
ÖBÍ fagnar allri markvissri vinnu sem stuðlar að velferð og velsæld barna, jafnt fatlaðra og ófatlaðra. Íslenskar sem og erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að fatlað fólk er í sérstökum áhættuhópi sem þolendur ofbeldis. Ungar fatlaðar konur eru líklegri til að verða fyrir kynferðisbroti og alþjóðlegar rannsóknir sýna að fötluð börn eru líklegri en ófötluð börn til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi eða allt að 4,6 sinnum. Það er afar brýnt að uppræta ofbeldi gegn börnum og mikilvægt er að hafa í huga að fötluð börn eru sérstaklega viðkvæmur hópur. ÖBÍ hvetur þess vegna til þess að sérstaklega verði hugað að réttindum fatlaðra barna og ungmenna þegar unnið er að ofangreindri þingsályktunartillögu og að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður hafður að leiðarljósi í þeirri vinnu.
Ekkert um okkur án okkar.
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ – réttindasamtaka
Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ- réttindasamtaka
Áform um tillögu til þingsályktunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2026-2030
Mál nr. S-81/2025. Dómsmálaráðuneytið. Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
Umsögn ÖBÍ, 12. maí 2025