Skip to main content
Umsögn

712. mál. Framkvæmda­sjóður ferðamannastaða (markmið og hlutverk). 2020

By 15. maí 2020No Comments
Velferðarnefnd Alþingis
Nefndasviði
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
 
Reykjavík, 20. apríl 2020
 
Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011 (markmið og hlutverk). Þingskjal 1220  —  712. mál.
Sjálfsbjörg lsh. og Öryrkjabandalag Íslands lögðu fram sameiginlega umsögn um drög að frumvarpi þessu í samráðsgátt stjórnvalda, þ. 20. mars 2020. Þar sem misskilnings virðist gæta um rökstuðning samtakanna í umsögninni er efni hennar hér með ítrekað.
Í umsögninni er lagt til að í 1. gr. laga um Framkvæmdasjóð ferðamanna, nr. 75/2022, sé áréttað að einn höfuðtilgangur sjóðsins sé að tryggja öllum aðgang að ferðamannastöðum út frá sjónarmiðum algildrar hönnunar. Þá verði umsóknir metnar út frá því hvernig framkvæmdir muni bæta aðgengi.
 

Í rökstuðningi fyrir því að hafna framangreindri breytingartillögu segir í 2. mgr., 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu:

„Bent er á að framkvæmdir sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkir geta verið margvíslegar og á ólíkum stöðum í náttúru Íslands. Þegar um er að ræða mannvirki sem falla undir lög um mannvirki, nr. 160/2012, þá gilda þau lög um framkvæmdina, m.a. hvað varðar algilda hönnun. Þá er þess gætt í framkvæmd, eins og umsagnaraðili benti á, að þegar við á sé lögð áhersla á aðgengi fyrir alla. Með vísan til framangreinds leiðir umsögnin ekki til breytinga á efni frumvarpsins.“

Því er til að svara að það er skylda stjórnvalda að búa svo um hnúta að framkvæmdir á stöðum sem ætlaðir eru almenningi séu eins aðgengilegir öllum og framast er hægt. Ferðamannastaðir hljóta, eðli sínu samkvæmt, vera ætlaðir almenningi. Framkvæmdir við ferðamannastaði þurfa því að taka mið af þörfum alls almennings, einnig fatlaðs fólks og sjúklinga.
Víða getur verið erfitt eða ómögulegt að bæta aðgengi svo að allir fái notið. Þá mun það koma fram með rökstuddum hætti í umsókn. Það er ekki ásættanlegt að leyfa því að skautað verði framhjá eðlilegri kröfu um að jafna aðstöðu fólks með því að segja að framkvæmdir geti verið margvíslegar og á ólíkum stöðum.
 
Oftast hægt að gera meira og betur, ef lagst er aðeins betur yfir áætlanirnar. Væri hægt að jafna halla á stígum? Slétta yfirborð? Setja upp rampa? Bæta upplýsingar? En þvi verður að ýta eftir. Hugarfarsbreyting næst ekki í tómarúmi.
Svo er því haldið fram að þess sé gætt í framkvæmd að þegar á við sé lögð áhersla á aðgengi fyrir alla. Það væri áhugavert að sjá gögn sem staðfesti það, því undirritaðir hafa séð fjölmörg dæmi um annað og því er hvergi haldið fram í fyrri umsögn að svo sé, þrátt fyrir að það sé staðhæft í greinargerð.
 

Sjálfsbjörg lsh. og Öryrkjabandalag Íslands leggja hér með aftur fram eftirfarandi tillögu að breytingu á 1. mgr., 1. gr. laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011: 

Markmið laga þessara er að stuðla [að] uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi. Ennfremur er markmið sjóðsins að styðja við uppbyggingu ferðamannastaða og ferðamannaleiða út frá sjónarmiðum algildrar hönnunar. Það er jafnframt markmið laga þessara að stuðla að dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.
Í framhaldinu þarf síðan að breyta reglugerð svo að þess sé krafist að umsækjendur geri grein fyrir því hvernig framkvæmdir muni bæta aðgengi fatlaðs fólks. Þeir þættir verði vegnir inn við mat á umsóknum, enda þurfi umsækjendur að rökstyðja hvað verði gert til að bæta aðgengi alls almennings að svæðinu. Einnig þarf að tryggja að við úthlutun úr sjóðnum sé farið að mannvirkjalögum og að aðgengi fyrir alla sé hvort geymt til seinni tíma eða því sleppt. 
 

Virðingarfyllst.

Bergur Þorri Benjamínsson formaður Sjálfsbjargar lsh.
Stefán Vilbergsson verkefnastjóri aðgengis- og heilbrigðismálahópa hjá ÖBÍ.

Fylgiskjal:
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011, dags. 20. mars 2020.