Skip to main content
RéttarkerfiSRFFUmsögn

Áform um breytingar á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk

By 20. ágúst 2025september 1st, 2025No Comments
Fólk á ferð í stórum sal, myndin er óskýr (blurruð) þannig að ekki sést í andlit.

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um breytingar á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Hér eru gerðar athugasemdir við þá sex liði breytinga sem áformaðar eru en ítarlegri athugasemdir verða gerðar þegar nánari útfærsla liggur fyrir.

Breyting á heiti laganna

Að svo stöddu gerir ÖBÍ ekki athugasemd við áform um breytingu á nafni laganna.

Réttindavakt skv. 3. gr. laganna verði lögð niður

Í áformunum segir að hlutverk réttindavaktarinnar skarist að mörgu leyti við hlutverk annarra aðila, m.a. verkefnastjórnar um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks og samráðsnefndar um sömu málefni, sbr. 36. gr. laga nr. 38/2018.

Að mati ÖBÍ er ekki rétt að líta svo á að hlutverk réttindavaktarinnar skarist við verkefnastjórn um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks, en verkefnastjórn er ætlað að fylgja eftir og fjalla um þær aðgerðir sem landsáætlunin felur í sér. Hvað varðar samráðsnefnd skv. 36. gr. laga nr. 38/2018 er bent á að samkvæmt ákvæðinu er hlutverk nefndarinnar annað en hlutverk réttindavaktarinnar skv. a-f liðum 2. mgr. 3. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011.

Um samráðsnefndina segir að hún sé samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og að hún sé ráðgefandi fyrir ráðherra. Réttindavaktin hefur skv. stafliðum b-f í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2011 m.a. það hlutverk að safna upplýsingum um málefni fatlaðs fólks, koma ábendingum á framfæri, fræða og upplýsa, annast útgáfu, vinna gegn fordómum o.fl. Verði þau hlutverk ekki falin öðrum aðila er ljóst að þau falla niður verði tillaga áformanna um að leggja réttindavaktina niður að lögum.

Einnig er bent á Háskóli Íslands á aðild að réttindavaktinni en hið sama á ekki við um samráðsnefndina. Þannig myndi aðkomu fulltrúa fræðasamfélagsins falla niður.

Skýra eigi hlutverk réttindagæslu og sýslumanna

Hvergi kemur fram í áformunum með hvaða hætti stendur til að skýra hlutverk réttindagæslu og sýslumanna. Að svo stöddu er því ekki hægt að fjalla um þann hluta áformanna.

ÖBÍ hefur miklar áhyggjur af því ef lagt verður til að breyta eða leggja niður mikilvæga þætti í þjónustu sem réttindagæslan hefur sinnt í þágu fatlaðs fólks.

ÖBÍ telur mjög mikilvægt að réttindagæslumenn verði til staðar til að veita stuðning á einstaklingsgrundvelli því fatlaða fólki sem á í mestri hættu á að verða fyrir mannréttindabrotum, misnotkun og ofbeldi. Er þar m.a. átt við að hafa umboð fyrir einstaklinga og veita þeim stuðning í gegnum krefjandi og viðkvæm ferli, t.d. lögreglumál, fullnustumál og ýmis önnur ferli þar sem nauðsynlegt er að rödd hins fatlaða einstakling fái að heyrast til jafns við aðra og réttindi hans varin.

Að mati ÖBÍ er enginn annar aðili sem getur sinnt slíku með sama hætti og réttindagæslan hefur reynst geta gert. Í ljósi alvarlegra mála sem upp hafa komið síðustu misseri endurspeglast nauðsyn þess að fatlað fólk geti leitað til réttindagæslumanna með þeim hætti og það hefur getað gert.

ÖBÍ telur mikilvægt að ítreka hugmyndafræði 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en við réttindagæslulögunum var ætlað að samræmast 3. og 4. mgr. 12. gr. samningsins.

Fjármál einstaklinga sem dvelja á sambýlum og ákvæði V. kafla um nauðung

ÖBÍ fagnar því að leitað sé leiða til að leysa vanda fatlaðs fólks sem á í erfiðleikum með að nálgast og/eða fá aðstoð við ráðstöfun fjármuna sinna.

ÖBÍ leggur þó áherslu á að gengið verði úr skugga um að hjá sýslumönnum sé í hvívetna unnið samkvæmt hugmyndafræði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Því miður hefur orðið vart við áhyggjur af bakslagi hvað varðar löghæfi fatlaðs fólks, sbr. 12. gr. samningsins. Vísbendingar eru um tilhneigingu til að stuðla um of að lögræðis-, sjálfræðis- og fjárræðissviptingum og staðgengilsákvarðanatökum í stað stuðningsákvarðanatöku. Tryggja verður að löghæfi fatlaðs fólks sé virt að fullu í samræmi við samninginn.

Ekki kemur fram með ítarlegum hætti í áformunum með hvaða hætti stendur til að breyta V. kafla laganna um ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk. Að svo stöddu er því ekki hægt að fjalla um þann hluta áformanna.

Nauðung einstaklinga undir 18 ára verði á forræði barnamálaráðuneytisins

Að svo stöddu sér ÖBÍ ekki ástæðu til að gera athugasemdir við að mál er varða nauðung einstaklinga undir 18 ára verði á forræði barnamálaráðuneytisins.

ÚRVEL verði falin verkefni undanþágunefndra

ÖBÍ vill benda á að mestu skiptir að mannréttindi fatlaðs fólks séu virt þegar mál sem heyrt hafa undir undanþágunefnd eru annars vegar. Þau miklu vandamál sem verið hafa í tengslum við nauðung verða ekki leyst með því einu að auka skilvirkni í ákvarðanatöku. Ef markmið breytinganna verður ekki að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks betur en nú er getur ÖBÍ ekki stutt tillögurnar. Í áformunum kemur að auki ekkert fram um það hvernig þekking á málaflokknum verði tryggð hjá ÚRVEL.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ


Áform um breytingar á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011
Mál nr. S-124/2025. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 20. ágúst 2025


ÖBÍ réttindasamtök eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.