Skip to main content
Flóttafólk og innflytjendurRéttarkerfiUmsögn

Aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023–2026

By 22. mars 2023febrúar 7th, 2024No Comments

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023-2026, þskj, 1212, 795. mál.

ÖBÍ – réttindasamtök (ÖBÍ) hefur borist ofangreind tillaga til umsagnar. Tillagan er umfangsmikil og mælir fyrir um margar aðgerðir sem vert er að styðja við. ÖBÍ vill þó koma áleiðis eftirfarandi athugasemdum.

1.
Fatlað fólk er stærsti minnihlutahópur í heimi og óhætt að segja að hautursorðræða sé dagleg gegn fötluðu fólki. Fötlun samtvinnast öðrum minnihlutahópum, t.d. fatlað transfólk, fatlaðir flóttamenn og fatlað heimilislaust fólk. Fatlað fólk á í meiri hættu á að vera fórnalömb hatursorðræðu og hatursglæpa og eru þar fatlaðar konur í sérstakri hættu. Samkvæmt nýlegum tölfræðigögnum á vegum EU Fundamental Rights Agency (FRA) eru fatlaðar konur allt að tvisvar til fimm sinnum líklegri til þess að verða fyrir áreiti en ófatlaðar konur, í stafrænum heimi og raunheimum. Það veldur því vonbrigðum að tillagan skuli ekki taka til sértækari aðgerða gegn hatursorðræðu í garð fatlaðs fólks. Jafnframt vekur það athygli að heimilislaust fólk sé hvergi tiltekið í tillögunni. ÖBÍ skorar á nefndarmenn að gera hópi heimilislausra hærra undir höfði í tillögunni þar sem þau tilheyra öllum minnihlutahópum, hafa mikið verið í umræðunni, mæta miklum fordómum, áreiti og koma allstaðar að lokuðum dyrum.

2.
Í gegnum tíðina hefur fatlað fólk ekki verið talið trúverðugt þegar það hefur sagt frá eða tilkynnt um ofbeldi sem það hefur orðið fyrir. Upplýsingar, leiðbeiningar og stuðningur hefur verið takamarkaður og óaðgengilegur. Það er nauðsynlegt að skapa vettvang til að auðvelda brotaþolum hatursorðræðu að tilkynna um hana og um leið tryggja viðeigandi aðlögum til þess.

3.
Nauðsynlegt er að hagsmuna-, félagasamtök og grasrót hafi sterka rödd í aðgerðunum. Þá er jafnframt mikilvægt að þau sem koma að því að útfæra og framkvæma aðgerðirnar séu sérfræðingar á þeim sviðum sem mismunandi minnihlutahópar ná til.

4.
ÖBÍ lýsir áhyggjum yfir því að þeir fjármunir sem eyrnamerktir eru aðgerðum tillögunnar séu ekki nægjanlegir til að ná tökum á þeim samfélagslega vanda sem til staðar er og hvetur til þess að tillögunni verði tryggt meira fjármagn.

Ekkert um okkur, án okkar!

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Alma Ýr Ingólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023–2026. 795. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 22. mars 2023