Skip to main content
Umsögn

9. Sóttkví aðstoðarfólks

By 8. október 2020No Comments

Rakningarteymi upplýsir aðstoðarfólk um hvort það eigi að fara í sóttkví. Aðstoðarfólk á að fara í sóttkví í 14 daga skv. leiðbeiningum sóttvarnalæknis [PDF] ef þeir:

 1. Tilkynna beina snertingu við einstakling með COVID-19 eða snertingu við smitefni eða hafa verið í mikilli nálægð við hinn veika < 1 metra og ekki í hlífðarfatnaði í meira en 15 mín. Þeir sem búa á heimili með veikum einstaklingi fara í sóttkví.
 2. Þrifu svæði sem var hugsanlega mengað án þess að nota hlífðarfatnað.

Vinnufélagar þess sem fer í sóttkví, gæta að eigin smitgát en eru ekki beðnir um að fara í sóttkví nema ofangreint eigi líka við um þá.

Rakningarteymið sendir aðstoðarfólki sem er í sóttkví tíma í sýnatöku á 7. degi til að aflétta henni. Hafa ber í huga að þó sóttkví sé stytt í 7 daga þarf aðstoðarmaður alltaf að bera grímur næstu 7 daga ásamt því að huga sérstaklega vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum. Ekki er æskilegt að aðstoðarmaður sem styttir sóttkví, sinni einstaklingum sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir sýkingu af völdum COVID – 19.

Skráning aðstoðarfólks í sóttkví

Aðstoðarmaður þarf að vera skráður í sóttkví til að hægt sé að gefa út staðfestingu/vottorð. Þeir geta gert það sjálfir eða verið skráðir af sinni heilsugæslu eða smitrakningarteymi almannavarna.

 • Einstaklingar með rafræn skilríki geta skráð sig sjálfir í sóttkví á heilsuvera.is (eingöngu sóttkví fyrirskipuð af yfirvöldum, ekki sjálfskipuð sóttkví).
  • Ef einstaklingar eru ekki með rafræn skilríki þá skrá þeir sig í sóttkví á heilsugæslunni.
  • Þegar skráning er klár þá er hægt að sækja sér vottorð/staðfestingu um sóttkví inni áwww.heilsuvera.is með rafrænum skilríkjum.
  • Ef einstaklingar eru ekki með rafræn skilríki og þurfa vottorð/staðfestingu um sóttkví þá senda þeir beiðni um það á mottaka@landlaeknir.is með efnislínuna: Staðfesting á sóttkví og fá það sent í tölvupósti.

Réttur aðstoðarfólks til greiðslna í sóttkví

Alþingi samþykkti lög nr. 24/2020 sem kveða á um tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví. Markmiðið er að styðja atvinnurekendur og launafólk sem sæta sóttkví þannig að þeir geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Þeir sem geta átt rétt á greiðslum samkvæmt lögunum eru:

 • Atvinnurekendur sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 31. desember 2021.
 • Launafólk sem sætt hefur sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingar sem sæta sóttkví á sama tímabili.
Vinnumálastofnun sér um framkvæmd laganna. Á vef Vinnumálastofnunar má finna upplýsingar um greiðslur í sóttkví skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Jafnframt eru þar ítarlegar upplýsingar í spurt og svarað, s.s. um skilyrði, umsóknarferlið, fjárhæðir, greiðslur í sóttkví og rétt forsjármanna barna í sóttkví. 
Aðstoðarfólk NPA sem er í sóttkví skv. fyrirmælum á rétt á launagreiðslum og aðstoðarfólk sem er í verktöku geta einnig átt rétt á greiðslum hafi verið staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi a.m.k. þrjá mánuði á undanförnum 4 mánuðum fyrir umsóknardag eða með reglulegum hætti. Notandi/verkstjórnandi skráir vaktir á aðstoðarfólkið eins og venjulega en auðkennir þær sérstaklega með „sóttkví“.

Hvernig er sótt um greiðslur

Tekið er við umsóknum á vef Vinnumálastofnunar og hér má finna frekari upplýsingar um greiðslur í sóttkví.

Umsýsluaðili NPA getur lagt fram umsókn til Vinnumálastofnunar (VMST) um greiðslu á mínum síðum fyrir atvinnurekendur á vef Vinnumálastofnunar. Skal hann skrá þá aðstoðarmenn sem sótt er um greiðslu fyrir og þá daga sem þeir gátu ekki sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta sökum þess að þeim var gert að vera í sóttkví. Hægt er að sækja um í einni umsókn fyrir alla aðstoðarmenn sem hófu sóttkví í sama mánuði. Ef um tvo eða fleiri upphafsmánuði sóttkvíar er að ræða, þarf að sækja um fyrir hvern mánuð fyrir sig. Framvísa þarf nauðsynlegum fylgigögnum ef Vinnumálastofnun óskar eftir þeim. Hægt er að merkja við heila og/eða hálfa daga.

Aðstoðarmaður sem er verktaki sækir um inn á mínum síðum atvinnuleitenda. Á umsókn þarf að merkja við að umsækjandi sé sjálfstætt starfandi. Velja þarf upphafsmánuð sóttkvíar og tilgreina fjölda starfsdaga sem viðkomandi gat ekki sinnt starfi sínu þaðan sem hann sætti sóttkví.

Undanþága frá heimasóttkví – sóttkví B

Við sérstakar aðstæður, þegar aðrar leiðir eru ekki færar, kann að koma til þess að sérhæfðir starfsmenn í sóttkví sem sinna lykil-þjónustu s.s. umönnun fatlaðra einstaklinga sem eru líka í sóttkví fái heimild til að snúa til vinnu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Slík sóttkví kallast sóttkví B til aðgreiningar frá hinni almennu sóttkví.

Fyrir utan að sinna áfram starfi sem aðrir geta ekki sinnt, skal aðstoðarmaður í sóttkví B virða reglur um almenna sóttkví utan vinnutíma, þ.e. hitta sem fæsta og fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis um hlífðarbúnað o.fl. sem sendar eru með samþykki undanþágunnar. Hér er um sérstaka aðgerð að ræða í ljósi mjög krefjandi umhverfis við fordæmalausar aðstæður.

Skilyrði fyrir sóttkví B:

 1. Vinnuframlag viðkomandi aðstoðarmanns er nauðsynlegt til að tryggja öryggi notanda og ekki finnast einstaklingar með viðeigandi reynslu og bakgrunn í bakvarðasveit velferðarþjónustu.
 2. Aðstoðarmaður og notandi/vinnuveitandi eru sammála um að sækja skuli um undanþáguna. Aðstoðarmaður getur dregið umsókn til baka ef sótt er um undanþágu án hans samþykkis.
 3. Aðstoðarmaður er einkennalaus. Aðstoðarfólk á undanþágu þarf að fylgjast vel með eigin heilsu og má ekki mæta til starfa með einkenni sem samræmast COVID-19.
 4. Aðstoðarmaður fer strax úr vinnu strax ef einkenna verður vart í samráði við notanda.
Undanþágu þarf að sækja um til sóttvarnalæknis og eyðublað [PDF] má finna á vef embættis landlæknis. Brot á reglum sóttvarnalæknis um sóttkví varða sóttvarnalög nr. 19/1997.

Næsti kafli   Efnisyfirlit