Skip to main content
KjaramálUmsögn

Breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna

By 15. febrúar 2024febrúar 16th, 2024No Comments

ÖBÍ réttindasamtök fagna þeim breytingum sem eru fyrirhugaðar í frumvarpinu og mæla eindregið með því að 7. gr. frumvarpsins um heimild til niðurfellingu námslána vegna verulegra fjárhagsörðugleika lántaka, alvarlegra og varanlegra veikinda lántaka, eða annarra sérstakra ástæðna verði að lögum.

Allir geta veikst alvarlega eða orðið fyrir slysi hvenær sem er á lífsleiðinni. Slíkt áfall hefur oft á tíðum miklar breytingar í för með sér, meðal annars fjárhagslegar. Það getur m.a. leitt til þess að viðkomandi geti ekki nýtt sér menntunina til að afla tekna. Það sama á við um þá sem sökum alvarlegra og varanlegra veikinda eða afleiðinga slysa hafa ekki náð að ljúka námi en sitja uppi með námslán og afborganir af þeim. Í skýrslu Vörðu rannsóknaseturs vinnumarkaðarins um stöðu fatlaðs fólks frá desember 2023 kemur skýrt fram að stór hluti fatlaðs fólks á Íslandi býr við sárafátækt og lífsskilyrði þeirra eru töluvert verri en launafólks.

Á sama tíma er menntun mjög mikilvæg fyrir fatlað fólk þar sem hún gefur fólki frekari möguleika á vinnumarkaði og meiri möguleika á sveigjanlegum störfum. Þó eru atvinnutækifæri fatlaðs fólks almennt mun takmarkaðri en annarra.

Tekið er undir umsögn Hagsmunasamtaka heimilianna um mikilvægi þess að námslán séu ekki undanþegin áhrifum gjaldþrotaskipta.

ÖBÍ vill einnig koma á framfæri athugasemdum varðandi það að lög um Menntasjóð taka ekki til ábyrgðarmanna sem glíma við fjárhagsvanda en hér verður reifað raundæmi frá Umboðsmanni skuldara :

Ábyrgðarmaður var sjálf örorkulífeyristaki en í ábyrgð fyrir námsláni móður sinnar. Ábyrgðarskuldbindingin var gjaldfelld og nam skuldin mörgum milljónum króna ásamt innheimtukostnaði. Sjálf var ábyrgðarmaðurinn með námslán sem hún hefði fengið undanþágu frá afborgunum á grundvelli þess að hún væri örorkulífeyristaki og með lágar tekjur.

Í þessu dæmi sést svart á hvítu að Menntasjóður viðurkennir að hún geti ekki staðið undir eigin námslánum og veitir henni undanþágu frá afborgunum en býður ekki upp á neinar lausnir varðandi ábyrgðarskuldbindinguna á námsláni móður hennar.

Ekkert um okkur án okkar!

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka

Hrönn Stefánsdóttir
formaður málefnahóps ÖBí um atvinnu- og menntamál


Breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna
13. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 15. febrúar 2024