Skip to main content
Flóttafólk og innflytjendurUmsögn

Hvítbók í málefnum innflytjenda

By 20. júní 2024No Comments

„ÖBÍ telur að setja ætti fram markmið um að jafna lagalega stöðu fatlaðra innflytjenda og flóttamanna við stöðu annarra og tryggja lágmarksframfærslu.“

1. Almennar athugasemdir

ÖBÍ réttindasamtök telja Hvítbók í málefnum innflytjenda fela í sér fjölmörg mikilvæg áform um að bæta stöðu þessara hópa. Má þar m.a. nefna markmið um að tryggja góða og skilvirka upplýsingaþjónustu til innflytjenda og flóttafólks um réttindi sín, um inngildingu, um að tryggja aðkomu innflytjenda að ákvarðanatöku um sín eigin málefni, að draga úr fátækt á meðal innflytjenda, að standa vörð um mannréttindi og jafnrétti innflytjenda, að efla rannsóknir á sviðinu og áhersla á stuðning við viðkvæmustu hópana svo eitthvað sé nefnt.

Það vekur þó athygli ÖBÍ að í Hvítbókinni er ekki að finna sérstæka umfjöllun um fatlaða innflytjendur og flóttamenn og ekki sett fram áfrom um sértækar aðgerðir hvað þau varðar nema hvað varðar kennslu í íslensku táknmáli undir markmiði 3.1. ÖBÍ telur þörf á að í Hvítbókinni verði sérstaklega varpað ljósi á stöðu fatlaðra innflytjenda og flóttamanna og sett fram markmið í því skyni að bæta stöðu þeirra sérstaklega.

Umtalsverð umfjöllun var um stöðu fatlaðs fólks í Grænbók um málefni innflytjenda og flóttafólks. Kom þar m.a. fram á bls. 32 að mikilvægt væri að huga vel að fötluðu fólki og gefa sértakan gaum í grunnþjónustu við fatlað fólk. Einnig að fyrir fötluðum innflytjendum liggji fleiri áskoranir en fötluðum innfæddum þar sem til viðbótar við áskoranir fötlunar þeirra bætist sértækar áskoranir sem stafi af stöðu þeirra sem innflytjendur. Sértæk staða fatlaðra innflytjenda og fjölskyldna þeirra felist oft í tungumálaáskorunum, þeir búi við veikt félagslegt bakland, séu líklegri til að vera úr hópi lágtekjufólks eða undir fátæktarmörkum og að upplýsingar um málefni er varði fötlun séu aðgengilgar. ÖBÍ tekur heils hugar undir þessi sjónarmið sem sett voru fram í Grænbókinni en telur sem fyrr segir þörf á að kveða á um sértækar aðgerðir til að bregðast við stöðu fatlaðs fólks af erlendum uppruna í Hvítbókinni.

ÖBÍ bendir einnig á að í Hvítbókinni er sérstaklega fjallað um sjónarmið er varða aðra viðkvæma hópa á borð við konur, börn og flóttamenn. Um flóttamenn er t.d. undirstrikað mikilvægi snemmtæks stuðnings enda verði án þess líkur á að það taki fólk lengri tíma að ná rótfestu og virkni í samfélaginu og atvinnuþátttaka verði minni. Slíkt geti aukið líkur á því að fólk komist ekki inn í samfélagið og þurfi á velferðarþjónustu að halda til lengri tíma með tilheyrandi kostnaði fyrir einstaklingana og samfélagið. ÖBÍ bendir því á að fatlaðir flóttamenn sem og innflytjendur eru í aukinni hættu á að standa utan samfélagsins og í aukinni þörf fyrir velferðarþjónustu. Þörf fatlaðs fólks fyrir sértækan og snemmtækan stuðning er því enn meiri.

2. Athugasemdir varðandi markmið sem sett eru fram í Hvítbókinni

2.1.

ÖBÍ telur að setja ætti fram markmið um að jafna lagalega stöðu fatlaðra innflytjenda og flóttamanna við stöðu annarra og tryggja lágmarksframfærslu. Telur ÖBÍ það vera í samræmi við markmið 1.4 í Hvítbókinni um að fátækt meðal innflytjenda sé ekki meiri en almennt í samfélaginu. Að mati ÖBÍ verða fatlaðir innflytjendur fyrir mismunun í núverandi kerfi auk þess að í fjölmörgum tilvikum getur framfærsla þeirra tæplega talist trygg. Vísar ÖBÍ í þessu sambandi til 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Einstaklingar sem flytja til landsins eiga samkvæmt meginreglu ekki rétt á örorkulífeyrisgreiðslum fyrr en eftir að hafa haft skráð lögheimili á Íslandi í þrjú ár. Af þeim sökum er framfærasla fatlaðra innflytjenda oft verulega skert fyrstu árin hér á landi enda er önnur fjárhagsaðstoð takmörkuð og háð ströngum skilyrðum. Þá bendir ÖBÍ á að þrátt fyrir að flóttamenn séu undanþegnir slíku skilyrði um þriggja ára búsetu eigi hið sama ekki við um handhafa dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Enn fremur bendir ÖBÍ á að innbyggð mismunun felst í almannatryggingakerfinu að því leiti að greiðslur eru reiknaðar út frá hlutfalli búsetu á Íslandi eftir 16 ára aldur og fram til fyrsta örorku- eða endurhæfingarmats. Verður það þess valdandi að fólk sem flyst til Íslands eftir 16 ára aldur og fær örorku- eða endurhæfingarmat skv. almannatryggingakerfinu í kjölfar veikinda eða slysa fær hlutfallslegar greiðslur sem skilar sér í lægri framfærslu en almennum örorkuífeyri nemur. Er mismunurinn persónubundinn og getur orðið verulegur.

2.2.

ÖBÍ fagnar markmiðum um að tryggja góða og skilvirka upplýsingaþjónustu til innflytjenda og flóttafólks um réttindi sín, þ.m.t. markmiði 2.1. ÖBÍ telur þó að setja ætti fram sértæk markmið hvað varðar fatlaða innflytjendur. Í töflu yfir stöðu og valkosti í átt að auknum jöfnuði og jafnrétti á bls. 81 í Grænbókinni var að finna greiningu á stöðu og tækifærum til úrbóta hvað þetta varðar. Kom þar fram að þjónusta og stuðningur við innflytjendur tæki sjaldan mið af þörfum fatlaðs fólks. Gert væri ráð fyrir því að fatlað fólk félli undir almennar stuðningsaðgerðir sem væru í boði fyrir innflytjendur. Aðgengi að upplýsingum og stuðningi á grundvelli fötlunar væri ábótavant fyrir fatlaða innflytjendur. Byggja þyrfti brú á milli fólks sem veitti þjónustu fyrir fólk af erlendum uppruna og fólks sem veitir þjónustu fyrir fatlað fólk. Í Grænbókinni voru settir fram valkostir til að bregðast við þessum vanköntum. Kom þar fram að auka þurfi aðgengi fatlaðra innflytjenda að upplýsingum um réttindi sín og þjónustu sem er í boði. Tryggja þurfi að gert sé ráð fyrir fólki með fötlun við skipulagningu og framkvæmd sértækrar þjónustu við innflytjendur. Vinna þurfi markvisst að því að auka samráð og samvinnu milli þjónustukerfa innflytjendamála og fötlunarmála til að tryggja fötluðum innflytjendum þjónustu við hæfi. Telur ÖBÍ að full ástæða sé til að setja samskonar markmið fram í Hvítbókinni.

ÖBÍ vekur einnig athygli á að verulegur skortur er á að upplýsingar um réttindi fatlaðs fólks séu aðgengilegar á fleiri tungumálum en íslensku og ensku, þ.m.t. á www.island.is. Að mati ÖBÍ er um að ræða grundvallaratriði svo fatlað fólk af erlendum uppruna fái notið réttinda sinna hér á landi og hvetur því til þess að hið fyrsta verði komið upp áreiðanlegum upplýsingavef um réttindi fatlaðs fólks á helstu tungumálum og að tryggt verði aðgengi fyrir fatlað fólk, þ.m.t. stafrænt aðgengi.

2.3.

Í töflu yfir stöðu og valkosti í átt að auknum jöfnuði og jafnrétti á bls. 80 í Grænbókinni var einnig að finna greiningu á stöðu og tækifærum til úrbóta hvað varðar stöðu fatlaðra barna með erlendan bakgrunn. Þar segir að töluverð aukning sé í tilvísunum innflytjendabarna til Ráðgjafar- og greiningarstöðvar. Börnum með erlendan bakgrunn, þá sérstaklega börnum af annarri kynslóð innflytjenda, hafi verið vísað til Ráðgjafar- og greiningarstöðvar í marktækt hærra hlutfalli en íslenskum börnum. Fötlun komi í ljós seinna en ella vegna tungumálahindrana. Í Grænbókinni voru sem fyrr settir fram valkostir til að bregðast við þessum vanköntum. Kom þar fram að auka þurfi fræðslu til innflytjenda um þjónustu við fötluð börn hér á landi og stefnu yfirvalda um jafna þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Styðja megi við menningarlæsi hjá sérfræðingum og fræða um britingarmyndir fötlunar í tilvikum þegar börn og starfsmenn tala ekki sama tungumál. Telur ÖBÍ að full ástæða sé til að setja samskonar markmið fram í Hvítbókinni.

2.4.

Samkvæmt markmiði 2.4. skal stefnt að virkum rannsóknum á sviði innflytjendamála og miðlun rannsóknarniðurstaðna. ÖBÍ bendir á að á bls. 32 í Grænbókinni kemur fram að staða fatlaðra innflytjenda hafi mjög lítið verið rannsökuð hér á landi. Þrátt fyrir það eru engin sértæk markmið sett fram í Hvítbókinni um að auka við rannsóknir hvað hópinn varðar. Hvetur ÖBÍ til þess að framkvæmdar verði rannsóknir á stöðu hópsins og að í Hvítbókinni verði sett fram markmið hvað það varðar.

2.5.

Samkvæmt markmiði 2.6 skal stefnt að því að staða innflytjenda á húsnæðismarkaði sé sambærileg öðrum. Í því samhengi telur ÖBÍ að setja ætti fram sértæk markmið um að jafna stöðu fatlaðra innflytjenda á við aðra hvað varðar félagslegt húsnæði. Í nýrri skýrslu um húsnæðismál fatlaðs fólks kemur fram að fatlað fólk er líklegra til að vera á leigumarkaði og ólíklegra til að komast í gegnum greiðslumat. Jafnframt sýna tölur úr minnisblaði úr nýrri rannsókn um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi sem Varðan rannsóknarstofnun vann fyrir ÖBÍ að einungis 30,9% fatlaðra innflytjenda búa í eigin húsnæði. Þá upplifa 59,9% í sama hópi þunga byrði af húsnæðiskostnaði.

2.6.

ÖBÍ fagnar því að í kafla 3.1. séu settar fram áherslur um kennslu í íslensku táknmáli. ÖBÍ bendir jafnframt á að nauðsynlegt getur verið að tryggja einnig aðgengi að erlendri táknmálstúlkun, einkum fyrstu árin eftir að fólk flytur til landsins.

3. Lokaorð

Að lokum vill ÖBÍ hvetja ríkisstjórnina sem stendur á bak við Hvítbókina að gæta í hvívetna að orðræðu sinni er við kemur málefnum innflytjenda, flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Slík orðræða verði ætíð í samræmi við uppbyggileg áform sömu ríkisstjórnar um bætta stöðu hópanna á Íslandi, sbr. m.a. framtíðarsýn á bls. 11 í Hvítbókinni. Neikvæð og ónærgætin orðræða vinnur gegn slíkum áformum.

Í Hvítbókinni kemur fram að við gerð Grænbókar hafi verið rætt við innflytjendur en ekki kemur fram hvort rætt hafi verið við fatlaða innflytjendur eða flóttamenn. Sem fyrr ítrekar ÖBÍ mikilvægi þess að aðkoma fatlaðs fólks sé tryggð þegar um er að ræða mál sem þau varða.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum verði ástæða til.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ


Hvítbók í málefnum innflytjenda
Mál nr. S-109/2024. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 20. júní 2024