Skip to main content
Umsögn

25. mál. Almannatryggingar (hækkun lífeyris)

By 12. nóvember 2020No Comments
Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-12

150 Reykjavík

Reykjavík, 11. nóvember 2020

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 (hækkun lífeyris) þingskjal 25 – 25. mál. 

ÖBÍ styður og leggur ríka áherslu á að lífeyrir almannatrygginga verði hækkaður. ÖBÍ fagnar því þessu frumvarpi og styður eindregið að það fái brautargengi.

Kjör örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hafa dregist mjög aftur úr kjörum landsmanna. Atvinnuleysisbætur, sem almennt eru hugsaðar sem tímabundin framfærsla,  eru orðnar talsvert hærri en örorkulífeyrir sem oft á tíðum er framfærsla og jafnvel eina framfærsla fatlaðs og langveiks fólks til lengri tíma, jafnvel áratugum saman. Óskertur örorkulífeyrir er til að mynda ekki nema 255.834 kr. á mánuði (fyrir skatt) eða 33.676 kr. lægri en grunnatvinnuleysisbætur. Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins hefur kjaragliðnun lífeyris almannatryggingaverið mjög mikill frá því núverandi ákvæði í lögum um almannatryggingar um hækkun örorkulífeyris tók gildi.  Alþingi er sérstaklega hvatt til að samþykkja afturvirkar hækkanir lífeyris almannatrygginga og er því tekið fagnandi að í frumvarpinu sé lögð til afturvirk hækkun í samræmi við hækkun lægstu launa frá 1. apríl 2019.

Krónutöluhækkanir sem samið var um í svonefndum lífskjarasamning eru umtalsvert hærri en þær hækkanir sem lífeyrisþegar hafa fengið á fjárlögum síðustu ár og þeirri hækkun sem boðuð er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Samanburður á krónutöluhækkunum örorkulífeyris og lágmarkslauna. (Tafla)

 

2019

2020

2021

Samtals

Hækkun óskerts örorkulífeyris*

8.589

8.651

9.210

26.450
Hækkun lágmarkslauna**

17.000

18.000

16.000

51.000
*Framfærsluviðmið án heimilisuppbótar

**Lágmarkstekjutrygging í dagvinnu

Upphæðirnar fyrir hækkun ellilífeyris eru mjög svipaðar og hækkun örorkulífeyris, munar aðeins örfáum krónum. Samanlögð hækkun ellilífeyris á sama tímabili er 26.549 kr.

Mjög mikilvægt er að hækkunin samkvæmt frumvarpinu verði á örorku- og endurhæfingarlífeyri (grunnlífeyrir) og ellilífeyri án heimilisuppbótar. Í þessu felst annars vegar að hækkunin leggist á ofangreinda greiðsluflokka og hins vegar að óskertar lífeyrisgreiðslur (framfærsluviðmið) án heimilisuppbótar verði jafnháar lágmarkslaunum hverju sinni afturvirkt frá apríl 2019.

Eðlilegt væri að örorkulífeyrir væri talsvert hærri en lágmarkslaun og til að teljast mannsæmandi framfærsla ætti hann að vera um  500.000 kr. Fatlað fólk ber oftast aukinn kostnað af fötlun sinni og eða veikindum.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að samhliða breytingunum þurfi að draga úr vægi tekjuskerðingar vegna sérstakrar framfærsluuppbótar. ÖBÍ tekur undir þetta og áréttar mikilvægi þess að dregið sé verulega úr tekjuskerðingum við útreikning lífeyris til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega til að koma í veg fyrir keðjuverkandi skerðingaráhrif.

ÖBÍ hefur stutt og lagt ríka áherslu á að frumvarp á þingskjali 54. – 54. mál um afnám „krónu á móti krónu“ skerðinga verði að lögum. Breytingin sem lögð er fram í því frumvarpi er ákaflega einföld og auðveld í framkvæmd, einfaldar framfærslukerfið, tryggir að innbyrðis tekjutengingar eru teknar út og nær til allra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Ekkert um okkur án okkar. 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ