Skip to main content
Umsögn

219. mál. Umferðarlög. 2018

By 24. febrúar 2020No Comments
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 14. nóvember 2018

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til umferðarlaga. Þingskjal 231 –  219. mál. 

ÖBÍ gerir athugasemdir við eftirfarandi ákvæði frumvarps til umferðarlaga.
 
Í 1. mgr., 10. gr. frumvarps til umferðarlaga segir: 
„Umferð vélknúinna ökutækja um göngugötu er óheimil. Þó er umferð vélknúinna ökutækja akstursþjónustu fatlaðra, lögreglu, slökkviliðs og sjúkrabifreiða heimil.“
 
en ætti að segja:
Umferð vélknúinna ökutækja um göngugötu er óheimil. Þó er umferð vélknúinna ökutækja með stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, akstursþjónustu fatlaðra, lögreglu, slökkviliðs og sjúkrabifreiða „heimil.“

Greinargerð

Ísland fullgilti Samning Sameinuðu þjóðanna, hér eftir SRFF, um réttindi fatlaðs fólks í september 2016, en með því fylgdi sú skuldbinding að „tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar,“ sbr. 1. mgr., 4. gr. SRFF. Þá skulu aðildarríkin, sbr. 1. mgr. 9. gr. SRFF, 
 
„…gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem veitt er almenningi, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til: bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða.“
 
Í umferðarlögum nr. 50/1987 er engin sérstök heimild fyrir hreyfihamlað fólk að keyra inn á göngugötur, enda hefur hreyfihamlað fólk ekki fengið þann aðgang fram að þessu hér á landi. Svokallaðar sumargötur í Reykjavík hafa því verið sérstakur þyrnir í augum hreyfihamlaðs fólks sem hefur verið meinaður aðgangur að göngugötum sem hafa verið lokaðar með hliðum. Það er í andstöðu við ofangreind ákvæði SRFF.
 
Í frumvarpi til  umferðarlaga er gert ráð fyrir aðgangi hreyfihamlaðs fólks að göngugötum, sem takmarkast við akstursþjónustu fatlaðra. Það nægir ekki. Fólk sem fer um göngugötur ýmist sækir þangað þjónustu eða vinnu, eru íbúar eða gestir. Það er óviðunandi að ætlast til að hreyfihamlað fólk þurfi að panta sér akstursþjónustu sem aðgangsheimild.
 
Í athugasemdum við greinina í frumvarpinu segir: „Þessar undanþágur þykja sjálfsagðar og þarfnast ekki frekari skýringa“, þ.e. undanþágan til þessa að heimila m.a. ferðaþjónustu fatlaðra að aka um göngugötur. Þar sem undanþágan þykir sjálfsögð þá má ekki takmarka rétt eins hóps fólks með hreyfhömlun, í þessu tilviki fólks sem notar ekki akstursþjónustu fatlaðra.
 
Fólk með stæðiskort hreyfihamlaðra sem gefur heimild til að leggja í bílastæðum hreyfihamlaðra þarf að fá læknisvottorð sem staðfestir að göngugeta viðkomandi er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Því segir í 6.2.4. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012: „Bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti. Þau skulu vera sem næst aðalinngangi bygginga, ekki fjær en u.þ.b. 25 m.“
 
Í nágrannaríkjum okkar fær hreyfihamlað fólk að fara á bílum sínum um göngugötur, enda sýni það gangandi vegfarendum tillitssemi og keyri á gönguhraða, ekki hraðar en 10 km á klst. Þá skulu bílastæði hreyfihamlaðra vera uppsett innan svæðisins.
 
Í Svíþjóð gildir það að heimild er fyrir umferð „…veiks eða hreyfihamlaðs fólks til og frá byggingu við göngugötuna,“ (s. „transporter av sjuka eller rörelsehindrade personer till eller från adress vid gågatan.“)[1]
 
Þá hófst sumarið 2017 vinna við að loka stóru svæði í miðborg Oslóar fyrir bílaumferð. Almenn bílastæði voru fjarlægð en umferð hreyfihamlaðra var ekki skert. Bílastæði hreyfihamlaðra fengu að halda sér, þó að einstaka stæði hafi verið fært til.[2] Hér má sjá kort yfir bílastæði hreyfihamlaðra á göngugötunum. 
 
Það er jákvætt að setja sérstök ákvæði um göngugötur í íslensk umferðarlög, en þau verða að staðfesta rétt hreyfihamlaðs fólks til að fara um göturnar líkt og aðrir.
 
Ekkert um okkur án okkar!
 
Með vinsemd og virðingu, 
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Ingveldur Jónsdóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um aðgengi 

[1] https://www.transportstyrelsen.se/sv/vagtrafik/Trafikregler/Generella-trafikregler/Gagata-och-gangfartsomrade/
[2] „Bilfritt byliv har ikke planlagt å fjerne noen HC-plasser. Noen plasser blir flyttet, men ikke mer enn noen meter. Alle med HC-parkeringsbevis utstedt av kommunen vil fremdeles kunne parkere på de oppmerkede områdene på gateplan.“ (https://www.oslo.kommune.no/politikk-og-administrasjon/slik-bygger-vi-oslo/bilfritt-byliv/#gref)