
ÖBÍ / MÖ
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) taka undir markmið stjórnvalda um mikilvægi stöðugleika á húsnæðismarkaði þar sem öllum sé tryggt öruggt og gott húsnæði á viðráðanlegu verði í blandraðri byggð. Almenna íbúðakerfið hefur í gegnum árin hjálpað einstaklingum að komast í öruggt húsaskjól en betur má ef duga skal og er brýnt að stjórnvöld tryggi öllum hópum samfélagsins jafnt aðgengi að öllum bjargráðum almenna íbúðakerfisins. Samkvæmt rannsókn Vörðu – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins í desember 2023 um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi býr 44% fatlaðs fólks sem leigja hjá óhagnaðardrifnu leigufélagi eða sveitarfélögum við þunga byrði húsnæðiskostnaðar og 46% þeirra sem búa í eigin húsnæði. Vont versnandi fer þegar kastljósinu er beint á almenna leigumarkaðinn, en 66% fatlaðs fólks á almennum leigumarkaði býr við þungan húsnæðiskostnað. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.
Samfélagslegt hlutverk óhagnaðardrifna leigufélaga
Gott aðgengi óhagnaðardrifinna leigufélaga að stofnframlögum er forsenda þess að þau geti tekið þátt í uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir fjölbreytta hópa fólks, stuðlað að húsnæðisöryggi þeirra sem efnaminni eru, fatlaðs fólks, einstaklingum með félagslegar áskoranir eða samblöndu tiltekna þátta. Samkvæmt leiguverðsjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) er meðaltal leiguverðs óhagnaðardrifinna leigufélaga tæplega 153.000 kr. á mánuðu í janúar 2025, samhliða tæplega 262.000 kr. meðaltals leiguverði hagnaðardrifinna leigufélaga. Meðaltal leiguverðs félagslegra leiguíbúða sveitarfélaga er 14.000 kr. hærra en hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum í sömu mælingu eða 167.000 kr. Vert er að taka fram að sveitarfélögum ber lagaleg skylda að tryggja framboð af leiguhúsnæði, handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Sú skylda hvílir ekki á óhagnaðardrifnum leigufélögum sem flest eru rekin með stuðning frjálsra félagasamtaka og verkalýðshreifinga.
ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að beita sér fyrir aukinni hlutdeild óhagnaðrdrifinna leigufélaga á húsnæðismarkaði samfélaginu öllu til heilla.
Stofnframlög og sérstakir styrkir
Að mati ÖBÍ eru áherslur stjórnvalda um þörf á aukinni skilvirkni og einföldun ferla við úthlutun stofnframlaga jákvætt skref í rétta átt. Tímabært er að endurskoða lög um almennar íbúðir nr. 52/2016 í samræmi við þann raunveruleika sem óhagnaðardrifin leigufélög standa frammi fyrir í dag. Óhagnaðardrifin leigufélög gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki við að stuðla að því að húsnæðiskostnaður lágtekjufólks sé ekki umfram greiðslugetu. Því er brýnt að stjórnvöld kasti ekki krónunni til að spara aurinn og íhugi samfélagslegan ágóða lægri gjaldtöku á óhagnaðardrifin leigufélög og hækkun stofnframlaga styrkja.
ÖBÍ leggur til að lækka stimpilgjöld óhagnaðardrifinna leigufélaga niður í 0,8% líkt og einstaklingar greiða í dag auk hækkunar endurgreiðslu virðisaukaskatts til óhagnaðardrifinna leigufélaga úr 35% í 100% vegna viðhaldskostnaðar og vinnu á verkstað. Þá leggur ÖBÍ til að stjórnvöld hækki sérstakan styrk vegna uppbyggingar íbúða fyrir viðkvæma hópa úr 4% í 14%.
Fatlað fólk og aðgengi að hlutdeildarlánum
Fatlað fólk á mun erfiðara með að bæta hag sinn, standast lánshæfismat og eignast húsnæði. Samkvæmt fyrrgreindri rannsókn Vörðu um stöðu fatlaðs fólks kemur fram að einungis 54% fatlaðs fólks býr í eigin húsnæði. Einnig er vert að benda á skýrslu um húsnæðismál fatlaðs fólks frá nóvember 2023, en þar kemur fram að 70% fatlaðs fólks sem býr í eigin húsnæði eignaðist húsnæðið sitt fyrir örorkumat. Núverandi fyrirkomulag hlutdeildarlána virka ekki fyrir fatlað fólk og því þurfa stjórnvöld að tryggja örorkulífeyristökum tækifæri til að eignast eigið húsnæði til jafns við ófatlað fólk.
ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að endurskoða útfærslu hlutdeildarlána og leggur til að heimildarákvæði 10. gr. í reglugerð nr. 1084/2020 um hámarks hlutfall hlutdeildarlána til tekjulægstu hópanna hækki úr 30% í 40%.
Jafnframt leggur ÖBÍ til að í reglugerð nr. 1084/2020 verði tekið tillit til sögu umsækjanda um greiðslu á húsaleigu. Þá leggur ÖBÍ til breytingar á 11. gr. sömu reglugerðar á þá leið að heimilt verði að veita örorkulífeyristökum hlutdeildarlán gegn eigin fé sem nemur 2% kaupverði íbúðar í stað 5% og að hámarks lánstími á íbúðarláni sem kemur á undan veðröð umsækjanda í sama hópi hækki úr 25 árum í 40 ár. ÖBÍ bendir á að fatlað fólk sem hefur ekki lífeyrisréttindi hjá lífeyrissjóði hefur færri lánatækifæri en einstaklingar á vinnumarkaði um húsnæðislán og hefur jafnframt ekki tækifæri til að nýta séreignasparnað.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016 (fyrirkomulag almennra íbúða)
Mál nr. S-40/2025. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ 6. mars 2025