Skip to main content
Umsögn

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands 2018

By 6. október 2018No Comments
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2018, krefst þess að Alþingi breyti fjárlagafrumvarpi ársins 2019 og forgangsraði í þágu þeirra sem verst standa í íslensku samfélagi.

Stjórnvöld hafa sýnt á spilin. Nú hefur fjármálaráðherra lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019. Þar er gert ráð fyrir að greiðslur TR til örorkulífeyrisþega hækki um 3,4%. Á sama tíma er verðbólguspá 2,9%. Því er raunhækkun ekki nema 0,5% ef spár standast. Enn og aftur bregðast stjórnvöld þeim sem síst skyldi með því að afhenda fötluðu og langveiku fólki raunhækkun upp á 1.200 kr. á mánuði fyrir skatt.

Einstaklingur með óskertan örorkulífeyri hefur einungis 204.000 kr. til ráðstöfunar á mánuði eftir skatt. Þrátt fyrir lengsta hagvaxtarskeið sögunnar hafa örorkulífeyrisþegar ekki fengið leiðréttingu á sínum kjörum eins og aðrir hópar. Þvert á móti er stórum hópi örorkulífeyrisþega haldið í fátæktargildru með lága framfærslu og „krónu á móti krónu“ skerðingu auk þess sem frítekjumörk hafa verið óbreytt frá hruni.

Almenningur tók á sig kjaraskerðingu í kjölfar hruns 2008. Síðan þá hafa aðrir hópar samfélagsins fengið leiðréttingu á kjörum en ekki fatlað og langveikt fólk. Á tímabilinu 2010-2016 hækkaði þingfararkaup um tæp 600.000 kr. á mánuði á meðan örorkulífeyr-ir TR hækkaði einungis um 60.000 kr.

Það er öllum ljóst að „kjarabætur“ upp á 1.200 kr. eins og nú er lagt til, er blaut tuska í andlitið sér í lagi þegar haft er í huga að forsætisráðherra hefur í ræðu og riti lagt áherslu á að sporna gegn fátækt og ójöfnuði. Framkvæmdin er allt önnur.

Setjum manngildi ofar auðgildi – Skiljum engan eftir