Skip to main content
RéttarkerfiUmsögn

Áform um breytingar á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd)

By 13. október 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um áform um breytingar á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd), mál nr. 179/2023.

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) telja mikilvægt að þeir sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd fái skilvirka, mannúðlega og vandaða málsmeðmerð líkt og tekið er fram í kaflanum um forsögu máls og tilefni. ÖBÍ áréttar að fatlað fólk á flótta er viðkvæmur hópur og minnir íslensk stjórnvöld á að unnið er að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem seturÍslandi ákveðnar lagalegar skuldbindingar gagnvart fötluðu fólki, þ.m.t. fötluðu fólki á flótta. Orð og gjörðir verða að fara saman til að tryggja trúverðuleika laga og alþjóðlegar skuldbindingar. Því skýtur það skökku við að markmið um mannúðlega og vandaða málsmeðferð samræmast ekki áformuðum lagabreytingum. ÖBÍ vill því koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

1.

ÖBÍ gerir athugasemdir við fyrirhugðar breytingar á 30. gr. laga um útlendinga um talsmannaþjónustu. Á bls. 3 í áformum um lagasetningu segir að „verði því í frumvarpinu lagt til að Útlendingastofnun verði í ákveðnum tilvikum heimilt að afgreiða mál án þess að skipaður sé talsmaður.“ Fötlun einstaklinga getur falið í sér að fatlað fólk á flótta geri sér ekki grein fyrir umfangi kerfisins og hvaða bjargráð stendur þeim til boða. Þá eru mörg sem hafa ekki heilsu til þess að koma gögnum og rökstuðningi á framfæri án aðstoðar. Það er því nauðsynlegt að tryggja að þessi viðkvæmi hópur hafi réttindagæslumann sem væri þeirra málsvari og sæi til þess að fatlað fólk á flótta fái sanngjarna meðferð og að máli þeirra sé fylgt eftir.

2.

Aukin samþætting og samráð meðal Norðurlandanna getur verið gott leiðarstef en varhugavert að fylgja eftir í blindni. ÖBÍ telur ekki ásættanlega röksemdarfærslu fyrir breytingum á 74. gr. laganna um mannúðarleyfi, en eftir því sem komist verður næst er Ísland eina Norðurlandið sem heimilar veitingu dvalarleyfis á slíkum grundvelli. Dómsmálaráðuneytið þarf að færa skýr rök fyrir hvernig sú breyting samræmist áherslum frumvarpsins um að þeir sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd fái skilvirka, mannúðlega og vandaða málsmeðmerð.

3.

Í lögum nr. 80/2016 um útlendinga kemur m.a. fram að ekki er heimilt að þjónustusvipta fatlað fólk á flótta. ÖBÍ gerir verulegar athugasemdir við framkvæmd og skort á verklagi við mat á fötlun fólks á flótta og telur brýnt að slíkt mat sé unnið af fagaðilum. Með 33. gr. laganna er lögreglunni heimilt að fresta niðurfellingu réttinda í kjölfar mats lögreglu á aðstæðum viðkomandi. Dæmi eru um að viðkvæmir hópar sem eiga að vera undanskildir þjónustusviptingu, þ.m.t. börn og fatlað fólk hafi verið svipt þjónustu.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Áform um breytingar á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd).
Mál nr. 179/2023.. Dómsmálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 13. október 2023