Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027

By 3. apríl 2023júní 19th, 2024No Comments
Fáni geðheilbrigðis.

ÖBÍ réttindasamtök binda miklar vonir við að staðið verði við þau markmið sem fram koma í aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027 og fagna áætluninni.

Hér að neðan má lesa umsögn ÖBÍ réttindasamtaka í heild:

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027, 857. mál.

ÖBÍ – réttindasamtök (ÖBÍ) fagna nýrri aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum og styður þær tillögur sem eru lagðar fram. Jafnframt tekur ÖBÍ heilshugar undir meginefni tillögunar sem er að geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði verði í forgrunni við að viðhalda og bæta geðheilbrigði einstaklinga.

Ennfremur er ánægjulegt að sjá að áhersla er lögð á að bæta eigi geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu. Mikill skortur hefur verið á geðheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og því mikilvægt að lögð verði áhersla á fjarheilbrigðisþjónustu.

Þá er ánægjulegt að sjá í aðgerðaráætluninni skýr markmið um að bæta og innleiða eigi geðræktarstarf, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem flokkast undir heilbrigðisþjónustu. Snemmtæk íhlutun getur sparað bæði ríki og sveitarfélögum töluvert fjármagn til lengri tíma litið.

Í tillögunni kemur auk þess fram að efla eigi hlutverk heilsugæslu í geðheilbrigðiþjónustu. Til að því markmiði verði náð er brýnt að tryggt verði að á heilsugæslum landsins séu starfandi fagaðilar sem hafa sérþekkingu á geðheilbrigðismálum. Gott aðgengi að fagaðilum í geðheilbrigðisþjónustu eykur líkur á bata einstaklingsins, fyrirbyggir langtímaveikindi og eykur líkur á mögulegri atvinnuþátttöku.

Eitt af markmiðum aðgerðaráætlunarinnar er að til staðar sé notendasamráð og að notendamiðuð þjónusta verði tryggð á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. ÖBÍ leggur sérstaka áherslu á að því markmiði verði náð enda er notendasamráð órjúfanlegur hluti af því að betrumbæta geðheilbrigðiskerfið.

ÖBÍ bindur miklar vonir við að staðið verði við þau markmið og undirmarkmið sem fram koma í aðgerðaráætluninni enda eru ríki skuldbundin til að virða, vernda og uppfylla réttinn til andlegrar heilsu í innlendum lögum, reglugerðum, stefnumótun, fjárveitingum, áætlunum og öðru sem þau hafa forgöngu um. Rétturinn á bestu mögulegu heilsu er meðal mikilvægustu grunnmannréttinda og því mikilvægt skilyrði fyrir möguleika fólks á því að njóta annarra mannréttinda. Rétturinn til heilsu felur einnig í sér frelsi hvers og eins til að ráða yfir eigin líkama og taka ákvörðun um viðeigandi meðferð. Bæði innlend löggjöf og fjöldi alþjóðlegra mannréttindasamninga áskilja að rétturinn til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sé tryggður.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Bára Brynjólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027. 857. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 3. apríl 2023.


Mynd: Fáni geðheilbrigðis. Wikimedia Commons.