Skip to main content
Umsögn

Ályktun aðalfundar ÖBÍ 2019 um atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega

By 4. nóvember 2019No Comments
Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á ríkisstjórnina að láta af núverandi tekjuskerðingum gagnvart atvinnutekjum öryrkja, sem gera ekkert nema letja til þátttöku á vinnumarkaði, og taka frekar upp jákvæða hvata til að afla tekna. Þannig vinna allir.

Greinargerð

Í tíu ár hafa lífeyrisgreiðslur til öryrkja verið skertar vegna tekna þeirra (króna á móti krónu, nú 65 aurar á móti hverri krónu) og frítekjumark vegna atvinnutekna ekki hækkað.

Í nýlegri skýrslu Kolbeins Stefánssonar um fjöldaþróun örorkulífeyrisþega kemur fram að samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru 28,5% örorkulífeyrisþega starfandi árið 2017, þar af voru 37,6% í fullu starfi. Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að meginþorri örorkulífeyrisþega vilja vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði en er í raun gert erfitt fyrir, því atvinnutekjur þeirra verða nánast að engu eftir skerðingar.

Jákvæðir hvatar til þátttöku á vinnumarkaði ættu að vera fyrsta skref í stað kerfislægra þvingana í formi starfsgetumats, enda eru örorkulífeyrisþegar best fallnir til að meta eigin starfsgetu.

Jafnframt er ljóst að stjórnvöld þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi og bjóða upp á störf, vinnutíma við hæfi og viðeigandi aðlögun á vinnumarkaði og leggja þar með línuna fyrir almenna vinnumarkaðinn.

Ekkert um okkur án okkar!