Skip to main content
Málefni barnaRéttarkerfiUmsögn

Almennar sanngirnisbætur

By 29. nóvember 2023júní 7th, 2024No Comments

„vistheimilabörn eru jaðarsett vegna þess skaða sem þau urðu fyrir og hafa þannig síður burði til að leita réttar síns“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka (ÖBÍ) um frumvarp til laga um almennar sanngirnisbætur. 449. mál.

Í 2. gr. frumvarpsins er gildissvið laganna nánar skilgreint, þ.e. að lögin taki til einstaklinga sem orðið hafa fyrir illri meðferð eða ofbeldi vegna háttsemi opinberra aðila eða einkaaðila skv. 1. gr. sem valdið hefur þeim varanlegum skaða sem ekki fæst bættur á annan hátt. Í 2. mgr. greinarinnar eru talin upp í dæmaskyni hvers konar stofnanir um ræðir en tekið er fram í frumvarpinu varðandi 2. mgr., 2. gr. að ekki sé um tæmandi talningu að ræða.

ÖBÍ vill engu að síður að það komi skýrt fram að lögin taki einnig til þeirra tilvika þar sem barn hefur orðið fyrir ofbeldi þegar því hefur verið ráðstafað af barnaverndaryfirvöldum í fóstur á einkaheimilum.

Ennfremur segir í 2. gr. að einstaklingar eigi ekki rétt til sanngirnisbóta nema þeir hafi tæmt önnur réttarúrræði, þar á meðal fyrir dómstólum. ÖBÍ leggst alfarið gegn því að það sé gert að skilyrði að einstaklingar hafi tæmt önnur réttarúrræði. Brotin áttu sér almennt stað þegar einstaklingarnir voru á barnsaldri og því er réttur þeirra til sanngirnisbóta fyrndur.

ÖBÍ leggur til að orðalagi ákvæðisins verði breytt á þann veg að skilyrðið um að einstaklingar hafi tæmt önnur réttarúrræði verði fellt brott.

Samkvæmt frumvarpinu skulu sanngirnisbætur til einstaklings aldrei vera hærri en 5 millj. kr. en sú upphæð uppfærist 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs. Í mörgum tilvikum er um að ræða einstaklinga sem á barnsaldri voru beittir mikilli vanrækslu og í sumum tilvikum andlegu-, líkamlegu- og kynferðisofbeldi á barnsaldri. Margir þessara einstaklinga glíma enn þann dag í dag við andlega og líkanlega kvilla, eru óvinnufær af þeim sökum og sumir hverjir með 75% örorku.

Fjárhæð sanngirnisbóta ættu því að vera nær þeim fjárhæðum miska- og skaðabóta sem skaðabótalög gera ráð fyrir og taka mið af því tjóni sem þau urðu fyrir.

Frumvarpið mælir fyrir því að í umsókn skulu koma fram ástæður þess að einstaklingur telur sig eiga rétt til sanngirnisbóta, leggja fram gögn máli sínu til stuðnings, þar á meðal læknisvottorð og vitnisburði einstaklinga eins og kostur er.

Fara verður varlega í að leggja of miklar kröfur á umsækjendur að rifja upp og greina frá þeirri upplifun sem þau urðu fyrir sem börn og ætti jafnvel ekki að gera það nema undir handleiðslu sérfræðinga.

Auk þess bendir ÖBÍ á að fyrrum vistheimilabörn eru jaðarsett vegna þess skaða sem þau urðu fyrir og hafa þannig síður burði til að leita réttar síns.

Varðandi samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar kemur fram að frumvarpið sé til þess fallið að tryggja að gætt verði jafnfræðis gagnvart öllum þeim sem eru í sambærilegri stöðu sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

ÖBÍ tekur ekki undir að frumvarpið sé til þess fallið að gætt verði jafnræðis enda munu einstaklingar sem ríkið á eftir að greiða bætur fá um helmingi lægri bætur, miðað við hámarksupphæð í núgildandi lögum, en þeir einstaklingar sem hafa nú þegar fengið greiddar bætur.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ

Bára Brynjólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Almennar sanngirnisbætur
449. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 29. nóvember 2023


Myndin sýnir þrjú ung börn á vöggustofu Reykjavíkurborgar, Hlíðarenda. Morgunblaðið, 24. desember 1954. Timarit.is