Skip to main content
Umsögn

480. mál. Byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. 14. maí 2018

By 26. júní 2019No Comments

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

 

Reykjavík,  14. maí 2018 

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.
Í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 sem nú liggur fyrir sem þingsályktunartillaga eru ýmsar áherslur sem að snúa að málefnum fatlaðs fólks, s.s. heilbrigðismál, atvinnu- og menntamál, aðgengismál og ýmis önnur þjónusta sveitarfélaganna. Því er gagnrýnisvert að ekki hafi verið leitað eftir virku samráði við ÖBÍ við gerð áætlunarinnar og ekki kallað sérstaklega eftir umsögn frá samtökunum um þingsályktunartillöguna.

Um samþættingu við aðrar stefnur og áætlanir

Í III. kafla ályktar Alþingi að „náið samráð milli ráðuneyta, stofnana ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífs og borgarasamfélags sé mikilvægt við framkvæmd byggðastefnu.“

Byggðaáætlunin tengist öðrum opinberum áætlunum svo sem geðheilbrigðisáætlun og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks, og þurfa þær að fylgjast að.

Mikilvægt er að samráð við ÖBÍ verði virkt á tímbilinu og samtökunum verði boðið að tilnefna fulltrúa í stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál, sbr. b-lið.

Um einstaka liði í aðgerðaáætlun

A.2 Þjónustukort
Þarfir fatlaðs fólks fyrir upplýsingar verði lagðar til grundvallar við gerð þjónstukorts, bæði að innihaldi og framsetningu. Hér er brýnt að leita eftir samstarfi við ÖBÍ. Gott aðgengi fyrir fatlað fólk tryggir gott aðgengi fyrir alla.
 
A.4. Þverfagleg landshlutateymi
Hér þarf að leita eftir virku samstarfi við ÖBÍ heildarsamtök notenda þjónustunnar við undirbúning og framkvæmd tilraunaverkefnisins.
 
A.5. Fjarheilbrigðisþjónusta og A.6. Héraðslækningar
Ábyrgðaraðili þarf hér að upplýsa ÖBÍ um undirbúning og framkvæmd á öllum stigum málsins.
 
A.10 Almenningssamgöngur um land allt
Hér þarf að sérstaklega að gæta að þörfum fatlaðs fólks. Hópferðabílar eru almennt ekki aðgengilegir fyrir fatlað fólk, sem þýðir að sá samgöngumáti er því ófær. Þar sem ferðaþjónusta fatlaðra er almennt bundin innan sveitarfélaga eru góð ráð dýr.
 

Nú voru á síðasta ári sett ný lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, sem felldu þar með úr gildi lög nr. 73/2017 og reglugerð um fólksflutninga í landi, nr. 528/2002.

Þá var innleidd ESB reglugerð nr. 181/2001 um réttindi farþega í hópbifreiðum. Með þessari gildistöku fylgja auknar kröfur á sérleyfishafa um aðgengi fyrir fatlað fólk að hópferðabílum og samgöngumiðstöðvum.

Skv. 10. gr. ESB gerðarinnar er flutningsaðilum gert skylt að „taka tillit til þessara þarfa, þar sem því verður við komið, þegar teknar eru ákvarðanir um búnað í nýjum eða nýlega endurnýjuðum ökutækjum með fyrirvara um gildandi löggjöf eða framtíðarlöggjöf um tæknilegar kröfur varðandi hópbifreiðar.“ Sama gildri um byggingu eða endurbætur á samgöngumannvirkjum.

Það mun fela í sér að frá 1. júní 2017, þegar lög nr. 28/2017 tóku gildi, er flutningsaðilum óheimilt að kaupa inn ný ökutæki nema að þau séu aðgengilega búin fyrir fatlað fólk. Útboð og samningar þurfa að taka mið af því.

Hér þurfa ábyrgðar- og framkvæmdaraðilar að eiga virkt samráð við ÖBÍ.

A.11. Flug sem almenningssamgöngur
Innanlandsflug þarf ekki síst að vera raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk. Hér þarf að leita eftir virku samstarfi við ÖBÍ.
 
A.12. Akstursþjónusta í dreifbýli
Ótækt er að farið sé verkefni um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk án virkrar aðkomu ÖBÍ.
 
A.18. Skilgreining opinberrar þjónustu og jöfnun aðgengis
Rétt er að haft sé virkt samráð við ÖBÍ um skilgreiningu á rétti fólks til opinberrar grunnþjónustu, enda hefur fatlað og langveikt fólk bæði ákveðnar sérþarfir, sem og grunnþarfir sem þarf að tryggja að verði tekið tillit til.
 
A.19. Aðgangur að geðheilbrigðisþjónustu
ÖBÍ og Geðhjálp eiga að teljast til samstarfsaðila undir þessum lið.
 
A.20. Aðgangur að þjónustu sérfræðilækna
ÖBÍ á að teljast til samstarfsaðila undir þessum lið.
 
B.7 Störf án staðsetningar
Hið opinbera ætti að auka möguleika fólks með skerta starfsgetu til fjölbreyttra starfa um allt land. Samkvæmt því sem kemur fram í áætlunni eiga 5% auglýstra starfa hjá ráðuneytum og stofnunum að vera án staðsetningar fyrir árslok 2021. Hægt væri að hafa það sem markmið að ákveðið hlutfall starfa sé ætlað fólki með skerta starfsgetu.
 
B.9. Fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land
Hið opinbera á að leggja sitt af mörkum til að fjölga atvinnutækifærum fyrir fatlað fólk um allt land. ÖBÍ á að teljast til samstarfsaðila undir þessum lið.
 
C.1. Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða og C.2. Brothætt byggðarlög
Þjónusta við fatlað fólk er sérlega brothættur málaflokkur í brothættum byggðarlögum. ÖBÍ á að teljast til samstarfsaðila undir þessum liðum.
 
C.4 Höfuðborgarstefna
Höfuðborgin á ekki aðeins að móta höfuðborgarstefnu, heldur einnig aðgengisstefnu. ÖBÍ á að teljast til samstarfsaðila undir þessum lið.
 
C.6. Húsnæðismál og C.7. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna
Sérstaklega þarf að huga að möguleikum fatlaðs fólks til að eignast eða leigja hentugt húsnæði. Sveitarfélögin þurfa að bjóða félagslegt húsnæði og styrkir og lán til aðgengisbóta þurfa að standa til boða, líkt og á hinum Norðurlöndunum. ÖBÍ á að teljast til samstarfsaðila undir þessum liðum.

Samráð

Rétt er að árétta í lokin að sjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð fyrir heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, enda segir í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 3. mgr. 4. gr.:
„Aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Í öllum málum sem snerta hagsmuni fatlaðs fólks ber stjórnvöldum að kalla Öryrkjabandalag Íslands að borðinu á fyrstu stigum, enda segja einkennisorð samtakanna: Ekkert um okkur án okkar. 

Með vinsemd og virðingu, 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ 


Umsögnin (PDF) á vef Alþingis