Skip to main content
Umsögn

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 14. – 15. október 2016 um aðgengismál

By 15. október 2016No Comments

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 14. – 15. október 2016, hvetur stjórnvöld strax á haustþingi til að beita sér fyrir því að fjarlægja tálma sem hindra aðgengi í samfélaginu í víðum skilningi og hafi virkt eftirlit með því að þeir verði ekki settir upp aftur.

Standa þarf vörð um ákvæði byggingarreglugerðar um algilda hönnun og setja þarf á fót sérstakt aðgengiseftirlit með byggingum. Bæta þarf allar almennings-samgöngur og tryggja þarf að akstursþjónusta sé til staðar fyrir þá sem þurfa á henni að halda. Þá er brýnt að festa í lög kröfu um að allt útsent sjónvarpsefni sé textað. Bætt aðgengi fyrir suma er bætt aðgengi fyrir alla.

 

Greinargerð

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) sem Ísland er aðili að er kveðið á um að „Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem almenningi er opin eða látin í té, bæði í þéttbýli og dreifbýli.“ (SRFF, 9. gr.)

Þrátt fyrir ofangreint vantar enn talsvert mikið upp á að allir hafi sama aðgengi að samfélaginu. Meirihluti mannvirkja á Íslandi er óaðgengilegur hreyfihömluðu fólki, upplýsingar eru ekki ætlaðar öllum og möguleikar margra á að taka fullan þátt í samfélaginu eru litlir sem engir. Þá fá ekki allir sem eru fatlaðir og/eða langveikir óháð aldri fullnægjandi akstursþjónustu sem bæta þarf úr sem fyrst.

Í niðurstöðum könnunar sem Gallup framkvæmdi í byrjun október sl. kom fram að 86,6% almennings er hlynntur því að tryggt verði með lögum að sveitarfélögin veiti fötluðu fólki, óháð aldri, akstursþjónustu svo að það geti farið allra sinna ferða. Með hliðsjón af þeirri staðreynd eru stjórnvöld hvött til að bæta úr þessu strax á haustþingi.

 

Ekkert um okkur án okkar!

 

Málefnahópur um aðgengi:

Grétar Pétur Geirsson (formaður), Andri Valgeirsson, Birna Einarsdóttir, Ingólfur Már Magnússon, Ingveldur Jónsdóttir, Jón Heiðar Jónsson og Lilja Sveinsdóttir.