Skip to main content
Umsögn

320. mál. Almennar íbúðir (hækkun tekju- og eignamarka leigjenda o.fl.). 2019

By 13. febrúar 2020No Comments
Alþingi                                                                                 
Nefndasvið
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík
 
Reykjavík, 5.12.2019
 

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga  um breytingar á lögum um almennar íbúðir (hækkun tekju- og eignamarka leigjenda, sérstakt byggðaframlag, veðsetning o.fl.) Þingskjal 363 – 320. mál. 

ÖBÍ tekur undir og styður umsögn Brynju hússjóðs ÖBÍ, dags. 3.12.2019, um frumvarp til laga um almennar íbúðir á þingskjali 363 – 320. mál.
 
ÖBÍ tekur undir ábendingu við í 2. gr. frumvarpsins í ofangreindri umsögn um að ef fjármagn til málaflokksins verði ekki aukið sem nemur kostnaði við að hækka mörk úr 25% reglulegra heildarlauna fullvinnandi í 40%, muni það hafa í för með sér að dregið verði úr stuðningi til þeirra einstaklinga sem þegar falla undir lögin og eru tekjulægstir (með tekjur undir neðri fjórðungsmörkum reglulegra heildarlauna).
 
Sérstök athygli er vakin á gagnrýni í umsögn Brynju hússjóðs ÖBÍ á breytingu á 11. gr. frumvarpsins, en þar er gert ráð fyrir að sett verði inn bráðabirgðaákvæði þess efnis að við afgreiðslu umsókna skuli Íbúðalánasjóður miða við að a.m.k. 2/3 hlutar þess fjármagns sem er til úthlutunar hverju sinni renni til íbúða sem eru ætlaðar tekju- og eignaminni leigjendum á vinnumarkaði. Eins og fram kemur í umsögninni yrði með breytingunni vikið frá því að gera ekki greinarmun á því hvort þörf fyrir húsnæðisaðstoð eigi rætur að rekja til sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar eða sambærilegra atvika, sbr. orðalag 1.mgr. 76. Stjórnarskrárinnar. Þess í stað er ætlunin að tryggja einstaklingum á vinnumarkaði betri rétt samkvæmt lögunum en öðrum einstaklingum í sömu stöðu.
 
Öryrkjar eru almennt í tekjulægstu hópunum en óskertur örorkulífeyrir er bæði undir lágmarkslaunum og atvinnuleysisbótum.  Ef við bætist að auknu  fjármagni yrði úthlutað til íbúða sem eru ætlaðar tekju- og eignaminni leigjendum á vinnumarkaði þá er lítið orðið eftir í úthlutun fyrir aðra tekjulága hópa utan vinnumarkaðar og hérna átt við öryrkja, aldraða, atvinnuleitendur og námsmenn.
 
Minnt er á að mjög langir biðlistar eftir húsnæði eru hjá félagssamtökum sem bjóða öryrkjum upp á húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Ekki hefur náðst að styttast þessa biðlista síðustu ár. Þess vegna teljum við brýnt að ríkisvaldið mæti þessari alvarlegu stöðu með sérstökum aðgerðum fyrir þennan hóp sem er oft í mjög erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði. Stór hópur öryrkja býr við mikið húsnæðisóöryggi og hefur ekki fjárhagslega burði til að leigja á almennum markaði. Þessir einstaklingar og fjölskyldur þeirra eru þó tilneydd til til þess á meðan beðið er árum saman eftir félagslegu húsnæði þrátt fyrir lögbundna skyldu sveitarstjórna til að tryggja framboð að leiguhúsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.
 
Minnum við á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
 

28. gr. Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd.

1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, meðal annars viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.

Ekkert um okkur án okkar.
 

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður ÖBÍ.