Skip to main content
AlmannatryggingarUmsögn

Almannatryggingar (fjárhæðir fylgi launavísitölu)

By 15. desember 2022janúar 26th, 2023No Comments

„lífeyrir almannatrygginga hefur dregist verulega aftur úr launaþróun og þar með aftur úr öðrum hópum. Í desember 2022 vantar tæp 71 þúsund krónur á mánuði upp á hámarksgreiðslur örorkulífeyris án heimilisuppbótar og tæp 68 þúsund með henni, ef miðað er við almenna launaþróun“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 (fjárhæð bóta). Þingskjal 65 – 65. mál.

ÖBÍ hefur í áraraðir bent á ólöglega framkvæmd Alþingis á ákvæði 69. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.

Samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar skulu bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

 

Efasemdir um orðalag ákvæðisins

Sá hluti ákvæðisins er varðar tengingu við verðlag er nokkuð skýr, þ.e. að vísitala neysluverðs ráði ef verðlag hækkar meira en laun. Hins vegar komu efasemdir fram í áliti minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við afgreiðslu frumvarpsins á 122. löggjafaþingi um að gengið væri frá málinu með nokkuð óljósu orðalagi og þá varðandi tengingu við almenna launaþróun og því mælt með skýrari tengingu við launaþróun.“ Yfirlýsingar forsætisráðherra í umræðum er þó tæplega hægt að túlka öðruvísi en þannig að orðlag 9. gr. frumvarpsins beri að skilja svo að bætur almannatrygginga […] skuli beinlínis fylgja launaþróun (launavísitölu).“ Það hefur ekki verið reyndin í gegnum árin.

 

Kjaragliðnun afleiðing meðferðar á ákvæðinu

Fjármálaráðuneytið og Alþingi hafa farið frjálslega með umrætt ákvæði, með því að skýra ákvæðið á þrengsta möguleika hátt í hvert sinn. Það hefur haft í för með sér að lífeyrir almannatrygginga hefur dregist verulega aftur úr launaþróun og þar með aftur úr öðrum hópum. Í desember 2022 vantar tæp 71 þúsund krónur á mánuði upp á hámarksgreiðslur örorkulífeyris án heimilisuppbótar og tæp 68 þúsund með henni, ef miðað er við almenna launaþróun (Einungis um þriðjungur öryrkja fær greidda heimilisuppbót).  Því er ljóst að lífeyristakar hafa orðið af háum fjárhæðum til framfærslu í gegnum tíðina, samanber einnig upphæðir kjaragliðnunar í töflu 1.

Tafla 1. Áhrif kjaragliðnunar á kjör öryrkja og samanburður mismunandi viðmiða – upphæðir á mánuði.

  Með heimilisuppbót Án heimilisuppbótar
Almenn launaþróun* 68 þús. kr. 71 þús. kr.
Þróun lágmarkslauna* 105 þús. kr. 103  þús. kr.
Lágmarkslaun / framfærsluviðmið** Rúmlega 5.500 .kr. Tæplega 80 þús.kr.

*frá árinu 2007, miðast við stöðuna í byrjun árs 2022.
** Mismunur á fjárhæðum lágmarkslauna og framfærsluviðmiða örorkugreiðslna frá TR.

Hérna er miðað við lágmarkstekjutryggingu í dagvinnu 368.000 kr. á mánuði, en lágmarkslaun munu hækka afturvirkt frá nóvember 2022 um að minnsta kosti 33.000 kr. í kjölfar nýgerðra kjarasamninga.

 

Launaþróun og launavísitala

Hugtakið launaþróun hefur t.d. ekki verið talið hið sama og launavísitala, sem er eini löglegi mælikvarðinn á launaþróun. Samkvæmt efnislýsingu Hagstofu Íslands á launavísitölu segir vísitalan til um þróun launa á íslenskum vinnumarkaði og byggir á launahugtakinu „regluleg laun“.

Launavísitalan byggir á lögum um launavísitölu nr. 89/1989 en skv. 2. gr. laganna skal vísitalan sýna svo sem unnt er breytingar heildarlauna allra launþega fyrir fastan vinnutíma. Á heimasíðu Hagstofu Íslands kemur fram að launavísitala sýni almenna launaþróun. „Mánaðarleg launavísitala mælir mánaðarlegar breytingar á reglulegum launum á íslenskum vinnumarkaði og sýnir almenna launaþróun.“

Einnig má benda á að fjármálaráðuneytið hefur áður haldið því fram að skilgreining ráðuneytisins á hugtakinu launaskrið sé „í samræmi við skilgreiningu Hagstofunnar um launaskrið“ en þess má geta að Hagstofan hefur sent tölvubréf til ÖBÍ þar sem fram kemur að stofnunin hafi ekki lagt mat á svokallað launaskrið utan kjarasamninga. Í svari þeirra segir ennfremur orðrétt „engin ein skilgreining er til um launaskrið“.

 

Fyrirmynd af samskonar en mun skýrara lagaákvæði

Hægt væri að útfæra 69. grein laga um almannatrygginga mun betur en nú er gert, þannig að hún væri skýrara og næði betur tilgangi sínum. Ein leið væri að taka upp samskonar lagaákvæði fyrir greiðslur almannatrygginga og er að finna í 4. gr. laga um brottfall laga um kjararáð nr. 79/2019.
Þingfararkaup skv. 1. gr. nemur 1.101.194 kr. á mánuði. Þingfararkaup skal taka breytingum 1. júlí ár hvert.

Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar.

„Í þessu ákvæði kemur skýrt fram hver viðmiðunarhópurinn er (starfsmenn ríkisins), hvaða launahugtak er miðað við (regluleg laun), hvaða breytingu eigi að horfa til (breyting á meðaltali), tímabilið sem er byggt á (næstliðið almanaksár) og hvenær breytingin skuli eiga sér stað (1. júlí ár hvert). Þá er skilgreint hver eigi að annast greininguna sem liggur til grundvallar (Hagstofa Íslands). Það eina sem er ekki skilgreint sérlega vel er hvaða gögn skuli liggja til grundvallar en af orðanna hljóðan má ætla að Launarannsókn Hagstofunnar leiki lykilhlutverk. Þetta er skýrt dæmi úr íslenskri löggjöf um hvernig er hægt væri að útfæra 69. grein laga um almannatrygginga mun betur en nú er gert“.

 

Ákvæðið þarf að framfylgja skyldum

Tilgangur ákvæðis um hækkun lífeyris almannatrygginga ætti að vera að framfylgja skyldum aðildarríkja til að tryggja fötluðu fólki stöðugt batnandi lífsskilyrði, sbr. 1. mgr. 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa m.a. viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.“

Að því sögðu er rétt að benda á mikilvægi þess að ákvæðið í frumvarpinu setji ekki þak á hækkun lífeyris almannatrygginga, ef vilji löggjafans er að hækka lífeyrinn umfram launa- og neysluverðsvísitölu til dæmis til að leiðrétta kjaragliðnun síðustu áratuga.

Í núverandi fyrirkomulagi er launaþróun og vísitala neysluverðs í frumvarpi til fjárlaga áætluð fyrir komandi fjárlagaár. Frá því núverandi ákvæði 69.gr. laga um almannatryggingar var innleitt hefur launa- og/eða verðlagsvísitala yfirleitt hækkað meira en spár í fjárlögum gerðu ráð fyrir. Lífeyristakar hafa þó sjaldnast fengið leiðréttingu vegna þessa.

 

Ekkert um okkur án okkar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Bergþór H. Þórðarson
varaformaður ÖBÍ réttarsamtaka

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka


Umsögn ÖBÍ send til nefndasviðs Alþingis, 15. desember 2022. Almannatryggingar (fjárhæðir fylgi launavísitölu) 65. mál, lagafrumvarp