Skip to main content
Málefni barnaUmsögn

Breytingar á aðalnámskrá í grunn­skóla

By 1. nóvember 2022No Comments

ÖBÍ fagnar því að tekið er skref í átt að kennsluháttum sem kenndir eru við einstaklingsmiðað nám.“

Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8
150 Reykjavík

1. nóvember 2022

Umsögn ÖBÍ um tillögu til þingsályktunar vegna breytinga á aðalnámskrá í grunnskóla.

Með þessari þingsályktun er lagt til að breyting verði gerð á aðalnámskrá grunnskóla þar sem ríkjandi lestrarkennsluaðferðir í grunnskólum hafa ekki skilað nægilega góðum árangri. Markmið nýrrar aðferðar er að bæta lesskilning íslenskra barna og draga þar með úr þeirri áherslu sem lögð hefur verið á lestrarhraða sem skapað hefur óþarfa streitu og kvíða meðal grunnskólabarna. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland er aðili að er bann sett við mismunun á grundvelli fötlunar. Í samningnum kemur meðal annars fram að þjónusta við fatlað fólk skuli vera einstaklingsmiðuð, fjölbreytt og að fatlaðir einstaklingar skuli hafa stjórn á eigin lífi. Samkvæmt þingsályktunartillögunni á að innleiða hugmyndafræði sem m.a. leggur áherslu á einstaklingsmiðaðar áskoranir miðað við færni hvers og eins barns.

ÖBÍ fagnar því að tekið er skref í átt að kennsluháttum sem kenndir eru við einstaklingsmiðað nám. Með einstaklingsmiðuðu námi viðurkennum við að nemendur eru eins mismunandi og þeir eru margir.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur


Breytingar á aðalnámskrá í grunn­skóla. 52. mál, þingsályktunartillaga. 153. löggjafarþing 2022–2023. Þingmálið var áður lagt fram sem 562. mál á 152. þingi (breytingar á aðalnámskrá í grunnskóla). Sjá nánar á vef Alþingis