
Innflytjendur-Pexels
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) hafa áður fagnað gerð stefnu og framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda. Fyrirliggjandi framkvæmdaáæltun inniheldur fjölmörg áform sem eru til þess fallin að bæta stöðu innflytjenda og flóttamanna og íslensks samfélags í heild. Mörg áformin eru enn fremur til þess fallin að bæta stöðu fatlaðra innflytjenda og flóttamanna. Markmiðum um að styðja við geðheilbrigði flóttafólks var sérstaklega fagnað.
Í umsögn um Hvítbók í málefnum innflytjenda gerði ÖBÍ öðru fremur athugasemdir við að ekki voru sett fram markmið hvað varðar stöðu fatlaðra innflytjenda og flóttamanna. Í umsögninni minnti ÖBÍ á það sem komið hafði fram í Grænbók í málefnum innflytjenda og flóttamanna um stöðu fatlaðra innflytjenda og flóttafólks. Kom þar m.a. fram að mikilvægt væri að huga vel að fötluðu fólki og gefa sértakan gaum í grunnþjónustu við fatlað fólk. Einnig að fyrir fötluðum innflytjendum liggji fleiri áskoranir en fötluðum innfæddum þar sem til viðbótar við áskoranir fötlunar þeirra bætist sértækar áskoranir sem stafi af stöðu þeirra sem innflytjendur. Sértæk staða fatlaðra innflytjenda og fjölskyldna þeirra felist oft í tungumálaáskorunum, þeir búi við veikt félagslegt bakland, séu líklegri til að vera úr hópi lágtekjufólks eða undir fátæktarmörkum og að upplýsingar um málefni er varði fötlun séu síður aðgengilegar.
ÖBÍ ítrekar tillögur úr umsögn samtakanna og hvetur til þess að með nýrri þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda verði gerð markmið um að bæta stöðu fatlaðra innflytjenda í ljósi þessara sérstöu áskorana þeirra.
ÖBÍ er reiðubúið til samráðs og samvinnu á öllum stigum þessa máls. ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum verði ástæða til.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Áform um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2026-2029
Mál nr. S-118/2025. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 15. ágúst 2025
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.

