Skip to main content
Umsögn

695. mál. Fjáraukalög 2020

By 15. maí 2020No Comments
Velferðanefnd Alþingis
Nefndarsviði
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
 

                                                                                   Reykjavík, 24. mars 2020

Efni: Umsögn um frumvarp til fjáraukalaga. Þingskjal 1172 – 695. mál.

Með tölvupósti, dags. 23. mars 2020, óskaði nefndarsvið eftir umsögn um fjáraukalög 2020, mál nr. 695 og gaf frest til hádegis daginn eftir.

Almennt um ástandið og áherslur sem vantar inn í frumvarpið

Það er ekki að ástæðulausu sem slagorð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna er „leave no one behind“, því tilhneigingin er oft hjá stjórnvöldum að skilja eftir jaðarsetta hópa samfélagsins við ákvarðanatöku sína. Nú, þegar við stefnum hraðbyri í djúpa efnahagskreppu af völdum Covid-19, er afar mikilvægt að stjórnvöld skilji ekki jaðarsetta hópa eftir. Aðgerðum ríkisstjórnarinnar er ætlað að veita viðspyrnu í efnahagskreppunni. Í því ljósi er mikilvægt að minnast þess að Alþjóðabankinn hefur, með rannsóknum, sýnt fram á að stuðningur við lágtekjuhópa er besta leiðin til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað.[1] Þetta er ákaflega mikilvægt, sérstaklega þar sem verðbólga mun aukast, og ef ekkert verður að gert, og stuðningur við örorkulífeyrisþega aukinn verulega, mun það verða til þess að hópur fólks verður skilinn eftir í frekari fátækt og samfélagslegt tap verður enn meira. Stjórnvöld verða að fara að átta sig á því hvað setningin „leave no one behind“ raunverulega þýðir.

Í fjáraukalögum er hvergi að sjá að bregðast eigi við stöðu örorkulífeyrisþega. Fólks sem upp til hópa er gert að búa við afar bág kjör. Örorkulífeyrisþegar þurfa margir hverjir að velja hvernig þeir verja þeim lífeyri sínum sem algengt er að nái ekki 230.000 kr. á mánuði útborguðum. Fólk reynir fyrst og fremst að tryggja sér heimili og greiða leigu, sú greiðsla tekur um og yfir helming framfærslufjársins. Bjargir þessara einstaklinga sem berjast í bökkum, heilsulausir og/eða fatlaðir, eru ýmsar hjálparstofnanir sem úthluta matargjöfum, sumir búa að því að ættingjar reyni eftir fremsta megni að aðstoða með því að færa björg í bú, þó flestir eiga nóg með sig.
 
Á tímum þar sem kórónaveira geysar og leggst jafnt á alla þjóðfélagshópa, er sú skylda stjórnvalda að horfa sérstaklega til þeirra sem bágast standa í samfélaginu ríkari. Stjórnvöld sem í meira en áratug hafa látið hjá líða að bæta fjárhagslega stöðu öryrkja verða nú að bæta fyrir það. Örorkulífeyrir er í sögulegu lágmarki langt undir framfærsluviðmiðum og skerðingar, þær mestu sem nokkurn tímann hafa verið lagðar á hér á Íslandi, voru lagðar á öryrkja. Stjórnvöld verða að bregðast við og bæta nú það sem bágt hefur farið í stjórnartíðum margra ríkisstjórna frá hruni. Sárafátækt er veruleiki öryrkja í dag, nokkuð sem við íslendingar viljum ekki að þrífist hér og margir trúa að sé ekki raunveruleg. Hún er það samt, svo hræðilega raunveruleg fjölmörgu fólki. Fólki sem eru fjölskyldur, börn og einstaklingar. Fólk sem að stórum hluta getur ekki unnið vegna fötlunar eða veikinda. Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða heilbrigðisstofnunin hafa bent á aðgerðir sem eru nauðsynlegar til þess að tryggja réttindi og hagsmuni fatlaðs fólks í faraldrinum.  Sérstakur skýrslugjafi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur bent á mikilvægi þess að stjórnvöld skilji ekki fatlað fólk eftir í aðgerðum sínum.  Allir þessir aðilar benda á mikilvægi þess að tryggja áfram þjónustu, fjárhagslegan stuðning við fatlað fólk og aðstandendur. ÖBÍ tekur undir með Sameinuðu þjóðunum, Sérstökum skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og skorar á stjórnvöld að taka utan um þennan hóp og bæta stöðuna!
 
Fatlað og langveikt fólk er margt hvert komið í sjálfskipaða heimasóttkví um óákveðinn tíma. Margir hafa haft þann hátt á að nýta alla mataraðstoð og matarúthlutanir sem fengist hafa, til að geta dregið fram lífið. Nú bregður svo við að viðkvæmt fólk getur ekki sótt sér mat eða lyf. Öryrkjar hafa ekki efni á að versla í dýrari búðum sem bjóða heimsendingu gegn gjaldi. Fólk verður að hafa aðgang að lyfjum og svo eru það þrif bæði á heimilum fólks, þvottur og persónulegt hreinlæti. Margir þurfa aðstoð við athafnir daglegs lífs. Þegar dagvistunarúrræði og önnur úrræði loka, verður að vera hægt að þjónusta fólk heima.
 
Þá er ónefnd aðstoð við foreldra fatlaðra barna, og aðstoð við fjölskyldur fatlaðra fullorðinna einstaklinga. En aukið álag er á heimili þessara hópa, hvaða aðgerðir eru stjórnvöld að að hugsa og setja í framkvæmd  varðandi þessa hópa?

Athugasemdir: 29 Fjölskyldumál

Í frumvarpinu undir liðnum fjölskyldumál er lögð til 3,1 ma.kr. hækkun fjárheimilda til að ákvarða sérstakan barnabótaauka til foreldra við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020. Hér er um að ræða 40.000 kr. eingreiðslu með hverju barni innan 18 ára aldurs sé tekjuskattstofn einstæðs foreldris og þess hjóna eða sambúðarfólks sem hærri hefur tekjur undir 11,1 m.kr. við álagningu ársins 2020. Ef tekjuskattstofninn er hærri nemur greiðslan 20.000 kr. með hverju barni.
 
Viðbótarstuðningur við barnafjölskyldur er jákvæð og mikilvæg aðgerð. Hins vegar er útfærslan mjög gagnrýniverð. Í stað þess að beina stuðningnum markvisst að barnafjölskyldum með lágar tekjur eða millitekjur er sú leið farin að hátekjufólki er úthlutað sérstökum barnabótaauka. Miðgildi heildarlauna fullvinnandi árið 2018 var 632 þúsund kr. á mánuði. Ef sú upphæð er uppreiknuð með hækkun launavísitölu á árinu 2019 (frá desember til desember) er upphæðin 660.440 kr. Foreldri með heildarlaun allt að 264.540 kr. hærri en miðgildi heildarlauna er að fá 40.000 kr. greiddar í sérstakan húsnæðisstuðning, sömu upphæð og einstætt foreldri með um 300.000 kr. á mánuði í heildarlaun.
 
Útfærslan er auk þess sérkennileg. Tökum dæmi af tvennum hjónum/sambúðarfólki með börn. Í tilviki annars parsins er tekjurnar misháar, annað þeirra er með tekjur yfir 925 þúsund á mánuði og hitt með engar eða lágar tekjur. Þau myndu fá 20 þúsund kr. á barn. Í hinu tilvikinu eru bæði með svipaðar tekjur, 800 þúsund kr. á mánuði hvort um sig, og myndu fá 40 þúsund kr. á barn, þó svo að sameiginlegar tekjur þeirra séu hærri.
 
Ef annað foreldri er með 11,1 m. kr. í árstekjur eða 925.000 kr. á mánuði er tekjurnar vel yfir miðgildi heildarlauna fullvinnandi. Auk þess er samkvæmt frumvarpinu ætlunin að greiða foreldri með tekjur yfir 925.000 kr. á mánuði barnabótaauka. Fólk með slíkar tekjur hefur ekki þörf á fjárhagslegum stuðningi frá ríkinu. Í staðinn ætti að auka stuðning við þá sem hafa lægstu tekjurnar, á þann hóp þar sem það hefði fjárhagsleg áhrif að fá slíkan stuðning. Stuðning við lágtekjufólk  t.d. er hægt að veita með því að beina sérstökum barnabótauka til lágtekjufólks og þeirra sem verða fyrir verulegum búsifjum vegna ástandsins.
 
Ein einföld aðgerð til að bæta stöðu hóps einstæðra foreldra með lágar tekjur gæti falist í því að taka út að mæðra-/feðralaun skerði sérstaka framfærsluuppbót, sem greitt er skv. 9. gr laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007.[2] Ekki þarf annað en að bæta mæðra- og feðralaunum inn í upptalningu í 3. mgr. sömu greinar yfir þær greiðslur sem ekki teljast til tekna, eins og gert var með eingreiðslur frá TR og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
 
Húsnæðiskostnaður vegur mjög þungt hjá lágtekjufólki. Húsnæði er ein af grunnþörfum fólks og á það ekki síst við núna þegar fólk þarf að vera í sóttkví. Öryrkjar eru upp til hópa í heimasóttkví, oft sjálfskipaðri vegna heilsuleysis og undirliggjandi sjúkdóma.
 
Í stað þess að leggja 3,1 ma.kr. í sérstakan barnabótaauka fyrir foreldra óháð tekjum, væri fjármagninu betur varið í beinan stuðning til lágtekjufólks á leigumarkaði með sérstökum húsnæðisbótaauka og tryggja að lágtekjufólk fái greiddar vaxtabætur.
 
Bent er á að sérstaki barnabótaaukinn skilar sér ekki til þess foreldris, sem barnið á ekki lögheimili hjá, en sem eru jafnvel með jafn mikla umgengni.

Lokaorð

Forsætisráðherra hefur líkt þessu ástandi við stríðsástand, sagan kennir okkur að í slíku ástandi vill veikasti og varnarlausasti hópurinn gleymast. Hvernig eru önnur lönd að taka utan um þennan hóp?
 
Skiljum engan eftir! Við hvetjum stjórnvöld til að horfa sérstaklega til aðgerða til verndar viðkvæmustu hópum samfélagsins, og bæta hag þeirra hópa í því ástandi sem nú ríkir.
 
ÖBÍ er tilbúið að gera grein fyrir umsögn sinni og sjónarmiðum sem varða mannréttindi og þarfir fatlaðs fólks við meðferð og afgreiðslu frumvarpsins sé þess óskað.
 
Ekkert um okkur án okkar.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður ÖBÍ

[1] https://www.theguardian.com/business/2015/jun/15/focus-on-low-income-families-to-boost-economic-growth-says-imf-studyhttps://www.imf.org/external/np/fad/inequality/
[2] https://www.frettabladid.is/skodun/skering-sem-bitnar-a-barnafjoelskyldum/


Umsögnin (PDF) á vef Alþingis