
„Hunda- og kattahald getur haft talsverð jákvæð áhrif á andlega heilsu fólks“ … „Jafnframt er mikilvægt að huga að aðstæðum einstaklinga sem eru með dýraofnæmi“
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) telja mikilvægt að vanda vel til verka við útfærslu frumvarpsins og leggur áherslu á að gætt sé að ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Í 5. gr. samningsins er áréttað að aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur og því geta aðstæður og umhverfi sem skerðir lífsgæði sumra bætt lífsgæði annarra. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.
Virkt samtal og samráð
Að mati ÖBÍ er virkt samráð stjórnvalda við fjölbreytta hópa fatlaðs fólks lykillinn að uppbyggingu inngildandi umhverfis þar sem hver og einn getur lifað lífi sem virkur þátttakandi í samfélaginu óháð fötlun. Hunda- og kattahald getur haft talsverð jákvæð áhrif á andlega heilsu fólks, sérstaklega fyrir fatlað fólk sem er félagslega einangrað og eða eru með geðrænar áskoranir. Jafnframt er mikilvægt að huga að aðstæðum einstaklinga sem eru með dýraofnæmi og gæta þess að enginn þurfi að forðast eigið heimili vegna ofnæmisviðbragða.
Í áformunum kemur fram að tryggja þurfi betur bæði rétt hunda- og kattaeigenda í fjöleignarhúsum án þess þó að gengið sé um of á rétt annarra eigenda til að takmarka slíkt dýrahald ef fyrir því eru málefnalegar ástæður. ÖBÍ leggur til að stjórnvöld kalli eftir virku samráði við fatlað fólk úr báðum reynsluheimum áður en vinna við drög að lögum og reglugerðum hefst. Þannig má stuðla að niðurstöðu sem hámarkar lífsgæði og húsnæðisöryggi allra aðila. ÖBÍ eru reiðubúin til að taka þátt í þeirri vinnu sé eftir því óskað.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 (hunda- og kattahald)
Mál nr. S-39/2025. Innviðaráðuneytið
Húsnæðis- og skipulagsmál
Umsögn ÖBÍ, 6. mars 2025