Skip to main content
Umsögn

841. mál. Fjáraukalög 2020

By 5. júní 2020No Comments
Nefndasvið Alþingis

B.t. fjárlaganefndar
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. júní 2020

 Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, þingskjal 1488- 841. mál

Öryrkjabandalag Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í hagsmunagæslu fyrir meira en þrjátíuþúsund fatlaða og langveika einstaklinga og aðstandendur þeirra á Íslandi.

Almennt um ástandið og áherslur sem vantar inn í frumvarpið
Í því ástandi sem nú hefur ríkt vegna Covid-19 hefur orðið ljóst að fatlað og langveikt fólk býr við fátækt og jafnvel sárafátækt. ÖBÍ ítrekar því orð sérstaks skýrslugjafa Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Catalina Devandas, sem segir að á tímum faraldurs og neyðarástands er skylda og ábyrgð ríkja heims enn ríkari gagnvart fötluðu og langveiku fólki sökum þeirra innbyggðu mismununar sem fatlað fólk býr við. Sérstaklega verði að huga að fjárhagslegri stöðu þess. „Aukinn fjárhagsstuðningur er líka bráðnauðsynlegur til að draga úr þeirri hættu að fatlað fólk og fjölskyldur þeirra dragist inn í meiri fátækt eða meiri hættu”. [1] 

Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafa bent á aðgerðir sem eru nauðsynlegar til þess að tryggja réttindi og hagsmuni fatlaðs fólks í faraldrinum. Nú síðast bættist við yfirlýsingu 142 ríkja sem styðja ákall aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, um mikilvægi þess að hafa málefni og þarfir fatlaðs fólks að leiðarljósi í aðgerðum og viðbrögðum við COVID-19 faraldrinum. [2] 
Allir þessir aðilar benda á mikilvægi þess að tryggja áfram þjónustu, fjárhagslegan stuðning við fatlað fólk og aðstandendur. ÖBÍ tekur undir þetta og skorar á stjórnvöld að taka utan um þennan hóp og bæta stöðuna!

ÖBÍ gagnrýnir að í frumvarpinu sem hér er til umsagnar og öðrum frumvörpum sem stjórnarmeirihlutinn hefur lagt fram á Alþingi er ekki að finna hækkun fyrir lið 27. Örorka og málefni fatlaðs fólks vegna Covid-19. ÖBÍ leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi verndaraðgerðir og afkomuöryggi fatlaðs og langveiks fólks í því ástandi sem um ræðir og leitað verði allra leiða til að tryggja að bætt verði úr. Örorkulífeyrir langt undir lágmarkslaunum er augljóst misrétti. Viðurkenningu þarf á að 400.000 kr. sé lámarksframfærsla. Sú staðreynd að fötluðu fólki sé gert að draga fram lífið á 200-300 þús krónum sýnir alvarlega skekkju. Fátækt og misrétti verður að laga.
Einnig verður að gera ráðstafanir í heilbrigðiskerfinu til að bregðast við þeim áskorunum sem framundan eru þegar fólk sem ekki hefur haft aðgang að læknisþjónustu, sjúkraþjálfun eða annarri heilbrigðisþjónustu vegna álags Covid-19 á kerfið kemur aftur inn, en við verri heilsu en áður.
 

Yfirlýsing 142 þjóða sem Ísland hefur tekið undir
Í áðurnefndri yfirlýsingu kemur eru ríki hvött til þess að koma í framkvæmd ákalli aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres um að ríki skuli að taka fullt tilllit til réttinda fatlaðs fólks í allri sinni stefnumótun og í öllum aðgerðum sem varða viðbrögð við heimsfaraldrinum og þegar ríki rétta úr kútnum (response and recovery). Má því segja að einn hluti íslenska ríkisins sé nú að kalla á að annar hluti íslenska ríkisins, þ.e. ráðuneyti- og löggjafinn- skuli samþætta hagsmuni fatlaðs fólks í allri sinni stefnumótun.

Í ákalli Guterres kemur fram að það sé grundvallaratriði að tryggja inngildingu og aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu, til jafns við aðra, þar með talið aðgang að lyfjum, bóluefni og lækningatækjum, sem og aðgengi að félagslegri vernd eða öðrum stuðningi, þar með talið stuðningi til sjálfstæðs lífs, eins og NPA, eða túlka- og sálfræðiþjónustu. Ríki verði einnig að grípa til aðgerða til að tryggja atvinnu, menntun og félagslega vernd.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna kveða á um að enginn verði skilinn eftir (leave no one behind). Aðgerðapakkar stjórnvalda hafa því miður hvorki komið orðum Guterres í framkvæmd og en tryggt að fatlað fólk verði ekki skilið eftir í aðgerðum stjórnvalda.

Tillögur ÖBÍ um viðbrögð við stöðunni sjást ekki í aðgerðarpökkum
Í frumvarpinu sem hér er til umsagnar og öðrum frumvörpum sem stjórnarmeirihlutinn hefur lagt fram á Alþingi með viðbrögðum stjórnvalda við COVID 19 faraldrinum er ekki að finna aðgerðir eða ráðstafanir til að bæta kjör fatlaðs fólks (draga úr fátækt) eða tryggja réttindi þeirra eða aðgengi að samfélaginu. Eina undantekningin er 20 þúsund kr. eingreiðsla til öryrkja í maí sl.

Í samskiptum við fastanefndir Alþingis, þar á meðal fjárlaganefnd, var óskað eftir tillögum frá ÖBÍ um viðbrögð við þeirri fordæmalausu stöðu sem uppi er í íslensku efnahagslífi í kjölfar Covid-19. ÖBÍ hefur ítrekað sent tillögur, sem allar eiga sameiginlegt að vera tæknilega auðveldar og geta orðið hluti af þeim aðgerðum sem munu veita efnahagslífinu viðspyrnu. Því miður hefur engin þeirra ratað í frumvörp eða aðgerðir stjórnarmeirihlutans. Tillögurnar eru að finna í viðhengi með umsögninni.

Greiðslur til einstaklinga sem sæta sóttkví
ÖBÍ mótmælir því harðlega að ekki sé gert ráð fyrir greiðslum til langveikra einstaklinga, foreldra langveikra barna og aðstandenda fatlaðs fólks sem fóru í verndarsóttkví
 

Sóttkví er liður í því að hægja á útbreiðslu COVID-19 og verndarviðkvæma hópa fyrir smiti. Í frumvarpinu er óskað eftir 2.000 m.kr fjárheimild vegna greiðslna til þeirra einstaklinga sem sætt hafa sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Jákvætt er að komið sé til móts við fólk í sóttkví en í því samhengi má ekki gleymast að embætti Landlæknis ráðlagði langveiku fólki að fara í verndarsóttkví. Þar sem ekki var um bein fyrirmæli að ræða frá heilbrigðisyfirvöldum heldur einungis ráðleggingar falla langveikir einstaklingar og aðstandendur þeirra ekki undir lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví. Einstaklingar sem fara í verndarsóttkví eru raunverulega í sömu stöðu og þeir sem fóru í sóttkví samkvæmt lagafyrirmælum. Munurinn er þó sá að fólkið sem fór í verndarsóttkví fór í hana á grundvelli þess að það, eða aðstandandi þess, er með einhverja undirliggjandi sjúkdóma eða skerðingar, og það er sá hópur sem ríkið hefur valið að koma ekki til móts við. Sú leið sem ríkið hefur valið að fara felur þar með í sér hrópandi mismunun á grundvelli fötlunar. Íslenska ríkið er skuldbundið til þess að eyða slíkri mismunun samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og ber því ríkið skyldu til þess að vinda ofan af mismununni.

Lokaorð
Skiljum engan eftir! Enn hvetjum við stjórnvöld til að horfa sérstaklega til aðgerða til verndar viðkvæmustu hópum samfélagsins, og bæta hag fleiri hópa í því ástandi sem nú ríkir.
 

ÖBÍ er tilbúið að gera grein fyrir umsögn sinni og sjónarmiðum sem varða mannréttindi og þarfir fatlaðs fólks við meðferð og afgreiðslu frumvarpsins sé þess óskað.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingafyllst

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður Öryrkjabandalags Íslands

[1] Orðrétt segir sérstakur skýrslugjafi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, Catalina Devandas:  „Access to additional financial aid is also vital to reduce the risk of people with disabilities and their families falling into greater vulnerability or poverty.“

Devandes, Catalina (2020, 17. mars). COVID-19: Who is protecting the people with disabilities? – UN rights expert. The Office of the High Commissioner for Human Rights (UN Human Rights). Sótt 18. mars 2020 af: https://www.ohchr.org/EN/NewsEvents/Pages/DisplayNews.aspx?NewsID=25725&LangID=E&fbclid=IwAR2czfA34ZT6rGmzmaTuS_ejWUbYtjeWK3aN7rU6zRs5WfZFicF0s48N1U8.
 

[2] Fastanefnd Frakklands hjá SÞ (2020, 18. maí). “Disability-inclusive response to COVID-19 – Towards a better future for all” A response to the Secretary-General’s Policy Brief – A Statement by 137 Member States and Observers. Sótt í maí af: https://onu.delegfrance.org/Disability-inclusive-response-to-COVID-19-Towards-a-better-future-for-all

Ath. 5 ríki bættust síðar við, þar á meðal Ísland