Skip to main content
KjaramálUmsögn

Breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023

By 7. október 2022mars 20th, 2023No Comments

„Lagt er til að Alþingi setji lög til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir skerði greiðslur til örorkulífeyrisþega með hliðsjón af tekjum frá TR“

Umsögn ÖBÍ um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023

 

Persónuafsláttur

Jákvætt er að við árlega breytingu á persónuafslætti verði 1,0% framleiðnivexti á ári bætt við verðbólgu. Skattkerfisbreytingarnar þurfa fyrst og fremst að miða að því að auka ráðstöfunartekjur mest hjá þeim tekjulægstu. Skattleysismörk lífeyristaka eru kr.171.434 á mánuði miðað við 100% skattkort. Af 200.000 kr. lífeyrisgreiðslum fer tæpar 9.000 kr. í staðgreiðslu, en dæmið sýnir að fólki er gert að greiða staðgreiðslu af mjög lágum tekjum. Þessu þarf að breyta.

Barnabætur

Lagt er til að fjárhæðir og skerðingarmörk verði uppfærð í samræmi við verðlag á sama hátt og krónutöluskattar.

Barnabætur tekjulægstu fjölskyldna rýrna að raunvirði, þar sem fjárhæðir og tekjuviðmið eru óbreytt þrátt fyrir 9,3% ársverðbólgu (miðað við september 2022). Fatlaðir foreldrar eru að stórum hluti í hópi tekjulægri foreldra sem þurfa að treysta á barnabætur. Skerðingarmörkin eru þó enn of lág eða rétt yfir lágmarkslaunum.

Víxlverkun örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða

Lagt er til að Alþingi setji lög til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir skerði greiðslur til örorkulífeyrisþega með hliðsjón af tekjum frá TR.

Í frumvarpinu er lagt til að framlengja bráðabirgðaákvæði til að koma í veg fyrir víxlverkun milli örorkugreiðslna frá almannatryggingum annars vegar og frá lífeyrissjóðum hins vegar. Bráðabirgðaákvæði þetta hefur verið í gildi frá 1. janúar 2014.

Á meðan ekki hefur verið fundin framtíðarlausn í málinu, er slíkt bráðabirgðaákvæði nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðsgreiðslur til örorkulífeyrisþega lækki enn frekar eða falli jafnvel niður. Allt frá árinu 2009 hefur ÖBÍ lagt áherslu á að fundin verði framtíðarlausn sem ver hagsmuni allra örorkulífeyrisþega.

Þessi tillaga hefur komið fram í fjárlagafrumvörpum á hverju einasta ári frá árinu 2013 en ekki fengið athygli stjórnvalda.

Bráðabirgðaákvæði um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega

Bráðabirðaákvæði um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna hefur verið endurnýjað óbreytt á hverju ári frá árinu 2009.

Æskilegra væri að færa frítekjumarkið úr bráðabirgðaákvæðinu yfir í varanlegt ákvæði. Það myndi engin áhrif hafa á kostnað ríkissjóðs vegna almannatrygginga.

Verðlagsuppfærsla krónutöluskatta

Lagt er til að engin hækkun verði á krónutölusköttum til tekjulægstu hópa meðan ekki hefur tekist að koma böndum á verðbólgu.

Krónutöluskattar hækka um 7,7%, þessi hækkun kemur verst við þá tekjulægstu sem greiða hærra hlutfall en tekjuhærri af sínum ráðstöfunartekjum í slíka skatta og verja hæsta hlutfalli tekna sinna til neyslu. Bent er á að í fjárlagafrumvarpinu er ýmist gefin upp að ársverðbólga 2022 verði 7,5% eða 7,7% Hærri forsendan 7,7% er fyrir tekjuhlið frumvarpsins en lægri forsendan fyrir útgjaldahliðina og óljóst á hverju þetta byggir.

Hækkun bifreiðagjalds meðan bifreiðastyrkir standa í stað

Nú verður að hækka fjárhæðir bifreiðastyrkja með breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007 með tilliti til verðlagsþróunar frá árinu 2009.

Þrátt fyrir mikla hækkun kostnaðar við kaup á bíl, eldsneyti og gjalda hafa styrkir og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga nánast staðið í stað frá árinu 2009 og hækkað án nokkurrar reglu á sex ára fresti að jafnaði. Staðan er orðin sú að styrkirnir nýtast varla til annars en til kaupa á úr sér gengnum hræjum, mengandi og óöruggum. Það er tómt mál að tala um orkuskipti undir þessum formerkjum.

Ekkert um okkur án okkar. 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka


Breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023. 2. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 7. október 2022