Skip to main content
Umsögn

726. mál. Breyting á ýmsum lögum til að mæta efna­hagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir). 2020

By 15. maí 2020No Comments
Nefndasvið Alþingis
B.t. fjárlaganefndar
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
 

Reykjavík, 30. apríl 2020

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, 726. mál

Öryrkjabandalag Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í hagsmunagæslu yfir þrjátíuþúsund fatlaðra og langveikra einstaklinga og aðstandenda þeirra á Íslandi.

Almennt um ástandið og áherslur sem vantar inn í frumvarpið

Í því ástandi sem nú hefur ríkt vegna Covid-19 hefur orðið ljóst að fatlað og langveikt fólk býr við fátækt og jafnvel sárafátækt. ÖBÍ ítrekar því orð sérlegs skýrslugjafa Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, Catalina Devandas, sem segir að á tímum faraldurs og neyðarástands er skylda og ábyrgð ríkja heims enn ríkari gagnvart fötluðu og langveiku fólki sökum þeirra innbyggðu mismununar sem fatlað fólk býr við. Sérstaklega verði að huga að fjárhagslegri stöðu þess. „Aukinn fjárhagsstuðningur er líka bráðnauðsynlegur til að draga úr þeirri hættu að fatlað fólk og fjölskyldur þeirra dragist inn í meiri fátækt eða meiri hættu”[1]
 
ÖBÍ gagnrýnir að í frumvarpinu sem hér er til umsagnar og öðrum frumvörpum sem stjórnarmeirihlutinn hefur lagt fram á Alþingi er ekki að finna hækkun fyrir lið 27. Örorka og málefni fatlaðs fólks vegna Covid-19. ÖBÍ leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi verndaraðgerðir og afkomuöryggi fatlaðs og langveiks fólks í því ástandi sem um ræðir og leitað verði allra leiða til að tryggja að bætt verði úr.
 
ÖBÍ styður af fullum þungu áherslu BSRB í umsögn samtakanna um þingmál 724 og 726 um hækkun elli- og örorkulífeyrir verði hækkað.
 
Úr umsögn BSRB: „Þann 1. janúar 2020 hækkuðu greiðslur ellilífeyrisþega sem búa með öðrum um 8.700 kr. á mánuði og um tæplega 10.900 kr. hjá þeim sem búa einir.
Lágmarksframfærslutrygging örorkulífeyrisþega hækkaði með svipuðum hætti.
BSRB leggur til að almannatryggingar verði hækkaðar um 17.000 kr. frá og með
1. janúar 2020 (í stað hækkunarinnar sl. áramót) og 24.000 kr. frá og með 1. apríl
2020. Fyrir liggja upplýsingar um að verst stöddu ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegar séu í þeim hópi sem er hvað hættast við því að lenda í fátækt. Nauðsynlegt er að fjárhæðir almannatrygginga fylgi launahækkunum kjarasamninga til að draga úr ójöfnuði og til að tryggja megi afkomu fólks.“
 
Gríðarlega aukið álag er á foreldra fatlaðra og langveikra barna. Foreldrar barna sem hingað til hafa haft sólarhringsþjónustu hafa þurft að fara úr hlutverki foreldra og í hlutverk sólarhringsumönnunaraðila. Slíkar breytingar valda aukinni streitu hjá allri fjölskyldunni, erfitt getur jafnvel verið að sinna öðrum börnum á heimilinum hvað þá atvinnu. Þar ofan á bætist oft afkomukvíði við þar sem foreldrum eru ekki tryggð laun á meðan þeir eru heima að sinna börnum sínum. Staðreyndin er sú að fjölmargir foreldrar eru í launalausu leyfi eða búnir að nýta allt orlof til að geta verið heima. Nauðsynlegt er að koma til móts við þennan hóp foreldra og greiða þeim laun fyrir þennan tíma og fyrir aukaumönnun.

Athugasemdir við einstakar greinar

Um 5. og 6. gr.

Á Íslandi er meirihluti mannvirkja illa aðgengilegur fötluðu fólki sem hamlar möguleikum þess til að lifa sjálfstæðu lífi til jafns við aðra. Fólk er því í mjög misjafnri aðstöðu til búsetu, atvinnu og almennri þátttöku í samfélaginu. Ísland er langt á eftir nágrannalöndunum um styrki og lán til að jafna aðgengi að mannvirkjum. Við yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011 minnkuðu möguleikar þess enn. Þá var framkvæmdasjóður fatlaðra lagður niður, en þar var hægt að sækja um styrki meðal annars til aðgengisúrbóta í íbúðarhúsnæði og á vinnustöðum á almennum markaði. Í staðinn var settur á fót fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem skv. lögum “hefur það hlutverk að jafna aðstöðu sveitarfélaga við uppbyggingu eða breytingar á fasteignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk með miklar og/eða sértækar stuðningsþarfir.”[2] Þetta var afar mikið og slæmt stökk afturábak sem nauðsynlegt er að leiðrétta.
 
Það má líta svo á að með 5. gr. sé tekið skref í þá átt með rýmkun heimilda svo að hægt sé að nýta sjóðinn í aðgengisúrbætur á öðrum mannvirkjum í eigu sveitarfélaganna. Það þarf að gera enn betur. Í Noregi geta einstaklingar fengið styrki og lán frá sveitarfélögunum gegnum íbúðalánasjóð til að bæta aðgengi á heimilum svo þeir geti búið þar. Hættan er þó sú að úthlutað verði úr sjóðnum til að létta á fjármögnun almennrar uppbyggingar í sveitarfélögunum. Það er æskilegt að sjóðurinn veiti fé eingöngu og gagngert til fjarlægja hindranir fyrir fatlað fólk í manngerðu umhverfi. Verði þessi grein samþykkt þarf að búa svo um hnútana í reglugerðum um jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
 
Ekkert af þessu skiptir þó máli verði 6. gr. samþykkt. Þar er gert ráð fyrir heimild til að nýta fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í annað en honum er ætlað, og að því er virðist í nánast hvað sem er sem sveitarfélögin þurfa að greiða næstu árin. Þó svo að sveitarfélögin eigi nú í erfiðleikum með að fjármagna grunnþjónustu sína vegna þess ástands sem skapast hefur með COVID-19 er engan veginn ásættanlegt að tæma magran sjóð sem eyrnamerktur hefur verið til að jafna stöðu fólks, eins og stjórnvöldum ber samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Því verður harðlega mótmælt.

Um 7. gr.

ÖBÍ styður þau áform að framlengja til 30. september nk. gildistíma laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020. Framlengingin er mikilvæg fyrir fjárhagslega stöðu einstaklingar sem þurfa að fylgja fyrirmælum sóttvarnayfirvalda.
 

Tekið er undir með ASÍ og BSRB um mikilvægi þess að fella þá sem þurfa að fara í verndarsóttkví undir gildissvið laganna og tryggja með þvi afkomu eftirtalinna hópa.

  • Einstaklingar á vinnumarkaði með undirliggjandi sjúkdóma
  • Foreldrar fatlaðra barna og barna með langvarandi sjúkdóma
  • Þungaðar konur á 36. viku meðgöngu og síðar
  • Aðstandendur fatlaðs fólks sem vegna þjónustuskerðingar geta ekki stundað vinnu vegna umönnunar fatlaðs aðstandanda

Lokaorð 

Skiljum engan eftir! Við hvetjum stjórnvöld til að horfa sérstaklega til aðgerða til verndar viðkvæmustu hópum samfélagsins, og bæta hag fleiri hópa í því ástandi sem nú ríkir.
 
ÖBÍ er tilbúið að gera grein fyrir umsögn sinni og sjónarmiðum sem varða mannréttindi og þarfir fatlaðs fólks við meðferð og afgreiðslu frumvarpsins sé þess óskað.
 
Ekkert um okkur án okkar!
 
Virðingafyllst          
 
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður Öryrkjabandalags Íslands

[1] Orðrétt segir sérstakur skýrslugjafi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, Catalina Devandas:  „Access to additional financial aid is also vital to reduce the risk of people with disabilities and their families falling into greater vulnerability or poverty.“

Devandes, Catalina (2020, 17. mars). COVID-19: Who is protecting the people with disabilities? – UN rights expert. The Office of the High Commissioner for Human Rights (UN Human Rights). Sótt 18. mars 2020 af: https://www.ohchr.org/EN/NewsEvents/Pages/DisplayNews.aspx?NewsID=25725&LangID=E&fbclid=IwAR2czfA34ZT6rGmzmaTuS_ejWUbYtjeWK3aN7rU6zRs5WfZFicF0s48N1U8.

[2] https://www.althingi.is/lagas/150a/1995004.html, 1. mgr. 13. gr. b.


Umsögnin (PDF) á vef Alþingis