Skip to main content
AlmannatryggingarUmsögn

Almannatryggingar (réttindaávinnsla og breytt framsetning)

By 12. janúar 2023No Comments
Tryggingstofnun

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka  við frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007 (réttindaávinnsla og breytt framsetning) Þingskjal 675 — 533. mál.

Eftir skoðun á frumvarpinu telja ÖBÍ réttindasamtök (hér eftir ÖBÍ) nauðsynlegt að bæta við athugasemdum er varða réttindaávinnslu, sem ekki komu fram við fyrra samráð.

Það er mat ÖBÍ að fyrirhugaðar breytingar skýri ekki ákvæði laga um réttindi lífeyrisþega en nauðsynlegt er að lögin séu skýr þannig einstaklingum sé ljós réttur sinn. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að umboðsmaður Alþingis hefur bent á að það sé sérstaklega brýnt að ákvæði laga um réttindi lífeyristaka séu skýr. ÖBÍ tekur heilshugar undir það og hvetur til þess að ákvæðin verði endurskoðuð með það fyrir augum að gera þau skýr, samanber ábendingar í umsögninni við t.d. 3. gr., 7 gr. og 12. gr. frumvarpsins.

Þörf er á að uppfæra fjárhæðir m.v. breytingar sem tóku gildi 1.1.2023. Á fyrri stigum samráðs vegna frumvarpsins kom fram vilji ráðuneytisins til að bæta við lögin heimild til mánaðarskiptingar tekna frá lífeyrissjóðum við útreikning lífeyrisréttinda, sambærilegri þeirri sem á við um atvinnutekjur. Nánar verður vikið að þessu í umsögninni undir r-lið 7.gr. frumvarpsins, en ÖBÍ hvetur eindregið til að sú heimild verði að lögum.

 

Athugasemdir við einstakar greinar:

Um 1. gr. frumvarpsins (2. gr. laga um almannatryggingar) Orðskýringar

Í frumvarpinu er lögð til sú jákvæða breyting að draga úr notkun orðsins „bætur“ og nota orðið „greiðslur“ í staðinn. Hugtakið „greiðslur“ kemur að miklu leyti í stað orðsins „bætur“. Skilgreining á hugtakinu „bætur“ er tekin út en hugtakið er eftir sem áður í frumvarpinu og ætti því að vera skilgreint. Einnig er bent á að skilgreiningu og merkingu á orðinu „greiðslur“ vantar í frumvarpið.

 

Um 3. gr. frumvarpsins (4. gr. laga laganna) Tryggðir samkvæmt lögunum

Hér er lagt til að við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist ,,sbr. 59. og 64. gr. laganna‘‘. Í ákvæði 1. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um að þeir séu tryggðir skv. lögunum sem búsettir eru hér á landi, sbr. 5. tölul. 2. gr., að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna nema annað leiði af milliríkjasamningum.“ Að mati ÖBÍ er ákvæðið alls ekki til þess fallið að skýra réttarstöðu þeirra einstaklinga sem sækja um greiðslur almannatrygginga. Í raun felur það í sér að unnt sé að víkja að öllu leiti frá lögum um almannatryggingar með milliríkjasamningum, en af því leiðir að verulega erfitt getur reynst umsækjendum að þekkja rétt sinn.

Stjórnvöldum er með þessu veitt víðtækt svigrúm til að ákvarða hin endanlegu réttindi. Bent er á að samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, skal öllum þeim sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í ákvæðinu felst skylda löggjafans að tryggja tiltekin lágmarksréttindi öryrkja í lögum. Þeim áskilnaði hefur löggjafinn m.a. fullnægt með lögum um almannatryggingar. Af framangreindri lagaáskilnaðarreglu leiðir einnig að óheimilt er að skerða þau félagslegu réttindi sem að löggjafinn hefur kveðið á um, nema með lögum.

Þannig er óheimilt að kveða á um frávik frá ákvæðum laganna eða heimila takmarkanir á beitingu þeirra í milliríkjasamningi, að því marki sem slíkt er til íþyngingar fyrir greiðsluþega. Það fæli í sér brot gegn 76. gr. stjórnarskrárinnar ef ákvæði milliríkjasamnings leiddu til þess að einstaklingur nyti lakari réttar en hann ætti samkvæmt reglum laga um almannatryggingar. Ekki er að finna neina tryggingu í frumvarpinu fyrir því að ekki sé unnt að beita ákvæðum slíkra milliríkjasamninga með íþyngjandi hætti.

Þá er framangreind heimild varhugaverð í ljósi þess hvernig Tryggingastofnun hefur beitt reglum Evrópuréttar á undanförnum árum, en sú framkvæmd stofnunarinnar hefur verið uppspretta margra ágreiningsefna. Mörg dæmi eru um að Tryggingastofnun hafi túlkað ákvæði milliríkjasamninga með íþyngjandi hætti þannig að einstaklingar njóti lakari réttinda en samkvæmt lögum um almannatryggingar. Slík mál hafa meðal annars komið til kasta umboðsmanns Alþingis og dómstóla en af niðurstöðum þeirra leiðir m.a. að röng beiting Trygginga­stofnunar á Evrópureglum hefur leitt til mikilla skerðinga fyrir stóra hópa fólks.

ÖBÍ leggur til að skýrt sé í frumvarpinu að aðeins sé heimilt að víkja frá ákvæðum laganna eða heimila takmarkanir á beitingu þeirra að því marki sem slíkt frávik, eða slík takmörkun, er til ívilnunar fyrir einstaklinga eða leiði í hið minnsta ekki til þess að þeir séu verr settir en þeir væru samkvæmt ákvæðum laganna. Með þeim hætti væri greiðsluþegum samkvæmt lögunum undantekningarlaust tryggður sá réttur sem löggjafinn hefur kveðið á um hverju sinni.

 

Um 5. gr. frumvarpsins (13.gr. laganna) Úrskurðarnefnd velferðarmála

Hér er um að ræða jákvæða breytingu.

 

Um c-lið 7. gr. frumvarpsins (18. gr. laganna) Réttindahlutfall

Samkvæmt skýringum við ákvæðið í frumvarpinu virðist breytingin eiga að veita ívilnandi heimild sem er jákvætt. Mikilvægt er að sú ívilnandi heimild komi einnig skýrt fram í texta lagaákvæðisins sjálfs og að henni skuli ekki beitt leiði hún til þess að viðkomandi njóti lakari réttar en fengist ef ákvæðum laganna um réttindaávinnslu ellilífeyris væri beitt.

 

Um i-lið 7. gr. frumvarpsins (24. gr. laganna) Skilyrði og ávinnsla örorkulífeyris

Tilgangur með breytingunni virðist vera að skýra skilyrði og ávinnslu örorkulífeyris og auka svigrúm til réttar til örorkulífeyris hér á landi.

Í b-lið 1. mgr. i-liðar er að finna nýmæli um að þeir sem að voru tryggðir hér á landi við 18 ára aldur og metnir til a.m.k. 75% örorku frá 18 ára aldri, eigi rétt til greiðslna örorkulífeyris, að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Um er að ræða jákvæða breytingu hvað varðar þann hóp sem að ákvæðið tekur til. Þó er ekki hægt að skilja ákvæðið öðruvísi en að umsækjandi þurfi að flytja til Íslands fyrir þann dag sem hann verður 18 ára til að ákvæði b-liðar eigi við. Í a- og c-lið eru sett þrengri skilyrði fyrir einstaklinga sem eru í sambærilegum aðstæðum að öðru leiti en því að þeir voru búsettir erlendis við 18 ára aldur og þ.a.l. ekki tryggðir hér á landi á þeim tímapunkti. Hið sama gildir um þá sem t.a.m. fá örorkumat við 19 ára aldur en hafa áður verið búsettir erlendis, samkvæmt ákvörðun foreldra sinna.

Í þessu samhengi verður að benda á að samspil 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar leiðir af sér að löggjafinn verður að gæta jafnræðis við skipulagningu almannatryggingakerfisins. Í því felst að skipa verður réttindum þeirra sem eru í sambærilegum aðstæðum með sambærilegum hætti. Að mati ÖBÍ eru fyrrnefndir hópar ekki í svo ósambærilegum aðstæðum að málefnalegt geti talist að mismuna þeim í samanburði við þá öryrkja sem voru tryggðir hér á landi við 18 ára aldur. Samkvæmt frumvarpinu er reglan til hagsbóta fyrir unga öryrkja en hún er ómarkviss, að því leiti að hún nær ekki til allra ungra öryrkja. ÖBÍ leggur til að ákvæðið verði endurskoðað, þannig að það taki til allra ungra öryrkja en ekki einungis þess þrönga hóps sem ákvæði frumvarpsins tekur til.

Í c-lið 1. mgr. i-liðar eru sett inn skilyrði til viðbótar við að „hafa verið tryggðir hér á landi í samfellt síðustu tólf mánuði áður en örorka þeirra var metin a.m.k. 75%“  Þessi viðbótarskilyrði þurfa ekki að koma til ef einstaklingur hefur verið tryggður í öðru EES-ríki fyrir flutninginn til Íslands. Þetta þarf að vera skýrt.  Í sama lið er nýtt ákvæði sem kveður á um geymslu réttinda að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þar með talið 12 mánaða samfellda búsetu fyrir örorkumat. Ekki er að finna rökstuðning fyrir því hvers vegna það er eftir sem áður gerð krafa um 12 mánaða búsetu. Það er vart hægt að tala um að virkja aftur réttindi ef engu að síður er kveðið á um 12 mánaða ávinnslutíma.

Tryggingastofnun beinir því til örorkulífeyristaka sem hafa verið búsettir erlendis að sækja um örorkulífeyri frá öðru EES-ríki í gegnum stofnunina. Á sama hátt sækja samskiptastofnanir í öðrum EES-ríkjum um örorkulífeyri til Tryggingastofnunar fyrir þá einstaklinga sem áður hafa verið búsettir á Íslandi. Umsækjendum um örorkulífeyri hjá TR er synjað um örorkulífeyri, (þrátt fyrir að engin áhöld eru um að þau uppfylli læknisfræðileg skilyrði örorkumats) sökum þess að erlend samskiptastofnun sótti um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun á meðan umsækjandi var enn búsettur í því búsetulandi. Umsækjendur sem búsettir voru erlendis þegar fyrsta umsókn um örorkulífeyri er lögð fram, geta því ekki uppfyllt skilyrði um 3ja ára búsetu áður en umsókn var lögð fram sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er staða þessara einstaklinga óbreytt, þ.e. þeir munu aldrei geta uppfyllt skilyrði um að hafa verið tryggðir hér á landi samfellt a.m.k. þrjú síðustu almanaksárin áður en örorka þeirra var metin a.m.k. 75%. Þessum einstaklingum eru til frambúðar vísað til síns sveitarfélags varðandi framfærslu. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er ætlað að vera tímabundið neyðarúrræði til að brúa tímabilið þar til einstaklingur kemst aftur í virkni (atvinnu) eða fær örorkulífeyri, en ekki kerfi sem stendur undir framfærslu til lengri tíma. Þar að auki er sú framfærsla sjaldnast í boði fyrir þá sem eiga maka sem aflar tekna eða fær fullar örorku- eða ellilífeyrisgreiðslur frá TR.

Í 3. mgr. 1. mgr. i-liðar er kveðið á um að sé ekki um full réttindi að ræða, reiknist örorkulífeyrir í hlutfalli við áunnin tryggingartímabil umsækjanda frá 16 ára aldri fram til þess tíma sem að 75% örorkumat liggur fyrir í fyrsta sinn. Í síðasta málsl. 3. mgr. 24. gr. kemur fram að við tryggingartímabilið skuli bæta tímabilinu sem reiknast frá þeim tíma sem 75% örorkumat liggur fyrir í fyrsta sinn og fram til ellilífeyrisaldurs, sbr. þó 4. mgr. 56. gr. Í fyrri hluta ákvæðisins er þannig lagður til grundvallar sá skilningur sem ÖBÍ hefur alltaf byggt á og hefur verið skorið úr um fyrir dómstólum og umboðsmanni Alþingis.

Aftur á móti er í lok ákvæðisins bætt við ,,sbr. þó 4. mgr. 56. gr.‘‘ Í því ákvæði kemur fram, að hafi gagnkvæmur milliríkjasamningur verið gerður við ríkið sem greiðir bæturnar, þá fari um samspil bóta eftir ákvæðum samningsins. Virðist tilvísunin þannig fela í sér að með milliríkjasamningi sé unnt að breyta fyrirkomulagi útreiknings framtíðartímabila. Eru hér ítrekuð þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins, um að það standist vart stjórnarskrá ef unnt er að semja um lakari rétt í milliríkjasamningi en einstaklingur myndi njóta samkvæmt lögunum. Fyrri hluti ákvæðisins, og það eina sem lesa má úr texta þess, felur í sér skýra reglu um að svonefndur framreikningur búsetu skuli teljast sem búseta á Íslandi. Sú regla er rétt og eðlileg.

 

Um o-lið 7. gr. frumvarpsins (30 gr. laganna) Tekjugrunnur

Í lögunum er enn gert ráð fyrir að fjármagnstekjur maka hafi áhrif á útreikning greiðslna, en  ÖBÍ hefur margsinnis vakið máls á því að það sé ótækt. Þá bendi ÖBÍ einnig á að eignir og fjármagnstekjur barna örorkulífeyristaka hafa áhrif á útreikning greiðslna.  Í 6. og 81. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt segir:

 (6. gr.) „Barn, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, er ekki sjálfstæður skattaðili sé það á framfæri foreldra sinna (þar með taldir kjörforeldrar, stjúpforeldrar, fósturforeldrar). Þó skulu þær tekjur barns sem um ræðir í 1. tölul. A-liðar 7. gr. skattlagðar sérstaklega.“

(81. gr.). „Eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. sr.,  teljast með eignum foreldra eða hjá þeim manni sem nýtur barnabóta vegna barnsins, sbr. A-lið 68. gr., og barnið er með skráð lögheimili hjá.“

Þetta þýðir að foreldri sem er örorkulífeyristaki er samskattað með barni/börnum sínum undir 16 ára aldri og skiptir þar engu að eignir og fjármagnstekjur séu eign og fjármagnstekjur barnsins.

ÖBÍ leggur til að gerðar verði lagabreytingar sem tryggja að örorkulífeyristakar verði ekki fyrir tekjuskerðingum sökum þess að barn/börn eigi eignir og/eða fái fjármagnstekjur. Ljóst er að foreldrar eru ekki á framfæri barna sinna undir 16 ára aldri. 

Í 5. tl. 1. mgr. o-liðar er kveðið á um að frítekjumark tekjutryggingar vegna atvinnutekna skuli vera 300.000 kr. Um árabil og áfram samkvæmt frumvarpinu, hefur aftur á móti verið kveðið á um frítekjumark tekjutryggingar í bráðabirgðaákvæði við lögin og þannig hefur ákvæði 69. greinar um hækkanir fjárhæða verið aftengt frítekjumarkinu. Að mati ÖBÍ væri eðlilegra að kveða á um frítekjumark tekjutryggingar í ákvæðinu sjálfu. Væri það annars vegar til þess fallið að gera regluna skýrari og hins vegar myndi það tryggja að frítekjumarkið hækki samkvæmt 69. gr. (nú 62. gr.) laganna. Þannig væri tryggt að frítekjumarkið haldi í við verðlagsbreytingar og þjóni tilgangi sínum.

Samkvæmt 6. tl. 1. mgr. ákvæðisins skal lífeyrir almannatrygginga frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við, í samræmi við nánari ákvæði samninganna, sbr. 58., 59. og 64. gr. ekki teljast til tekna. Að því marki sem að slíkir samningar kunna svo að kveða á um að lífeyrir skuli teljast til tekna verður að gæta að því að slíkt verði lífeyristakanum ekki til íþyngingar, þ.e.a.s. leiði til lakari réttar en samkvæmt almannatryggingalögum. Vísað er til ítarlegra athugasemda við 3. gr. frumvarpsins.

Hér er  nauðsynlegt að vekja athygli á túlkun Tryggingastofnunar á reglum Evrópuréttar. Sú túlkun hefur verið í andstöðu við þá reglu sem kemur fram í lagatextanum. Ástæðan er að Tryggingastofnun hefur almennt „túlkað“ greiðslur frá almannatryggingum annarra landa sem lífeyrissjóðstekjur sem koma því til skerðinga á sama hátt og íslenskar lífeyrissjóðstekjur. Með þessu móti hefur stofnunin komið í veg fyrir að regla laganna nái fram að ganga. Af öllum löndum Evrópska efnahagssvæðisins virðist sem Tryggingastofnun líti svo á að örfá lönd séu með almannatryggingar í þessum skilningi. ÖBÍ skorar á Alþingi að óska eftir upplýsingum um þessa framkvæmd og grundvöll hennar en nánar má vísa til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10077/2019 (sem fjallað er um í frumvarpinu undir g-lið 7. greinar frumvarpsins).

 

Um p-lið 7. gr. frumvarpsins (31. gr. laganna) Reglugerðarheimild

Í p-liðnum er gert ráð fyrir heimild ráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd kaflans, þ.m.t. um örorkumat, tekjugrunn, útreikning og ákvörðun greiðslna. Í gegnum árin hafa endurtekið komið upp tilvik þar sem réttindi öryrkja samkvæmt lögum hafa verið þrengd með ólögmætum hætti, í ákvæðum reglugerða. Þykir því afar varasamt að heimila svo víðtækt framsal löggjafarvalds til ráðherra, sér í lagi þegar um ræðir atriði sem eru grundvöllur réttarins til aðstoðar samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar.

 

Um r-lið 7. gr. (33. grein laganna) Útreikningur og endurreikningur

Í 5. mgr. greinarinnar er heimild til mánaðaskiptingu atvinnutekna. ÖBÍ leggur til að málsgreininni verði breytt þannig að heimildin nái einnig til til greiðslna úr skyldubundnum lífeyrissjóðum. Slík breyting yrði til hagsbóta flestum lífeyristökum og til þess fallin að draga úr of- og vangreiðslum við endurreikning og uppgjör tekjutengdra lífeyrisgreiðslna,  sérstaklega þegar lífeyristaki fær eingreiðslu frá lífeyrissjóði, t.d. í upphaf greiðslna frá lífeyrissjóðum og/eða afturvirkar leiðréttingar hjá lífeyrissjóðum.

 

Um s-lið 7. gr. frumvarpsins (34. grein laganna) Ofgreiðsla og vangreiðsla

Með 2. mgr. s-liðar er heimild Tryggingastofnunar til að draga ofgreiðslur frá öðrum tekjutengdum greiðslum útvíkkuð. Heimildinni er nú einnig ætlað að ná til tilvika þar sem ofgreiðsla stafar af því að greiðsluþegi hefur ekki tilkynnt um aðrar breyttar aðstæður, t.d. breytingar á búsetu eða hjúskaparstöðu. Að mati ÖBÍ, eru með reglunni lagðar óhóflegar byrðar á greiðsluþega, enda ekki ljóst fyrir alla að atriði svo sem breytt hjúskapastaða hafi áhrif á greiðslur almannatrygginga. Væri nær að Tryggingarstofnun fylgdist sjálf með framangreindum atriðum, í ljósi þeirrar rannsóknar- og leiðbeiningaskyldu sem hvílir á stofnuninni, hlutverks hennar sem þjónustustofnunar og eðli upplýsinganna, þ.e.a.s. að um ræðir opinberar upplýsingar.

ÖBÍ hefur sent fyrirspurnir til Seðlabanka Íslands varðandi hvaða vexti er um að ræða  og upplýsingar um vaxtaprósentuna á hverjum tíma. Fyrirhuguð breyting myndi hafa í för með sér að upplýsingar um vextina yrðu óaðgengilegar auk þess sem vextir þessir breytast nokkuð ört. Þegar of- / vangreiddar greiðslur eru leiðréttar er óljóst hvaða aðferð er notuð til að reikna vexti á leiðréttinguna.

 

Um b-lið 12. gr. frumvarpsins (56. gr. laganna) Samspil greiðslna

Í 4. mgr. b-liðar um samspil greiðslna, er lagt til að hafi gagnkvæmur milliríkjasamningur verið gerður við ríkið sem greiði bæturnar fari um samspil bóta frá tveimur ríkjum eða fleiri eftir nánari ákvæðum samningsins, sbr. nýjar 58. og 59. gr. um útflutning og skörun greiðslna og milliríkjasamninga. Eru í þessu samhengi endurteknar þær athugasemdir sem settar voru fram við 3. gr. frumvarpsins um að slíkar skörunarreglur megi þó aldrei leiða til lakara réttar en samkvæmt lögunum.

 

Um d-lið 12. gr. frumvarpsins (58. gr. laganna) Útflutningur og skörun bóta

Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að frá bótum, sem bótaþegi á rétt á hér á landi, dragist bætur sem hann fær samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil. Að mati ÖBÍ er þetta eðlileg regla og ætti raunar að vera eina skörunarregla laganna. Reglan er betur til þess fallin að stuðla að því að einstaklingum séu tryggð þau réttindi sem þeir njóta samkvæmt lögunum. Til skýringar mætti þó bæta við að reglan gildi um bætur sömu tegundar, enda óeðlilegt að örorkulífeyrir skerðist t.d. vegna barnalífeyris erlendis frá. Margoft hefur verið fjallað um að ákvæði milliríkjasamninga megi ekki leiða til þess að rétthafar njóti lakari réttar en samkvæmt lögunum. Eiga þessar athugasemdir sömuleiðis við um fyrri málsgrein ákvæðisins.

 

Um e-lið 12. gr. frumvarpsins (59. gr. laganna) Milliríkjasamningar

Í e-liðnum er kveðið á um að ríkisstjórninni sé heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Þá kemur fram að í þeim megi m.a. veita undanþágur frá ákvæðum laganna og heimila takmarkanir á beitingu þeirra. Líkt og ítarlega var fjallað um í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins, gengur það í berhögg við 76. gr. stjórnarskrárinnar að kveða á um lakari réttindi í slíkum milliríkjasamningum en myndu leiða af ákvæðum laganna. Brýnt er að fram komi að heimilaðar undanþágur og takmarkanir skuli einungis vera til ívilnunar.

 

Um h-lið 12. gr. frumvarpsins (62. gr. laganna) Árleg breyting fjárhæða

Ekki er fyrirhuguð breyting á ákvæðinu en ÖBÍ vekur athygli á óskýru orðalagi ákvæðisins og þeim vandkvæðum sem það hefur valdið í framkvæmd. Í ákvæðinu er kveðið á um að greiðslur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 42. gr. og fjárhæð skv. 28. gr., skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skuli m.a. taka mið af launaþróun. Afar misjafnt hefur verið hvaða mælikvarðar eru lagðir til grundvallar þegar lagðar eru til breytingar til samræmis við launaþróun. Hefur þessi óskýrleiki átt þátt í því að greiðslur samkvæmt lögunum hafa dregist verulega aftur úr launaþróun.

Til að sporna gegn þessari þróun leggur ÖBÍ til að ákvæðinu verði breytt á þann hátt að skýrari viðmið verði lögð til grundvallar, t.a.m. að miða skuli við launaþróun alþingismanna eða ríkisstarfsmanna.

 

Um 16. gr. frumvarpsins – breytingar á 7. gr. laga um félagslega aðstoð – Endurhæfingarlífeyrir

Það er jákvætt að stytta biðtíma eftir endurhæfingarlífeyrir úr þremur árum í eins árs samfelldan tíma.  Að mati ÖBÍ ætti hins vegar að vera nægjanlegt að umsækjandi um endurhæfingarlífeyri eigi lögheimili á Íslandi þegar umsókn er lögð fram óháð lengd samfelldrar búsetu á landinu. Því fyrr sem endurhæfing hefst eftir slys eða veikindi sem valda tímabundinni óvinnufærni því meiri líkur er á að endurhæfing skili árangri og fyrirbyggi ótímabæra örorku. Því er mikilvægt að bið eftir endurhæfingu sé eins stutt og mögulegt er. Að stytta skilyrði um búsetu á Ísland enn frekar myndi styðja við yfirlýsta stefnu núverandi ríkisstjórnar að við heildarendurskoðun almannatryggingar sé lögð rík áhersla á snemmtæka íhlutun, möguleika á endurkomu á vinnumarkað og að kerfið hvetji til virkrar þátttöku í samfélaginu.

Komið hafa upp tilvik þar sem einstaklingar með meðfædda fötlun fái synjun á umsókn sinni um örorkumat eftir að hafa náð 18 ára aldri og er vísað til þess að endurhæfing sé ekki fullreynd. Af lögskýringagögnum má ráða að markmið með endurhæfingarlífeyri eigi ekki við um fatlað fólk og enn síður við um þann hóp einstaklinga sem hafa áður verið skilgreindir sem fötluð börn enda er fötlun almennt skilgreind sem langvarandi ástand í íslenskum rétti.  Skilyrðið um að endurhæfing sé fullreynd á ekki við um þennan hóp nema um sé að ræða endurhæfingu eftir alvarleg veikindi eða slys.

 

Um 18. gr. frumvarpsins – breytingar á 9. gr. laga um félagslega aðstoð

Í þessum lið eru aðeins gerðar nauðsynlegar breytingar á orðalagi 9. gr. laga nr. 99/2007 í samræmi við þær breytingar sem frumvarpið gerir til að viðhalda sérreglu tekjutenginga sérstakrar framfærsluuppbótar við aldursviðbót og tekjutryggingu.

Tilvalið hefði verið að undanskilja mæðra-/feðralaun skerðingum á sérstakri framfærslu-uppbót. Kostnaður við þá breytingu væri lítill en skipti miklu máli fyrir lífeyristaka sem fá greidd mæðra-/feðralaun. Í dag telja þessar greiðslur að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar þar sem þær teljast til bóta „samkvæmt lögum þessum“. Þrátt fyrir að þessar greiðslur séu ekki hluti lífeyristrygginga heldur réttindi einstæðra foreldra tveggja eða fleiri barna sem búsett eru hér á landi. Lífeyristökum sem eiga rétt á þessum greiðslum er því mismunað þar sem þeir fá ekki notið þeirra eins og aðrir einstæðir foreldrar.

Ekkert um okkur án okkar.

 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Bergþór Heimir Þórðarson
varaformaður ÖBÍ réttindasamtaka

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka


Almannatryggingar og félagsleg aðstoð (réttindaávinnsla og breytt framsetning) 533. mál, lagafrumvarp. Umsögn ÖBÍ, 12. janúar 2023.

Sjá nánar um málið á vef Alþingis