Skip to main content
Málefni barnaUmsögn

Áform um gagnaöflun um farsæld barna

By 31. janúar 2023apríl 12th, 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ, réttindasamtaka um áform um lagasetningu um gagnaöflun um farsæld barna, mál nr. 13/2023.

ÖBÍ – réttindasamtök (ÖBÍ) fagna áformum stjórnvalda um lagasetningu um gagnaöflun um farsæld barna.

Gleðilegt er að tryggja eigi frekara samræmi á milli greina barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og íslenskrar löggjafar. [Samkvæmt 7. gr. SRFF skulu aðildarríkin gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við önnur börn.]

Eins og fram kom í umsögn ÖBÍ um tillögu til þingsályktunar um Barnvænt Ísland þá lagði ÖBÍ m.a. til að tekin yrðu saman tölfræðigögn sem varða málefni fatlaðra barna með markvissum hætti til að hægt væri að sjá raunverulega stöðu fatlaðra barna í íslensku samfélagi en skortur hefur verið á tölfræðigögnum varðandi fötluð börn á Íslandi. Mikilvægt er að upplýsingar og gögn sem safnað er um farsæld og réttindi barna séu aðgengilegar öllum og gagnsæjar, svo hægt sé að nýta þær til umbóta fyrir börn.

Málefni fatlaðra barna jafnt og ófatlaðra barna eru mikilvæg og því fagnar ÖBÍ allri markvissri vinnu sem stuðlar að velferð og velsæld barna.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ – réttindasamtaka

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ – réttindasamtaka


Áform um frumvarp til laga um gagnaöflun um farsæld barna. Mál nr. 13/2023. Mennta- og barnamálaráðuneyti.
Umsögn ÖBÍ, 31. janúar 2023.