Skip to main content
Umsögn

603. mál. Félög til almannaheilla

By 19. apríl 2021No Comments

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 8. apríl 2021

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um félög til almannaheilla. 151. löggjafarþing 2020-2021. Þingskjal 1030 – 603. mál. Stjórnarfrumvarp.

ÖBÍ lýsir ánægju sinni með lagafrumvarpið og vísar til fyrri umsagnar bandalagsins um málið. Ef frumvarpið verður að lögum er stigið mikilvægt framfaraskref við að styrkja rekstrarumhverfi félagasamtaka sem starfa í almannaþágu með lögum þar sem fram koma réttindi og skyldur þeirra. Slíkt eykur gegnsæi og ábyrgð og stuðlar að faglegum vinnubrögðum. Þá hefur það jákvæð áhrif á trúverðugleika og traust í samfélaginu. Með lögunum er jafnframt ætlað að tryggja að félög geti fengið ákveðinn gæðastimpil fyrir starf sitt sem er mikilvægt hvað varðar réttarstöðu gagnvart stjórnvöldum. Þó verður að hafa í huga að gæðastimpill félagasamtaka byggir ávallt á raunverulegu starfi þeirra og orðspori sem er ekki síður mikilvægt.

ÖBÍ er regnhlífarsamtök félaga fatlaðs fólks á Íslandi. Bandalagið samanstendur af aðildarfélögum fatlaðs fólks, öryrkja, einstaklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra. Aðildarfélögin eru hagsmunasamtök ólíkra fötlunarhópa sem öll starfa á landsvísu. Hvert og eitt félag er með sérþekkingu á sínu sviði og veita margskonar fræðslu og stuðning. Félögin eru ólík innbyrðis og eru mismunandi að stærð og styrk. Sum eru með umtalsverðan rekstur á meðan önnur félög eru mun minni með fáa félagsmenn.

Með það í huga telur ÖBÍ mikilvægt að það sé tryggt að frumvarpið, ef það verður að lögum, að slík lög verði ekki framkvæmd með þeim hætti að þrengt verði um of að frjálsum almannaheillafélögum í landinu. Hafa ber í huga að félög einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma verða eðli sínu samkvæmt aldrei fjölmenn, en starfsemi þeirra engu að síður mikilvæg.

Í þessu sambandi skiptir fjárhagslega hliðin miklu máli því lítil félög hafa ekki sömu möguleika og þau stærri til að ráða starfsfólk til að sjá um reksturinn. Þá ber að varast að auka álögur á þau með ýmsum gjöldum sbr. 33 gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um skráningu í almanna-heillafélagaskrá og aðgang að henni með gjaldtöku meðal annars með útgáfu vottorða og fleira. Þá geta mögulega tækifæri þeirra til að sækja um styrki þrengst með heimild hins opinbera til að setja það sem skilyrði fyrir styrkjum að þau séu skráð í almannaheillafélagsskrá með öllu sem því fylgir.

Huga þarf að því að lögin mega ekki verða til þess að fólk geti ekki í framkvæmd stofnað félög til almannaheilla án þess að þurfa að mæta óraunhæfum kröfum. Ákveðinn sveigjanleiki þarf að vera til staðar til að gera þeim það kleift. Með það í huga er minnt á félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar sem eru vernduð í 74. gr. og einnig í 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

ÖBÍ er aðili að Almannaheillum, samtökum þriðja geirans, og hefur fylgst með ferlinu frá upphafi þar sem samtökin hafa lagt áherslu á að sett yrðu sérstök lög utan um starf frjálsra félagasamtaka sem vinna að almannheillum. Ánægjulegt er að sjá að það sé að verða að veruleika. Öryrkjabandalagið styður lagafrumvarpið í heild sinni og hvetur til þess að það verði að lögum en að jafnframt verði tekið tillit til ofangreindra athugasemda.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ