Skip to main content
Umsögn

724. mál. Fjáraukalög 2020

By 15. maí 2020No Comments
Nefndasvið Alþingis
B.t. fjárlaganefndar
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
 
Reykjavík, 27. apríl 2020
 
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. Lög nr. 26/2020, 724. mál.
Öryrkjabandalag Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í hagsmunagæslu yfir þrjátíuþúsund fatlaðra og langveikra einstaklinga og aðstandenda þeirra á Íslandi.
Almennar athugasemdir.
Í því ástandi sem nú hefur ríkt vegna Covid-19 hefur orðið ljóst að fatlað og langveikt fólk býr við fátækt og jafnvel sárafátækt. ÖBÍ ítrekar því orð sérlegs skýrslugjafa Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, Catalina Devandas, sem segir að á tímum faraldurs og neyðarástands er skylda og ábyrgð ríkja heims enn ríkari gagnvart fötluðu og langveiku fólki sökum þeirra innbyggðu mismununar sem fatlað fólk býr við. Sérstaklega verði að huga að fjárhagslegri stöðu þess. „Aukinn fjárhagsstuðningur er líka bráðnauðsynlegur til að draga úr þeirri hættu að fatlað fólk og fjölskyldur þeirra dragist inn í meiri fátækt eða meiri hættu”[1]
 
ÖBÍ gagnrýnir að engar breytingar á lið 27. Örorka og málefni fatlaðs fólks á fjárlögum er að finna í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19, enn sem komið er. ÖBÍ leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi verndaraðgerðir og afkomuöryggi fatlaðs og langveiks fólks í því ástandi sem um ræðir og leitað verði allra leiða til að tryggja að bætt verði úr.
 
Aðgerðarpakki 2 átti að taka til viðkvæmra hópa. Í frumvarpinu er litið fram hjá öryrkjum, sem eru stór hópur fólks í viðkvæmri stöðu. Kjör öryrkja hafa dregist stórlega aftur úr öðrum hópum, einnig tekjulægsta hópnum eins og þeim sem fá greiddar atvinnuleysisbætur og lágmarkslaun. Ef miðað er við árlegt meðaltal launa- og verðlagsvísitölu frá árinu 2007 er kjaragliðnun öryrkja að minnsta kosti rúm 30%.
 
Aðgerðarpakki 2 sem nú er til kynningar olli ÖBÍ vonbrigðum þó svo að vissulega megi þar finna brýnar aðgerðir varðandi geðheilbrigðismál og aðgerðir til foreldra og aðstandenda fatlaðra barna og lágtekjufólks til tómstunda og íþróttaiðkunar. Þá tekur ÖBÍ undir umsagnir Geðhjálpar, MS félagsins og Þroskahjálpar sem allar sýna mikilvægi þess að stjórnvöld taki málefni örorku og fatlaðs fólks upp í tengslum við Covid-19. ÖBÍ hefur í fyrri umsögnum sínum til fjárlaganefndar gert tillögu til aðgerðir s.s. varðandi hækkun grunnlífeyris, NPA, húsnæðismál, atvinnumál, menntun svo eitthvað sé nefnt, ítrekum við þær hér með.
 
Tryggja verður þeim fötluðu og langveiku einstaklingum sem eru í verndarsóttkví, laun.
Tryggja þarf rétt maka og aðstandenda fatlaðs einstaklings sem settur eru í sóttkví eða er gert að vera heima vegna lokana dagvistunar, leikskóla, skóla eða þjónustumiðstöðvar eða annara úrræða fyrir fatlaða fullorðna einstaklinga vegna Covid-19.
 
Skiljum engan eftir! Við hvetjum stjórnvöld til að horfa sérstaklega til aðgerða til verndar viðkvæmustu hópum samfélagsins, og bæta hag fleiri hópa í því ástandi sem nú ríkir.
 
ÖBÍ er tilbúið að gera grein fyrir umsögn sinni og sjónarmiðum sem varða mannréttindi og þarfir fatlaðs fólks við meðferð og afgreiðslu frumvarpsins sé þess óskað.
 
Virðingafyllst
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður Öryrkjabandalags Íslands

[1] Orðrétt segir sérstakur skýrslugjafi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, Catalina Devandas:  „Access to additional financial aid is also vital to reduce the risk of people with disabilities and their families falling into greater vulnerability or poverty.“

Devandes, Catalina (2020, 17. mars). COVID-19: Who is protecting the people with disabilities? – UN rights expert. The Office of the High Commissioner for Human Rights (UN Human Rights). Sótt 18. mars 2020 af: https://www.ohchr.org/EN/NewsEvents/Pages/DisplayNews.aspx?NewsID=25725&LangID=E&fbclid=IwAR2czfA34ZT6rGmzmaTuS_ejWUbYtjeWK3aN7rU6zRs5WfZFicF0s48N1U8


Umsögnin (PDF) á vef Alþingis