Skip to main content
HeilbrigðismálRéttarkerfiSRFFUmsögn

Breyting á lögræðislögum 

By 17. nóvember 2022nóvember 18th, 2022No Comments

„ÖBÍ er reiðubúið að taka þátt í samráði og vinnu að fyrirhuguðum breytingum laganna frá fyrsta stigi enda búa samtökin yfir gífurlegri þekkingu á SRFF og eftirlitsstofnun hans sem og málefnum fatlaðs fólks, þ.á.m. fólki með geðrænar áskoranir og geðsjúkdóma.“

Efni: Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka (ÖBÍ) um áform um lagasetningu, breyting á lögræðislögum (ýmsar breytingar), mál nr. 209/2022.

Í samráðsgátt stjórnvalda er að finna áform um breytingar á nokkrum ákvæðum lögræðislaga, nr. 71/1997. Markmiðið sé meðal annars að kveða skýrar á um skilyrði fyrir nauðungarvistun og lögræðissviptingu ásamt því að gera frekari grein fyrir hlurverki lögráðamanna og yfirlögráðenda. Ákvæðin hafa sætt mikilli gagnrýni enda hvíla skilyrði fyrir jafn íþyngjandi inngripi á fötlun/geðsjúkdómi.

Í áformunum er þess getið að með breytingu á lögræðislögunum sé m.a. verið að bregðast við ábendingum alþjóðlegra eftirlitsaðila (CPT/CAT) og umboðsmanni Alþingis (OPCAT). Enn fremur stefni breytingarnar að því að lögin verði í fullu samræmi við kröfur sem leiða má af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).

ÖBÍ – réttindasamtök sitja í verkefnastjórn um landsáætlun um málefni fatlaðs fólks, en landsáætlunin er liður í lögfestingu á SRFF. Það vekur því furðu að sjá að fyrirhugað samráð skuli ekki vera víðtækara en raun ber vitni, en samráðið virðist bundið við sjúrkahús, sýslumenn og ráðuneyti að Geðhjálp undanskildu. Ef markmið lagabreytinga er að vera í samræmi við markmið og ákvæði SRFF þá þarf að endurskoða fyrirhugað samráð og kalla eftir slíku hjá hagsmunasamtökum og þeirra sem best þekkja til samningsins.

ÖBÍ er reiðubúið að taka þátt í samráði og vinnu að fyrirhuguðum breytingum laganna frá fyrsta stigi enda búa samtökin yfir gífurlegri þekkingu á SRFF og eftirlitsstofnun hans sem og málefnum fatlaðs fólks, þ.á.m. fólki með geðrænar áskoranir og geðsjúkdóma.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Alma Ýr Ingólfsdóttir
lögræðingur ÖBÍ réttindasamtaka


Mál nr. 209/2022. Breyting á lögræðislögum (ýmsar breytingar). Umsögn ÖBÍ send 17. nóvember 2022 til Dómsmálaráðuneytis.

Nánar um málið á Samráðsgátt stjórnvalda