
Náttúrufræðistofnun -Sveitarfélagaskjá
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) taka undir úrlausnarefni áformanna um mikilvægi þess að styðja við sveitarstjórnarstigið svo sveitarfélög geti sinnt lögbundnum verkefnum og þjónustu við íbúa, auk þess að efla lýðræðislegt hlutverk sveitarfélaga.
Í 4. gr. sveitarstjórnarlaga er viðmiðið um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum til að þau geti talist sjálfbær og annast lögbundin verkefni 1.000 manns. Samkvæmt tölum frá Byggðastofnun fyrir árið 2024 eru 29 af 62 sveitarfélögum með íbúa undir 1.000. Þrjú fámennustu sveitarfélögin hafa 52 og 53 íbúa.
Eitt af þeim lögbundnu verkefnum sem sveitarfélögum ber að sinna er þjónusta við fatlað fólk og brýnt að sveitarfélög og þjónustusvæði um land allt hafi skýrar uppfærðar reglur, virkt samráð og burði til að tryggja fötluðu fólki jafnt aðgengi að þjónustu óháð póstnúmeri. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.
Uppfylla ekki skyldur sínar í gerð reglna
Frumkvæðisathugun Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) á stoð- og stuðningsþjónustureglum sem kom út í febrúar 2025 leiddi í ljós að einungis sex sveitarfélög höfðu allar reglur um stoð- og stuðningsþjónustu og voru með þær uppfærðar. Dæmi voru um að óuppfærðar reglur um stoðþjónustu hefðu tekið gildi árið 2011 og því haldist óbreyttar þrátt fyrir gildistöku nýrra laga nr. 38/2018. Jafnframt mátti finna dæmi um reglur sem höfðu haldist óbreyttar frá árinu 2006. Í eftirfylgni Ríkisendurskoðunar á þjónustu við fatlað fólk samkvæmt lögum nr. 38/2018 sem kom einnig út í febrúar 2025 er ályktað að leggja þarf aukna áherslu á innra eftirlit þjónustuveitenda og skilja betur á milli áherslna í ytra og innra eftirliti. Þá þarf að nýta lagaheimild um frumkvæðiseftirlit með virkari hætti til að kanna kerfisbundið virkni stjórnunarkerfa þeirra sem þjónustuna veita, þ.m.t reglur, verklagsreglur og innra eftirlit.
ÖBÍ telja brýnt að sveitarfélög og eða þjónustusvæði hafi burði og metnað til að sinna lagalegum skyldum sínum. Sveitarfélög landsins eru fjölbreytt bæði hvað varðar rekstur og fólksfjölda og því misburðug við veitingu á þjónustu. Sú staða má ekki bitna á íbúum sem treysta mikið eða alfarið á félags- og heilbrigðisþjónustu og því þurfa ríki og sveitarfélög að útfæra öryggisnet sem grípur þau óháð lögheimilisskráningu. ÖBÍ leggur til að stjórnvöld bregðist við með afgerandi hætti með breytingum á 9. kafla laganna um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum. Í 110. gr. laganna um tegund eftirlitsmála segir að eftirlit ráðherra með einstökum ákvörðunum eða athöfnum sveitarfélaga fer fyrst og fremst fram á eftirfarandi hátt. ÖBÍ leggur til að við upptalningu 110. gr. laganna um tegund eftirlitsmála komi fram: með reglulegu eftirliti með gildandi reglum sveitarfélaga og samræmi þeirra við lögbundnar skyldur sveitarfélaga.
Virkt samráð og umsagnargátt sveitarfélaga
Mörg vandamál og hindranir sem fatlað fólk mætir í samfélaginu má rekja til þess að ákvarðanir eru teknar án samráðs við fatlað fólk í upphafstigi. Þannig verða til lausnir og framfaraskref sem eiga að bæta hag allra en virka einungis fyrir suma. Í því ljósi er vert að nefna útfærslu rafrænna skilríkja en stór hópur fatlaðs fólks getur ekki notað þau sem skerðir aðgengi þeirra að grunnþjónustu og lýðræðislegri þátttöku. Þrátt fyrir að reglur sveitarfélaga hafa mikil áhrif á daglegt líf fólks, sérstaklega þá hópa sem þurfa að sækja mikla þjónustu hafa íbúar sveitarfélaga fá tækifæri til að senda umsagnir um fyrirhugaðar reglugerðarbreytingar.
Almennt óska sveitarfélög landsins ekki eftir umsögnum um fyrirhugaðar reglugerðabreytingar eða aðgerðir en þó eru dæmi um að nokkur sveitarfélög hafi auglýst eftir umsögnum um einstök mál. Þá er vert að nefna samráðsgátt Reykjavíkurborgar sem dæmi um miðlægan vettvang fyrir umsagnir á sveitarstjórnarstiginu en þó hafa einungis tólf mál verið send þar inn til umsagnar síðan í mars 2023, að frátöldum deiliskipulögum í skipulagsgátt.
ÖBÍ leggur til að stofnuð verði ein samráðsgátt sveitarfélaga þar sem allar reglugerðir, samþykktir og aðgerðaráætlanir sem er vísað áfram úr sveitarstjórn til frekari meðferðar í nefndum, ráðum eða sviðum, verða birtar til samráðs við íbúa og hagsmunasamtök. Hægt er að nýta útlit og uppbyggingu samráðsgáttarinnar sem og samráðsgátt Reykjavíkurborgar við hönnun á samráðsgátt sveitarfélaga. Þá leggur ÖBÍ til að tilgreint verði í sveitarstjórnarlögum að sveitarfélögum beri að setja allar reglugerðir, samþykktir og aðgerðaráætlanir sem er vísað áfram úr sveitarstjórn til frekari meðferðar í nefndum, ráðum eða sviðum inn á miðlæga samráðsgátt sveitarfélaga. Jafnframt leggur ÖBÍ til að ráðherra verði falið að útfæra verklagsreglur fyrir samráð á sveitarstjórnarstigi til viðmiðunar og að öllum sveitarfélögum beri að setja sér verklagsreglur til að ná fram markvissu samráði.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Áform um endurskoðun sveitarstjórnarlaga
Mál nr. S-88/2025. Innviðaráðuneytið
Umsögn ÖBÍ, 19. júní 2025