Skip to main content
Umsögn

Ályktun aðalfundar ÖBÍ um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

By 4. nóvember 2019No Comments
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) hvetur Alþingi til þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en á haustþingi 2020.

Greinargerð 

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 13. desember 2006. Samningurinn hefur það markmið að tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og að jöfnu allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.

Íslenska ríkið varð aðili að samningnum með fullgildingu 20. september 2016. Í ríkjum, sem gera skýran greinarmun á þjóðarétti og innanlandsrétti, er nauðsynlegt, til að tryggja rétt einstaklinga innanlands, að lögfesta samninga. Íslenska kerfið byggir á slíkri aðgreiningu. Fullgilding nær þess vegna, því miður, ein og sér, ekki að tryggja fötluðu fólki á Íslandi fyllilega þau réttindin sem í samningnum felast. Lögfesting myndi t.a.m. tryggja að einstaklingar gætu byggt rétt sinn á samningnum með beinum hætti fyrir dómstólum.

Löggjafinn er meðvitaður um þessa stöðu og samþykkti, þann 3. júní 2019, þingsályktun þar sem ríkisstjórninni var falið að leggja fram frumvarp, sem hafi það að markmiði að samningurinn skuli lögfestur, fyrir Alþingi eigi síðar en 13. desember 2020.  Samþykki ályktunarinnar var mikilvægt og jákvætt skref í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks.

Ríkisstjórnin er hvött til þess að vinna hratt og örugglega að málinu og tryggja að frumvarpið verði lagt fram innan gefins tímaramma. Alþingi er hvatt til þess að samþykkja frumvarpið án tafar þegar það kemur fram.

Lögfesting samningsins mun tryggja öllu fötluðu fólki á Íslandi raunverulega mannréttindavernd.

Ekkert um okkur án okkar!