Skip to main content
Umsögn

323. mál. Fæðingar- og foreldraorlof

By 15. mars 2021No Comments
Velferðanefnd Alþingis
Nefndarsviði
Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

Reykjavík, 7. desember 2020

Efni: Athugasemdir ÖBÍ vegna frumvarps til laga um fæðingar- og foreldraorlof, 323. mál

Konur og örorka

Stærstur hluti fjölgunar örorkulífeyrisþega eru konur yfir fimmtugu (yfir 40%). Meðal endurhæfingar- og örorkulífeyrisþega undir fimmtugu eru einstæðar mæður hlutfallslega stór hópur. Konur eru á hverjum tíma 60% örorkulífeyrisþega og eykst munurinn með hækkandi aldri. Konur lifa lengur en karlar en fá færri ár við góða heilsu. Örorka er því kynjapólitískt mál.

Orsakanna gæti verið að leita í kynjaskiptingu á vinnumarkaði, þar sem konur eru í meirihluta þeirra sem vinna lágt launuð umönnunarstörf sem eru andlega og líkamlega slítandi. Einnig hafa rannsóknir sýnt að konur taka meiri ábyrgð á heimili, umönnun barna og eldri fjölskyldumeðlimum en karlar. Vinnudagur kvenna er lengri en karla ef lagðar eru saman launaðar og ólaunaðar vinnustundir.

Konur og vinnumarkaðurinn

Konur eru í miklum meirihluta þeirra sem ljúka langskólanámi en eru samt að meðaltali líklegri til að gegna láglaunastörfum en karlar. Þær gegna síður æðstu stjórnunarstöðum hjá fyrirtækjum og stofnunum en karlar. Meðalatvinnutekjur kvenna eru lægri en tekjur karla með sömu menntun.

Fæðingar- og foreldraorlof

Öryrkjabandalag Íslands fagnar lengingu fæðingar- og foreldraorlofs í 12 mánuði.

Fjárhagslegar ástæður vega þungt þegar kemur að skiptingu olofsins milli foreldra. Það er því ekki að undra, miðað við launamun kynjanna, að reynslan sýni að konur hafa í langflestum tilfellum nýtt þá mánuði sem foreldrar hafa getað ráðstafað sín á milli. Það hefur einfaldlega komið best út fyrir fjárhag heimilanna.

Sveigjanleiki foreldra til að skipta með sér mánuðum í orlofinu er minni í frumvarpinu en í núgildandi lögum, einn mánuður. Það gæti þótt miður þegar horft er til þess að fjölskyldur eru margskonar. Ef annað foreldrið er t.d. örorkulífeyrisþegi og þar með með lágar tekjur, þá gæti komið sér betur fjárhagslega fyrir heimilið að hitt foreldrið tæki mun styttra fæðingar- og foreldraorlof.

Hins vegar ef horft er á frumvarpið í stærra samhengi og til lengri tíma, ekki síst með kynjagleraugum út frá örorku, þá er myndin mun jákvæðari. Reynslan sýnir að feður sem taka fæðingarorlof taka meiri ábyrgð á börnum og heimili, einnig eftir að orlofinu lýkur. Auðvitað eiga hagsmunir barnsins að vera í fyrirrúmi og það er vissulega hagur barna að njóta umönnunar og tengsla við báða foreldra. Það styrkir stöðu feðra gagnvart vinnuveitendum þeirra til töku fæðinga- og foreldraorlofs ef þeir eiga sama rétt og mæður.

Verði frumvarpið að lögum, mun það stuðla að auknu jafnrétti kynjanna bæði á vinnumarkaði (í framgangi og launum) og innan veggja heimilanna. Það gæti því hugsanlega dregið úr því álagi sem á þátt í að valda örorku hjá konum. Öryrkjabandalag Íslands styður því frumvarpið.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður ÖBÍ