Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Breytingar á lögum um Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

By 19. júlí 2023ágúst 14th, 2023No Comments

„Samþætt sjón- og heyrnarskerðing er skilgreind sem sérstök fötlun en ekki tvær mismunandi fatlanir og því brýnt að stjórnvöld sjái til þess að þeir sem eru með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu fái þjónustu hjá sömu stofnun en ekki sitthvorri stofnuninni.“

Umsögn ÖBÍ um breytingar á lögum um Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu. Mál nr. 116/2023.

ÖBÍ – réttindasamtök (ÖBÍ) fagna því að til standi að gera breytingar á lögum um Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, stjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu.

Eftirfarandi eru þær breytingartillögur sem ÖBÍ – réttindasamtök leggja til.

1.  Við lið 1 í kafla B í áformum um lagasetningu bætist að stofnuninni sé einnig ætlað að hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu.

Í lið 1 í kafla B er fjallað um hlutverk Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónaskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu. Starfsemi hennar er ætlað að auka möguleika þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra með áherslu á stuðning til náms, sjálfstæðs heimilishalds, virkra tómstunda- og atvinnuþátttöku. Stofnuninni er ætlað að hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru blindir eða sjónskertir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Nauðsynlegt er að samþætt sjón- og heyrnaskerðing sé einnig nefnd varðandi þá einstaklinga sem stofnuninni beri að hafa yfirsýn yfir.

2. Lögunum verði breytt á þann veg að þjónusta fyrir heyrn og sjón sé á hendi sömu stofnunar og hjá sama ráðuneyti en ekki hjá sitthvorri stofnuninni og sitthvoru ráðuneytinu. Með þeirri breytingu munu gæði þjónustunnar og skilvirkni batna til muna.

Samþætt sjón- og heyrnarskerðing er skilgreind sem sérstök fötlun en ekki tvær mismunandi fatlanir og því brýnt að stjórnvöld sjái til þess að þeir sem eru með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu fái þjónustu hjá sömu stofnun en ekki sitthvorri stofnuninni.

3.  Lögin kveði á um að starfandi sé heyrnafræðingur hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni.

Einstaklingar sem eru með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að einnig sé starfandi heyrnafræðingur hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni sem getur unnið með sjónfræðingi og fulltrúa með sértæka þekkingu á samþættingu sem fylgir þessari fötlun og þannig sé veitt heildrænni þjónusta. Því leggur ÖBÍ eindregið til að með breytingu á lögunum verði tryggt að starfandi sé heyrnafræðingur hjá Þjónustu- og þekkingamiðstöðinni.

4. Hagsmunafélagið Fjóla sé einnig á meðal þeirra félaga sem haft er samráð við.

Í áformunum um lagasetningu er í F. lið fjallað um samráð. Þar eru nefnd ákveðin hagsmunafélög sem eru m.a. ÖBÍ – réttindasamtök og Blindrafélagið sem er hagsmunafélag blindra og sjónskertra. Hvergi er minnst á Fjólu sem er hagsmunafélag þeirra sem eru með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu. ÖBÍ leggur til að í framtíðinni verði einnig haft samráð við Fjólu félag fólks með samþætta sjón og heyrnarskerðingu.

Að öðru leyti taka ÖBÍ – réttindasamtök undir umsögn Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingafyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Bára Brynjólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Breytingar á lögum um Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu
Mál nr. 116/2023. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið
Umsögn ÖBÍ, 19. júlí 2023