Skip to main content
Málefni barnaSRFFUmsögn

Drög að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2025 til og með 2027

By 25. nóvember 2024nóvember 27th, 2024No Comments

„Fötluð börn eru mun berskjaldaðri fyrir hvers kyns ofbeldi en ófötluð börn hvar sem er í samfélaginu“

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) hafa fengið til umsagnar drög að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2025 til og með 2027. ÖBÍ fagna því að unnið sé að mikilvægri aðgerðaráætlun líkt og þeirri sem um ræðir.

Um aðgerðaráætlunina

Í inngangi er tiltekið á hverju aðgerðaráætlunin byggir og er þar m.a. tilteknir alþjóðsamningar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist. Á listann vantar hins vegar samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF/samningurinn þegar við á). Líkt og tiltekið er í inngangi aðgerðaráætlunarinnar er engum hópi eins hætt við að verða fyrir ofbeldi og fötluðum konum. Samningurinn er sérstaklega saminn með það í huga að útfæra mannréttindi sem birtast í öðrum alþjóðlegum samningum að raunveruleika fatlaðs fólks.

Í formálsorðum samningsins segir að ríki sem eiga aðild að samningnum viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, á að verða fyrir ofbeldi, skaða eða misþyrmingum, vanrækslu eða hirðuleysi, illri meðferð eða misnotkun í gróðaskyni. Ennfremur segir að aðildarríki viðurkenna að fötluð börn eigi að njóta til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við önnur börn og minnast skyldna til þess sem aðildarríki samningsins um réttindi barnsins hafa undirgengist.

Í 6. gr. SRFF er það svo sérstaklega áréttað að aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur verða fyrir fjölþættri mismunun og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fullu þróun, framgang og valdeflingu kvenna í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og grundvallarfrelsis sem samningur þessi kveður á um.

Um fötluð börn segir í 7. gr. SRFF Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll málefni er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefið tilhlýðilegt vægi í samræmi við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er viðeigandi tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

Lokaorð

ÖBÍ hvetur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð Reykjavíkur til þess að kynna sér efni samningsins og bæta honum við á listann svo öruggt sé að aðgerðaráætlunin hafi efni samningsins og hugmyndafræði hans að leiðarljósi. Fötluð börn eru mun berskjaldaðri fyrir hvers kyns ofbeldi en ófötluð börn hvar sem er í samfélaginu. Það er því gríðarlega mikilvægt að fræðsla endurspegli þann raunveruleika sem snýr að fötluðu fólki og þá sérstaklega börnum og konum. Jafnframt þarf efni fræðslunnar að vera aðgengileg fötluðu fólki og börnum. Öll fræðslan sem aðgerðaráætluninni er ætlað að vinna og fylgja eftir verður að endurspegla fatlað fólk og það hversu berskjaldað það er, en fatlað fólk tilheyrir öllum jaðarsettum hópum samfélagsins.

ÖBÍ vill gjarnan leggja sitt á vogarskálarnar þegar til framkvæmda aðgerðaráætlunarinnar kemur, t.a.m. með fræðslu hvers konar.

Virðingarfyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka.


Drög að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2025 til og með 2027
Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar
Umsögn ÖBÍ, 25. nóvember 2024