (flokkun mannvirkja og eftirlit með mannvirkjagerð), dags. 14. maí 2020