
Google maps
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna því að stjórnvöld hafi sett fram markvissa aðgerðaráætlun gegn sjálfsvígum, enda þurfum við öll að taka höndum saman til þess að koma í veg fyrir sjálfsvíg og þann mikla skaða sem af þeim hlýst.
Í þessari umsögn verður aðaláhersla lögð á aðgerðir 2.1 og 2.2 um lágþröskulda úrræði fyrir fullorðna annarsvegar og börn og ungmenni hins vegar.
Við fögnum því sérstaklega að áætlunin leggi áherslu á mikilvægi framlags félagasamtaka í tengslum við lágþröskudaúrræði og jafningjastuðning, og að það eigi að tryggja og þróa slík úrræði. Félagasamtök hér á landi hafa lyft grettistaki í því að útbúa úrræði fyrir sitt fólk og það er mikilvægt að hlúið sé vel að því starfi sem sannarlega á heima innan þriðja geirans.
En við viljum einnig lýsa yfir áhyggjum af þróun lágþröskulda úrræða í geðheilbrigðisþjónustu, en þau voru einnig áberandi úrræði í Geðheilbrigðisáætlun. Þegar upp er staðið hefur lítið fjármagn verið sett í þróun úrræða og ekkert hugað að aðgengi fatlaðs fólks í þeim efnum. Þeir átta hópar sem fatlað fólk eru almennt taldir vera fólk með hreyfihömlun, blindir og sjónskertir, fólk með heyrnarskerðingu eða heyrnarleysi, fólk með geðraskanir, fólk með þroskafrávik eða þroskahömlun, fólk með taugaþroskaraskanir, fólk með langvinna sjúkdóma og fólk með fjölþættan vanda.
Hér er mikilvægt að hafa í huga 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), þar sem lögð er áhersla á jafnt aðgengi fatlaðs fólks að meðal annars heilbrigðisþjónustu. Þetta er því miður þvert á raunveruleika okkar í dag, þar sem stórir hópar, fólk með þroskafrávik, fólk með taugaþroskaraskanir, sem dæmi, hafa lítinn sem engan aðgang að 1. stigs geðheilbrigðisþjónustu, jafnvel þó að þessir hópar séu í áhættu fyrir geðrænum áskorunum og sannanlega myndu njóta góðs af snemmtækri íhlutun. Það þarf að huga að betur að þessum hópum sértaklega þegar verið er að útbúa ferla, efni og meðferðir – sem langt frá því að vera staðan í dag.
ÖBÍ ítrekar mikilvægi stuðnings við snemmtæka íhlutun, og gott aðgengi að lágþröskulda úrræðum, en hafa alvarlegar áhyggjur af því að fatlað fólk sé ekki hafður í huga í því samhengi. Það að vera fatlaður getur verið mjög einangrandi og það er því fyrir öllu að fatlað fólk upplifi að það hafi sama aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og aðrir.
Í lokin vill ÖBÍ koma á framfæri vilja og áhuga til samráðs við heilbrigðisráðuneytið varðandi SRFF sem nú stendur til að lögfesta.
Ekkert um okkur – án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Rósa María Hjörvar
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka
Drög að aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi
Mál nr. S-15/2025. Heilbrigðisráðuneytið. Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
Umsögn ÖBÍ, 4. mars 2025