Skip to main content
Umsögn

643. mál. Forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025

By 15. maí 2020No Comments
Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

Reykjavík, 14. maí 2020

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um tillögu til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025, 643. mál.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) fagnar þingsályktunartillögunni ásamt áætluninni og hvetur Alþingi til þess að samþykkja hana. Líkt og segir í greinargerð með tillögunni er markmið hennar að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni með því að beina forvörnum sérstaklega að börnum og ungmennum. 
 
Niðurstöður fjölmargra rannsókna sýna að fatlað fólk verður frá barnsaldri fyrir meira ofbeldi en aðrir og á þetta sérstaklega við um fatlaðar konur. Í mörgum tilfellum er konan háð gerandanum um aðstoð í daglegu lífi vegna fötlunar sinnar og það gerir henni enn erfiðara um vik en ella að losna undan ofbeldinu.  
 
Mjög mikilvægt er að forvarnirnar nái til fatlaðra barna og ungmenna, þar sem þau eru í mörgum tilfellum mun berskjaldaðri fyrir ofbeldi en aðrir vegna þess valdaójafnvægis sem skapast þegar einstaklingur þarf að reiða sig á aðstoð annarra eins og áður segir. Einnig er mikilvægt að aðgerðirnar nái til fullorðins fatlaðs fólks sem er margt hvert í viðkvæmri stöðu. 
 
Íslenska ríkið fullgilti árið 2016 samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks  [1] og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í 6. Gr. Samningsins viðurkenna aðildarríkin að fatlaðar „konur og stúlkur eru þolendur margþættrar mismununar og skuldbinda sig til að gera ráðstafanir til að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.“ Í 16. gr. samningsins eru ákvæði um skyldur ríkja til að verja fatlað fólk fyrir hvers kyns ofbeldi, „meðal annars með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna.”
 
Ekkert um okkur án okkar!
 
Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
Formaður Öryrkjabandalags Íslands