Skip to main content
AlmannatryggingarKjaramálUmsögn

Almannatryggingar (launavísitala)

By 31. október 2025No Comments
Á myndinni eru margir þátttakendur í réttindagöngu ÖBÍ. Flest eru með fjólublá skilti með ÖBÍ merkinu. Á skiltunum eru áletranir eins og „Aðgengi fyrir öll“, „Réttlæti“, „Við viljum efndir!“, „Hækkum örorkulífeyri“ og „Heilbrigði óháð efnahag“. Stemningin virðist kraftmikil.

ÖBÍ lýsir yfir stuðningi við áform ríkisstjórnarinnar um að setja inn launavísitölu í stað launaþróunar í 2. ml. 62. laga um almannatryggingar.

Frá því ákvæðið var innleitt hefur launa- og/eða verðlagsvísitala yfirleitt hækkað meira en spár í fjárlögum hafa gert ráð fyrir. Núverandi framkvæmd ákvæðisins hefur haft í för með sér að lífeyrir almannatrygginga hefur dregist verulega aftur úr launaþróun. Þar með hafa þeir sem byggja afkomu sína á lífeyri almannatrygginga dregist aftur úr öðrum tekjuhópum. Uppsöfnuð kjaragliðnun frá árinu 1997 er um 75,5% eins og sjá má í töflu í meðfylgjandi fylgiskjali.

Sá hluti núverandi ákvæðis 62.gr. laga um almannatryggingar sem snýr að því að taka mið af launaþróun er óljóst orðarður og veitir enga leiðsögn um framkvæmdina. Því er mikið rými til túlkunar. Á þetta var bent í umræðum og öðrum lögskýringargögnum þegar ákvæðið var sett í lög. Sú breyting að setja launavísitölu í stað launaþróunar er mikilvæg þar sem hún kemur í stað mats og túlkunar fjármála- og efnahagsráðuneytisins á launaþróun.

Sem fyrr segir fagnar ÖBÍ framangreindum áformum ríkisstjórnarinnar. Engu að síður er bent á að kjaragliðnun sú sem myndast hefur árum saman mun ekki hverfa fyrir vikið, sjá töflu í fylgiskjali með þessari umsögn.

Þá er ljóst að lægstu taxtar stéttarfélaga eru ennþá hærri en greiðslur almannatrygginga. Samkvæmt 8. tl. stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar er von á að „gripið verði til frekari aðgerða til að bæta grunnframfæslu tekjulágra lífeyrisþega umfram vísitöluþróun“. Það er von ÖBÍ að í þeim aðgerðum verði stigið til fulls það skref að leiðrétta orðna kjaragliðnun.

Í greinargerð með frumvarpinu segir undir kaflanum um mat á áhrifum að hingað til hafi kaupmáttur greiðslna almannatrygginga verið tryggður, sem er ekki rétt, sbr. fyrrnefnd tafla í fylgiskjali. Almenn launaþróun og verðlagsþróun hafa sífellt verið vanmetin og þá hefur alltaf hallað á lífeyristaka. Þetta hefur valdið því að greiðslur almannatrygginga hafa ítrekað fengið minni hækkun en sem nemur vísitölu neysluverðs. Auk þess var ákvæði þáverandi 69.gr. laga um almannatryggingar (nú 62. gr.) tekið úr sambandi við fjárlög áranna 2009 og 2010.

  • Árið 2009 hefðu greiðslur almannatrygginga átt að hækka um 19,9% í samræmi við þróun vísitölu neysluverðs en hækkuðu einungis um 9,6%.
  • Árið 2010 voru fjárhæðir almannatrygginga frystar.
  • Í janúar 2011 hækkuðu greiðslur almannatrygginga einungis um 3,5% en launavísitala síðustu tólf mánuði á undan hafði hækkað um 9,1%.

Þetta orsakar því mikla skekkju lífeyristökum í óhag og hefur leitt til þess að greiðslur almannatrygginga eru lægri en ella.

Prósentuhækkanir flest ár frá efnahagshruni hafa verið of lágar til að hækkanir í krónutölum hafi náð að vega upp á móti fyrri kjaragliðnun. Því má segja að frumvarpið sem hér er til umsagnar muni draga úr kjaragliðnun.

Séu áform um að heimilt verði að útfæra framkvæmd breytinga lífeyris nánar í reglugerð leggur ÖBÍ áherslu á að slíkri heimild verði markaður rammi í lögum sem tryggir að markmiðum frumvarpsins verði náð.

ÖBÍ hefur ítrekað, m.a. í umsögnum til Alþingis, bent á hversu hátt hlutfall hækkunar greiðslna almannatrygginga myndi renna aftur til hins opinbera í formi staðgreiðslu. Því er jákvætt skref að þetta hlutfall sé reiknað út og tekið inn í áhrif af frumvarpinu í greinargerð þess.

Ekkert um okkur án okkar!

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka


Almannatryggingar (launavísitala)
155. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 31. október 2025


 

Fylgiskjal

Tafla – Hækkun meðaltals launavísitölu og vísitölu neysluverðs milli ára samanborið við hækkun grunnlífeyris hvers árs

Árið 1998 hækka laun um 9,37%, verðbólga er 1,66%, örorkulífeyrir hækkar um 4,00%. Mismunurinn er 5,37% (þ.e. laun + verðlag hækka meira en lífeyrir). Kjaragliðnun stendur í 75,5%. Næsta ár1999, Laun hækka um 6,81%, verðbólga er 3,44%, örorkulífeyrir hækkar um 11,28%. Mismunur er -4,47% (það ár hækkar lífeyrir meira). Kjaragliðnun er 66,5%. Árið 2000: Laun hækka um 6,65%, verðbólga er 5,01%, örorkulífeyrir hækkar um 5,26%. Mismunur er 1,39%. Kjaragliðnun er 74,3%. Árið 2001 Laun hækka um 8,86%, verðbólga er 6,68%, örorkulífeyrir hækkar um 4,00%. Mismunur er 4,86%. Kjaragliðnun er 71,9%. 2002 Laun hækka um 7,15%, verðbólga er 4,80%, örorkulífeyrir hækkar um 8,50%. Mismunur er -1,35%. Kjaragliðnun er 64,0%. 2003 Laun hækka um 5,61%, verðbólga er 2,11%, örorkulífeyrir hækkar um 3,20%. Mismunur er 2,41%. Kjaragliðnun er 66,2%. 2004 Laun hækka um 4,68%, verðbólga er 3,21%, örorkulífeyrir hækkar um 3,00%. Mismunur er 1,68%. Kjaragliðnun er 62,3%. 2005 Laun hækka um 6,75%, verðbólga er 4,05%, örorkulífeyrir hækkar um 3,50%. Mismunur er 3,25%. Kjaragliðnun er 59,6%. 2006 Laun hækka um 9,54%, verðbólga er 6,76%, örorkulífeyrir hækkar um 9,72%. Mismunur er -0,18%. Kjaragliðnun er 54,6%. 2007 Laun hækka um 9,02%, verðbólga er 5,03%, örorkulífeyrir hækkar um 2,90%. Mismunur er 6,12%. Kjaragliðnun er 54,9%. 2008 Laun hækka um 8,12%, verðbólga er mjög há, 12,42%, örorkulífeyrir hækkar um 7,64%. Mismunur er 4,78%. Kjaragliðnun er 46,0%. 2009 Laun hækka um 3,94%, verðbólga er 11,99%, örorkulífeyrir hækkar um 9,60%. Mismunur er 2,39%. Kjaragliðnun er 39,3%. 2010 Laun hækka um 4,80%, verðbólga er 5,40%, en örorkulífeyrir hækkar 0,00% það ár. Mismunur er 5,40%. Kjaragliðnun er 36,0%. 2011 Laun hækka um 6,79%, verðbólga er 3,99%, örorkulífeyrir hækkar um 8,10%. Mismunur er -1,31%. Kjaragliðnun er 29,1%. 2012 Laun hækka um 7,77%, verðbólga er 5,19%, örorkulífeyrir hækkar um 3,50%. Mismunur er 4,28%. Kjaragliðnun er 30,8%. 2013 Laun hækka um 5,66%, verðbólga er 3,88%, örorkulífeyrir hækkar um 3,90%. Mismunur er 1,77%. Kjaragliðnun er 25,4%. 2014 Laun hækka um 5,80%, verðbólga er 2,04%, örorkulífeyrir hækkar um 3,60%. Mismunur er 2,20%. Kjaragliðnun er 23,2%. 2015 Laun hækka um 7,18%, verðbólga er 1,64%, örorkulífeyrir hækkar um 3,00%. Mismunur er 4,18%. Kjaragliðnun er 20,6%. 2016 Laun hækka mjög mikið, um 11,37%, verðbólga er 1,71%, örorkulífeyrir hækkar líka mikið, um 9,70%. Mismunur er 1,67%. Kjaragliðnun er 15,8%. 2017 Laun hækka um 6,84%, verðbólga er 1,77%, örorkulífeyrir hækkar um 7,50%. Mismunur er -0,66%. Kjaragliðnun er 13,9%. 2018 Laun hækka um 6,45%, verðbólga er 2,66%, örorkulífeyrir hækkar um 4,70%. Mismunur er 1,75%. Kjaragliðnun er 14,6%. 2019 Laun hækka um 4,89%, verðbólga er 3,03%, örorkulífeyrir hækkar um 3,60%. Mismunur er 1,29%. Kjaragliðnun er 12,6%. 2020 Laun hækka um 6,32%, verðbólga er 2,84%, örorkulífeyrir hækkar um 3,50%. Mismunur er 2,82%. Kjaragliðnun er 11,2%. 2021 Laun hækka um 8,29%, verðbólga er 4,44%, örorkulífeyrir hækkar um 3,60%. Mismunur er 4,69%. Kjaragliðnun er 8,2%. 2022 Laun hækka um 8,30%, verðbólga er 9,60% (hæst á seinni árum), örorkulífeyrir hækkar um 8,77%. Mismunur er 0,83%. Kjaragliðnun er 3,3%. 2023 Laun hækka um 10,70%, verðbólga er 7,24%, örorkulífeyrir hækkar um 8,24%. Mismunur er 2,46%. Kjaragliðnun er 2,5%. 2024 Laun hækka um 5,90%, verðbólga er 4,90%, örorkulífeyrir hækkar um 5,60%. Mismunur er 0,30%. Kjaragliðnun er 0,3%.